top of page

Ætlarðu að vera gunga?

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Ég þoldi ekki sögu. Ég gat aldrei munað nein ártöl, mér fannst erfitt að læra hvað karl gerði hvað, hvenær, (það var nánast aldrei talað um konurnar sjáiði til) og ég sá ekki tilganginn með því að læra um eitthvað sem gerðist einu sinni. Þangað til ég lærði um Martin Luther King jr.. Þá allt í einu rjátlaðist af mér óþolið (og óþroskinn) og ég sá tilganginn. Þarna var ég sextán ára og valdi að skrifa ritgerð um hann í sögu 203 í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Ég vissi ekki þá að saga Martin Luther King jr. myndi á stundum verða mannréttindasúrefni mitt. Ég vissi raunar ekki að ég myndi láta mig mannréttindamál varða. Ég vissi ekki að þegar ég stæði frammi fyrir erfiðum ákvörðunum í aktívisma myndi ég leita svara í ævisögum hans, ræðum og ritum. Ég vissi ekki að þegar ég væri gjörsamlega uppgefin myndi ég oft velja að lesa orðin hans til þess að öðlast von, kjark og kraft til þess að rífa mig upp aftur og halda áfram. Ég vissi ekki þá, að þegar ég færi inn í erfiðar kúgandi aðstæður, t.d. á fund í ráðuneyti til þess að ræða um kostnaðarbyrði sjálfsagðra mannréttinda fatlaðs fólks eða á ráðstefnur þar sem ófatlað fagfólk fær borgað fyrir að tala um fatlað fólk með niðurlægjandi hætti, myndi ég hugsa til hans til þess að geta einfaldlega lifað það af.

Í dag er dagur Kings og því finnst mér mikilvægt að staldra við. Mig langar sérstaklega að staldra við eftirfarandi orð hans sem mér finnast sérstaklega viðeigandi akkúrat núna; In the end, we will remember not the words of our enemies, but the silence of our friends.


In the end, we will remember not the words of our enemies, but the silence of our friends.


Þau fela í sér mikilvæg skilaboð fyrir íslenskt samfélag, samfélag sem mér finnst þagga kúgaða hópa í hel. Eins og King segir eru orð kúgarana ekki endilega verst heldur þögn samherjana. Sjálf er ég mjög þreytt á því þegar fólk jesúsar sig yfir alvarlegum mannréttindabrotum gagnvart fötluðu fólki inn í lokuðu fundarherbergi og í tölvupósti sem enginn sér en þorir svo ekki að segja það upphátt eða opinberlega. Þorir ekki að berjast gegn því. Þorir ekki að mótmæla meginstraumnum. Þorir ekki af ótta við þá stimplun sem fatlað fólk býr við út allt lífið sitt. Það er verst þegar það er fjölskylda manns, vinir, samstarfsfólk, samnemendur, kennarar og flokkssystkini. Ég upplifi sjaldan eins mikla valdeflingu og þegar einmitt það fólk þorir að rísa upp okkur við hlið, mótmæla rangfærslum og rjúfa þögnina – með orðum og gjörðum.

Síðustu daga höfum við séð svæsna trúar- og kynþáttafordóma brjótast fram víða um heim, líka á Íslandi. Við verðum öll dálítið hissa en gleymum um leið að þetta er raunverulega daglegt brauð í lífi okkar sem erum jaðarsett. Það er ekki bara gengið út frá því að fólk af ákveðnum þjóðernum eða trú sé hættulegt eða glæpsamlegt. Því er líka haldið fram um fatlað fólk. Og viðbrögð við slíku tali hafa ekki verið tekin jafn alvarlega og heimskulegt tal rasískra stjórnmálamanna. Stjórnmálamenn sem fyrirlíta fatlað fólk eru samfélagslega viðurkenndir. Viðbrögðin við þeirri heimsku sem snýr að trú og kynþætti hafa þó að mörgu leiti verið til fyrirmyndar. Þau hafa verið afdráttarlaus og sterk. Og það er mikilvægt. Af því að við sem verðum fyrir stimpluninni munum líklega eiga sárari minningar af öllum sem þögðu heldur en þeim sem afhjúpa heimsku sína með hatursfullum hætti.

Svo niðurstaðan er þessi; hættum að þegja. Hættum að vera gungur. Því aðgerðarleysi er jafn ógnandi fyrir mannréttindaþróun og vondar aðgerðir. Við berum öll ábyrgð. Alltaf. Sagan getur vel endurtekið sig ef við þorum ekki neinu.

7 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page