top of page

Ég er ekki tabú

Höfundur: Ingeborg Eide Garðarsdóttir

Síðustu vikur og mánuði hefur fólk verið að opna sig í sambandi við geðræn vandamál með hashtaginu #ÉgErEkkiTabú. Ég á sjálf við geðræn vandamál að stríða og þegar ég sá að svo margir væru að opna sig og segja frá hvernig þeim liði ákvað ég að gera það sama og skrifaði status á facebook. Margir hafa kannski hugsað með sér ,,Ohh, byrjar enn ein stelpan að væla og reynir að fá athygli.” En það er ekki þannig. Hér á Íslandi er allt of lítið talað um hvernig fólki líður. Þú mátt vera veikur heima með ælupest eða hálsbólgu. En ef einstaklingur er veikur vegna geðheilsu er hann nánast kallaður aumingi.

Ég er greind með þunglyndi/kvíðaröskun og hef verið það frá því að ég var krakki. Oft geta dagarnir verið mjög erfiðir. Ég vakna á morgnana og langar oft ekki að standa upp úr rúminu. Þegar ég vakna finn ég fyrir kvíða og hann er yfirleitt til staðar þangað til ég fer að sofa. En auk kvíðans finn ég oft hvað ég er þung í skapi en byrgi það innra með mér svo allir haldi að mér líði rosalega vel. Ég er hressa stelpan sem er alltaf með bros á vör í skólanum. En það er ekki allur sannleikurinn. Jú, jú auðvitað get ég átt góða daga þar sem ég þarf ekkert að hafa fyrir því að vera hress en það er ekki svo auðvelt aðra daga. Ég hef tekið daga þar sem ég ligg uppi í rúmi og geri ekkert annað en að gráta. Þegar maður er þunglyndur er það ekki eitthvað sem maður biður um. Þegar ég á slæman dag er mjög óörugg og hugsa stöðugt neikvæðar hugsanir eins og ,,Ég get þetta ekki.” ,,Það vill enginn umgangast mig, ég er ekki nógu góð.” Þegar ég var í grunnskóla var ég svo langt niðri að ég hótaði mömmu minni að kasta mér í hraunið rétt hjá þar sem við áttum heima og labbaði út.

Í grunnskóla var ég alltaf að skipta um skóla því mér leið aldrei vel. Mér fannst eins og ég ætti enga trausta vini þó ég hafi verið á tímabili með flottum krökkum. Ég skynjaði oft ég væri ekki velkomin í hóp meðal krakkanna og fannst krakkarnir alltaf loka á mig. Mér leið eins og ég hefði orðið fyrir andlegu einelti í grunnskóla. Ég var uppnefnd, mér var sagt að halda kjafti og vera ekkert að tjá mig. En ég man líka eftir atvikum þar sem ég var niðurlægð fyrir framan hóp krakka. Ég hef fáum sagt frá þessum atburðum en það sem mun alltaf sitja í mér er þegar bekkjarbræður mínir girtu niður um mig í bekkjarafmæli hjá einni stelpunni. Þetta hefði aldrei gerst fyrir eina af ‘vinsælu’ stelpunum. Ég hlakkaði alltaf til þess dags þegar ég útskrifaðist úr grunnskóla til þess að geta losnað úr þessu en málið var að það sem gerði þessi atvik helmingi erfiðari að takast á við var að ég er með þunglyndi og kvíðaröskun.

En ég reyni eins og ég get að standa mig í öllu sem ég geri. Eins og ég lýsti hér fyrir ofan set ég upp grímu á morgnana þegar ég fer í skólann svo allir haldi að ekkert sé að, en það tekur rosalega orku frá manni. Þegar ég bjó hjá mömmu minni kom ég oft heim og ég hellti mér yfir hana. Ég hef setið inni á skrifstofu námsráðgjafans og grátið úr mér augun! Þessar tvær manneskjur hafa hjálpað mér mikið í gegnum allt sem ég hef þurft að takast á við.

– Ingeborg Eide Garðarsdóttir

103 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

コメント


bottom of page