top of page

„Ég held að fólk almennt hugsi ekki mikið út í það að fatlað fólk sé partur af samfélaginu.“

Ólafur Snævar Aðalsteinsson er 22 ára áhugamaður um listir og menningu. Hann lauk starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun við Háskóla Íslands vorið 2013 og starfar nú í Hinu húsinu, miðstöð ungs fólks. Þar að auki hefur Ólafur komið fram á ráðstefnum og fjallað um mikilvægi háskólanáms fyrir fólk með þroskahömlun. Við settumst niður með Ólafi og ræddum málin..

Hvernig eru viðhorf til fatlaðs fólks á Íslandi í dag? „Mér finnst viðhorfin vera að breytast. Ef ég lít til baka er eins og ófatlað fólk hafi verið feimið við að umgangast fatlað fólk. Ég veit til dæmis að viðhorf háskólanema til diplómunámsins hafa breyst mikið. Í dag er miklu meiri samvinna milli nemenda af öðrum námsbrautum heldur en var þegar diplómanámið var að hefjast.“

Þó margt hafi breyst varðandi viðhorfin er enn langt í land með að fatlað fólk standi jafnfætis ófötluðum þegar kemur að viðhorfum og virðingu. „Ég held að fólk almennt hugsi ekki mikið út í það að fatlað fólk sé partur af samfélaginu.“ segir Ólafur. Í grundvallaratriðum sé vandamálið ekki svo flókið og snúst fyrst og fremst um virðingu fyrir öllum „við erum manneskjur líka.“

Talið berst að staðalmyndum samfélagsins um fatlað fólk. „Einu sinni var ég í strætó og fór að tala við ókunna konu. Við höfðum spjallað í smá stund þegar hún segir ‘já ég veit nú alveg hvað er að þér’ og svo fór hún að tala um stofnanir og eitthvað svoleiðis og fór að alhæfa um fatlað fólk.“ Ólafur segist hafa orðið afar hissa á þessum athugasemdum og alhæfingum konunnar.

Hvað með fatlað fólk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum? „Ég man eftir einum ýktum karakter, bróðir hans Daníels í Fangavaktinni, sem slefaði og var öðrum til skammar. Ég móðgaðist smá yfir þessu og varð líka hissa á þessum karakter. Þetta getur verið mjög niðrandi.“ segir Ólafur og bætir við að viðhorfin breytast líklega ekki ef þessi staðalímynd ræður ríkjum í sjónvarpinu. Mikilvægt sé að sýna fjölbreyttari mynd af fötluðu fólki í kvikmyndum og þáttum „bara allskonar karaktera að gera ólíka hluti.“

Ólafur bendir á að þessar staðalímyndir hafi vissulega áhrif á dagslegt líf fatlaðs fólks og að algengt sé að fötlun sé álitin ástæða alls sem við gerum eða segjum. „Ófatlað fólk getur alveg gert skrýtna eða heimskulega hluti og það er allt í lagi en ef við [fatlað fólk] gerum það halda margir að það sé af því að við erum fötluð. En það kemur fötluninn kannski ekkert við.“


Ólafur Snævar heldur fyrirlestur í Háskóla Íslannds ásamt Emblu Rún Hakadóttur

Ólafur Snævar heldur fyrirlestur í Háskóla Íslannds ásamt Emblu Rún Hakadóttur


Fjallað hefur verið um kyn og fötlun á Tabú undanfarnar tvær vikur og fróðlegt er að vita hver sýn Ólafs er á þá umræðu. „Ég held að kynfræðsla í skólum sé mjög ólík og fari mikið eftir kennaranum, en það er feimnismál að ræða þessa hluti.“ Að mati Ólafs er ekki mikil meðvitund um að fullorðið fatlað fólk sé í raun fullorðið og segir hann „ég vil leggja áherslu á að fatlað fólk á einkalíf eins og aðrir.“

Ólafur segir að það skipti miklu máli að umræðan sé opin. Hann nefnir sem dæmi að flókið geti verið að ná áttum þegar kemur að stefnumótum og öðru slíku og þá skipti opin umræða höfuð máli. „Það er auðveldara ef maður fær góða hjálp og stuðning. Aðstoð við að finna stað og stund og hvað er við hæfi hverju sinni. Það skiptir máli að geta talið um þetta við fjölskylduna sína og að þetta sé ekki feimnismál.“

Varðandi almenn viðhorf til fatlaðs fólks bætir Ólafur við „það er mikið glápt á fatlað fólk og oft er sagt við okkur ‘VÁ hvað þú ert duglegur’. Ég upplifi oft að talað sé niður til okkar.“ Ólafur Snævar var á starfsbraut í framhaldsskóla en sótti almenna áfanga í íslensku. „Einu sinni komu nokkrar stelpur til mín í matarhléinu í skólanum og spurði hvort ekki væri erfitt fyrir mig að taka þessa íslenskuáfanga og sögðu mér hvað ég væri nú duglegur. Eins og þær væru hissa að ég gæti lært þetta.“


Vinirnir Ólafur Snævar og Gísli Björnsson á skemmtilegu balli

Vinirnir Ólafur Snævar og Gísli Björnsson á skemmtilegu balli


Ólafur segir það geta verið afar þreytandi að upplifa svona framkomu. „Þetta viðhorf þarf að breytast“ segir Ólafur ákveðinn. Hann bendir á að greinilegt sé að auka þurfi umræðu um fatlað fólk á öllum skólastigum. „Mér finnst ungir krakkar í dag glápa mikið á fatlað fólk“ segir Ólafur og bætir við að þess vegna sé fræðsla í grunnskólum mikilvæg og að hún komi bæði frá kennurum og fötluðu fólki sjálfu.

Ólafur hefur trú á að því að hægt sé að breyta rótgrónum hugmyndum samfélagsins og endar viðtalið á jákvæðum nótum „ég vona bara að samfélagið opni sig svo allir geti tekið þátt eins og þeir eru.“

Viðtalið tók Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

21 views

Recent Posts

See All
bottom of page