top of page

Ágústa: Ég er fötluð allan sólarhringinn – ég bý heima hjá mér

Höfundur: Ágústa Eir Guðnýjardóttir

Á síðustu þremur mánuðum hefur réttarkerfi Íslands, báðum dómstigum, tekist að fótum troða mannréttindi tveggja fatlaðra einstaklinga með þeim hætti að maður getur ekki orða bundist. Hér er annars vegar um að ræða dóm Hæstaréttar í máli Benedikts Hákons Bjarnasonar þar sem Reykjavíkurborg var sýknuð af kröfu hans um öryggi á eigin heimili allan sólarhringinn og hins vegar mál Salbjargar Óskar Atladóttur þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Reykjavíkurborg af þeirri sjálfsögðu kröfu hennar að fá að búa á eigin heimili, með aðstoð, alla daga ársins.

Það hlýtur að teljast fáheyrt að réttarkerfi vestræns velmegunarríkis skuli dæma fólk út af heimilum sínum á jafn hæpnum forsendum og hér um ræðir, sumsé þeim að reglur Reykjavíkurborgar leyfi bara ekki þann sveigjanleika sem til þarf þannig að þetta unga fólk geti búið heima hjá sér við öryggi og með reisn.

Reglurnar sem um ræðir fjalla um hámarks og lágmarks tímafjölda sem fatlaður einstaklingur getur fengið í beingreiðslur á mánuði. Og reglur Reykjavíkurborgar eru svo heilagar að dómstólar landsins hika ekki við að setja þær ofar mannréttindasáttmálum, lögum um málefni fatlas fólks og, það sem kórónar síðan alla vitleysuna; bæði reglurnar og umræddir dómar brjóta algjörlega gegn framtíðarsýn Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðs fólks. Á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur m.a. skýrt fram að við gerð framtíðarsýnar borgarinnar í málefnum fatlaðs fólks hafi samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verið hafður að leiðarljósi.

Hver trúir því þegar íbúarnir þurfa síðan að höfða dómsmál gegn sveitarfélaginu sínu sem snýst um að fá að búa heima hjá sér, á eigin heimili? Og, við skulum hafa það alveg skýrt, að velferðarstefna umrædds sveitarfélags felst m.a. í því að stuðla að sjálfstæðu lífi fatlaðs fólks á eigin forsendum. Sorglegt þegar stefna á blaði boðar eitt, en framkvæmdin opinberar síðan eitthvað allt annað.

Nei, meirihluti fatlaðs og langveiks fólks á Íslandi lifir lífi sínu á forsendum kerfisins, undarlegra reglna þess (sem stuðla ekki að jöfnum tækifærum og sjálfstæðu lífi) og brjóta hreinlega gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það segir kannski sína sögu að Ísland hefur ekki ennþá, tæpum 9 árum eftir undirritun samningsins, hvorki lögfest hann né innleitt og kannski stendur það ekkert til því þá er hugsanlegt að reglur Reykjavíkurborgar þyrftu að lúta í lægra haldi, jafnvel fyrir dómstólum.

Það getur hver maður reynt að setja sig í þau spor að þurfa, um hverja helgi, að pakka niður nauðsynlegustu eigum sínum af því annað hvort þarf að flytja heim (af stofnun) eða að heiman (á stofnun).

Þú ættir, kæri lesandi, að reyna að ímynda þér hvernig þér liði ef þér yrði gert, með dómi, að búa annarsstaðar en heima hjá þér aðra hvora viku. Og alveg sérstaklega mæli ég með því að þú prófir þetta fyrirkomulag ef þú ert í þeirri stöðu að geta ákveðið að annað fólk skuli þola slíka meðferð. Ég hef, sem fatlað barn, prófað þetta fyrirkomulag. Kerfið ákvað að ég skyldi, þá sex ára gömul, flytja af heimili mínu, frá foreldrum og systkinum, úr örygginu, allt vegna þess að í þá daga var minn „sérskóli“ aðeins í Reykjavík. En það var fyrir 40 árum og ég á erfitt með að trúa því að við séum ekki komin lengra, við sem þreytumst ekki á að telja okkur trú um sérstöðu okkar og annálaða mannvirðingu.

Sem fötluð kona bý ég greinilega við þau forréttindi að fá að búa heima hjá mér og flytja að heiman þegar mér sýnist svo, allt vegna þess að ég þarf ekki þá aðstoð sem Salbjörgu er nauðsynleg til að búa við sömu kjör og ég. Sem fötluð kona bý ég greinilega við þau forréttindi að ég fæ aðstoð við þær athafnir sem ég þarf þannig að ég get búið við öryggi á heimili mínu, alltaf, og þarf hvorki að þiggja endurgjaldslausa aðstoð eða ölmusur frá ættingjum mínum og vinum. Það eru mannréttindi sem Hæstiréttur Íslands dæmdi af Benedikt Hákoni Bjarnasyni fyrir nokkrum mánuðum og hafði þar sem sitt leiðarstef margumræddar reglur Reykjavíkurborgar um hámarksfjölda klukkustunda á mánuði til þeirra sem fá beingreiðslur.

Að dæma fólk af heimili sínu með þeim röksemdum að það uppfylli ekki skilyrði Reykjavíkurborgar til þess að fá fleiri beingreiðslutíma er ekki bara óheyrileg stífni og skammsýni, heldur jaðrar við mannvonsku. Í báðum dómsmálunum lágu fyrir álit sérfræðinga og voru þeir allir á einu máli um að heilsu og öryggi beggja, Salbjargar og Benedikts, væri best borgið með því að þau byggju heima hjá sér og nytu þeirrar aðstoðar sem til þarf þannig að þau geti lifað sjálfstæðu og innihaldsríku lífi, notið þess sem hugur þeirra stendur til og rækt sínar borgaralegu skyldur til jafns við aðra þegna.

Ég stend með ykkur Salbjörg og Benedikt, ykkar barátta verður líka mín því saman erum við sterkari.

Þessi grein er hluti af virðingarvakningu Tabú til stuðnings Benedikts H. Bjarnason og Salbjörgu Atladóttur en þau hafa bæði þurft að lögsækja Reykjavíkurborg fyrir mannréttindabrot og tapað málunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og öðru fyrir hæstarétti. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð mun deila reynslu sinni. Það er okkar von að þær fari eins og eldur í sinu um samfélagið og trufli valdhafa sem mest. Við hvetjum samborgara okkar til þess að deila greinunum á Facebook og tweeta eins og enginn sé morgundagurinn undir myllumerkinu #heimahjámér og merkja héraðsdóm, hæstarétt, Reykjavíkurborg, Dag B. Eggertsson og aðra í borgarstjórn við sem flest tækifæri.

15 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page