top of page

Ég er alveg að pissa í mig

Ég er búin að vera á þönum allan daginn. Byrjaði á fundi, fór svo í sjónvarpsviðtal, beint á annan fund og ætla að hitta vini á Happy hour seinni partinn. En ég er alveg að pissa í mig. Það er ekki aðgengi á fundarstaðnum og ekki heldur á barnum. Klukkan er að verða fimm og ég næ ekki að keyra úr 101 heim í Garðabæ, fara á klósettið og svo aftur niður í bæ. Ég held bara í mér og vona það besta.

Ég er búin að vera að kenna í háskólanum allan daginn, frá átta til fjögur, og þarf svo að fara á fund. Ég þarf svo að pissa að mig verkjar upp allt bakið. Það er ekki aðgengi til þess að fara á klósettið í háskólanum og ég næ ekki að fara heim að pissa. Þá kem ég of seint á fundinn. Ég held bara áfram í mér og vona það besta.

Ég sit í lest á leið frá Manchester til London að morgni og sleppi því að fá mér að drekka. Ég þarf að passa mig að innbyrða sem minnstan vökva þennan dag því ég, ásamt vinkonu, er í dagsferð. Mögulega mun ég ekki komast á klósettið fyrr en þegar ég kem aftur heim í íbúðina okkar í Manchester um kvöldið. Ég finn fyrir kvíða en reyni að bægja honum frá mér því þegar ég er kvíðin þarf ég oftar að pissa. Ég vona að ég nái að halda í mér þennan dag.

Ég er inn á klósetti í Alþingishúsinu. Klukkan er átta um kvöld og ég hef ekki farið á klósettið síðan sjö um morguninn. Um hádegisbilið er ég farin að þurfa að pissa en það er enginn tími. Þetta er síðasti dagurinn fyrir sumarhlé þingsins og margt á dagskrá. Ég er oft á mælendaskrá og af og til, fyrirvaralaust, á ég að vera komin í þingsalinn á innan við fimm mínútum til þess að greiða atkvæði. Það tekur mig langan tíma að fara á klósettið og ég þori ekki að taka sénsinn. Unga fatlaða konan, sem er undir margfaldri pressu frá samfélaginu, fer nú ekki að missa af atkvæðisgreiðslu því hún þarf svo að fara að pissa. Um átta leitið er ég komin með kökkinn í hálsinn af verkjum við þessi íhaldsátök og læt í minni pokann. Vandræðaleg fer ég til skrifstofustarfsmanns og byð hana að færa mig neðst á mælendaskránna því ég verð bara að komast á klósettið. Með símann í hendinni að fylgjast með mælendaskránni á vef alþingis reyni ég að vera eins fljót og ég lifandi get. Þegar ég er í þann mund að færa mig aftur í hjólastólinn hringir síminn; „Það er að koma atkvæðagreiðsla, hvar ertu?“ spyr samflokksmaður, auðvitað grunlaus um þetta allt saman. Ég rétt næ atkvæðisgreiðslunni.

Öll þessi atvik eiga sér stoð í raunveruleikanum. Engum langar mig að segja frá þeim enda eru klósettferðir einkamál og persónulegur hluti af lífinu. Eina fólkið sem veit um þær eru mínir nánustu sem horfa upp á þetta og eru farnir að spyrja af umhyggju þegar við eigum langa daga; vilt þú ekki fara heim að pissa fyrst? Allir dagar hjá mér eru skipulagðir út frá klósettferðum mínum heim í Garðabæ. Ég þarf að passa að skipuleggja mig þannig að ég sé ekki lengi úti í einu eða að nægur tími sé á milli þess sem ég er að gera til þess að ég geti farið heim að pissa. Vandinn er þó sá að það er ekki alltaf hægt og þá verð ég annað hvort að sleppa hlutum eða halda í mér til óbóta. Ég vel yfirleitt seinni kostinn, ef val skildi kalla, af því að ég er í námi, vinnu og á marga vini og stóra fjölskyldu. Það gerir dagskrána þétta.

Eins og með næstum allt persónulegt er það hápólitískt. Já, klósettferðir mínar eru pólitískt bitbein stjórnmálafólks. Það er nefnilega til lausn við þessu sem er hunsuð. Hún felst fyrst og fremst í því, í mínu tilviki, að gera salerni alls staðar raunverulega aðgengileg. Líka fyrir fólk sem þarf að leggjast niður til þess að fara á salernið. Svo er annað. Það er að við hægjum á okkur og mælum ekki allt út frá hraða. Við þurfum að gera ráð fyrir því að sumt fólk þurfi öðruvísi tímaplan en aðrir án þess að dæma það úr leik.

Að komast ekki á klósettið getur verið dýrkeypt. Hjá mér hefur það haft talsverð áhrif á starfsemi líkamans og stuðlað að óafturkræfum skaða. Þetta er líka stór streituvaldur í mínu lífi og veldur gjarnan skömm. Þess vegna má hæglega segja, sem dæmi, að þegar stjórnmálafólk tekur ákvarðanir um að draga úr aðgengiskröfum til þess að slá á kostnað sé það að draga úr náms-, atvinnu- og stjórnmálaþátttöku fatlaðs fólks og stuðla að heilsufarsvanda. Það fattar ekki að það þarf líka að borga fyrir skaðan sem það er að valda okkur alla daga.

Þegar ég gagnrýni samfélagið er ég sífellt kölluð frek. Ég hef reynt að slá því upp í grín og taka vald yfir þessu orði en í raun finnst mér það ekki fyndið. Mér finnst það særandi. Sérstaklega þegar ég ligg tilbúin á læknabekk á Landsspítalanum að fara í tuttugustu nýrnasteinsaðgerðina, m.a. því í gegnum lífið hef ég svo oft þurft að halda í mér vegna þess að salernisaðstöður gera ekki ráð fyrir mér.

45 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page