top of page

Áslaug: Ég er fötluð allan sólarhringinn – ég bý heima hjá mér

Höfundur: Áslaug Ýr Hjartardóttir

Eigið heimili, bílpróf, stúdentspróf, íþróttir, góð vinna. Allt eru þetta sjálfsagðir hlutir sem íslensk stúlka getur látið sig dreyma um. Flest af þessu telst tilheyra sjálfsögðum mannréttindum, s.s. menntun, ferðafrelsi og síðast en ekki síst valfrelsi. En einhvern veginn er það ekki sjálfsagt að allir fái að njóta mannréttinda, og í þeim hópi teljast þeir sem eru öðruvísi. Hvers vegna er sérstakur sáttmáli um réttindi fatlaðs fólks, svo dæmi sé tekið?

Fatlað fólk er minnihlutahópur, líkt og flestir ættu að vita. Þetta fólk hefur einhverjar líkamlegar eða andlegar sérþarfir sem skerða getu þeirra til þátttöku í samfélaginu. Til þess að lágmarka skerðinguna þarf þetta fólk viðeigandi hjálpartæki og þjónustu, eða svo segir í ofangreindum sáttmála. Fatlað fólk er nefnilega líka manneskjur, nánar til tekið Homo Sapiens eins og allir aðrir. En einhvern veginn virðast ekki allir vita það, eða þannig hef ég upplifað þetta.

Ég er sjálf hreyfihömluð og með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Ég er með eigið aðstoðarfólk (notendastýrða persónulega aðstoð) sem aðstoðar mig í daglegu lífi, ég hef aðgang að táknmálstúlkaþjónustu, ég er með stúdentspróf, ég er nýbúin að festa kaup á bíl, ég stunda íþróttir og er sérlega hrifin af þrekæfingum, ég bý heima hjá mér og er 19 ára partýljón. En einhvern veginn er þetta allt saman flokkað sem forréttindi, ég fæ t.d. ekki alltaf táknmálstúlkaþjónustu vegna skorts á fjármagni eða mannafla, ég fæ bara aðstoð 14 klst. á sólarhring og ég þarf að endurnýja NPA-samninginn varðandi aðstoðina árlega. Það mætti halda að ríkið og sveitarfélagið gangi út frá því vísu að einn daginn eigi ég eftir að læknast á einhvern dularfullan hátt og þyrfti þar af leiðandi ekki á þeirra þjónustu að halda. Og ef ég á að tala hreint út, er ýmislegt í kerfinu sem er beinlínis fáránlegt. T.d. er ekki gert ráð fyrir launahækkunum og afleysingum vegna veikinda aðstoðarfólksins sem leiðir til þess að ég og fleiri notendur þjónustunnar skuldum nú himinháar upphæðir. Svo þykir það í lagi að forgangsraða hverjir fá táknmálstúlk hverju sinni.

Enn fáránlegra, ríki og sveitafélög eiga það til að líta á notendur þessara þjónusta sem fjársvikara. Ég skil varkárnina vel, en það væri ágætt ef það væri meira traust og skilningur þarna. Við erum ekki að biðja um rándýran Rolls Royce eða flugmiða til Kanarí, við erum að biðja um tækifæri til að lifa lífi okkar sjálfstætt og af mannlegri reisn. Sem sagt sjálfsögð mannréttindi.

Ég stend með ykkur, Benedikt og Salbjörg.

Þessi grein er hluti af virðingarvakningu Tabú til stuðnings Benedikts H. Bjarnason og Salbjörgu Atladóttur en þau hafa bæði þurft að lögsækja Reykjavíkurborg fyrir mannréttindabrot og tapað málunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og öðru fyrir hæstarétti. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð mun deila reynslu sinni. Það er okkar von að þær fari eins og eldur í sinu um samfélagið og trufli valdhafa sem mest. Við hvetjum samborgara okkar til þess að deila greinunum á Facebook og tweeta eins og enginn sé morgundagurinn undir myllumerkinu #heimahjámér og merkja héraðsdóm, hæstarétt, Reykjavíkurborg, Dag B. Eggertsson og aðra í borgarstjórn við sem flest tækifæri.

9 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Kommentare


bottom of page