top of page

Í minningu Adolf Ratzka

Adolf Ratzka var fæddur 1943 í Þýskalandi og var ötull baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks  allt sitt líf. Hann lést af slysförum sunnudaginn 21. júlí í Svíþjóð.


Adolf Ratzka var fæddur 1943 í Þýskalandi og var ötull baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks  allt sitt líf. Hann lést af slysförum sunnudaginn 21. júlí í Svíþjóð.


Helstu baráttumál Adolf Ratzka voru að vinna gegn stofnanavæðingu fatlaðs fólks og berjast fyrir sjálfstæðu lífi okkar. Á hann stóran þátt í innleiðingu notandastýðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) á Norðurlöndum, í Evrópu og víðar.


Adolf fatlaðist 17 ára gamall í kjölfar lömunarveiki og þurfti að nota rafmagnshjólastól, öndunartæki og reiða sig á aðstoð annara við athafnir daglegs lífs. Fyrstu árin eftir að hann fatlaðist var hann á sjúkrahúsi í Þýskalandi en fékk svo háskólastyrk og flutti til Bandaríkjana, Kaliforníu. Sú reynsla hafði mikil áhrif á Adolf en þar kynntist hann samtökum um sjálfstætt líf og hugmyndinni um NPA. Hann fékk samþykktan beingreiðslusamning frá Þýskalandi og gat þannig ráðið aðstoðarfólk í Bandaríkjunum til þess að geta lifað sjálfstæðu lífi í öðru landi.


Þegar Adolf snéri aftur til Evrópu varð hann einn af leiðtogum í hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og framkvæmd NPA. Árið 1984 stofnaði Adolf NPA samvinnufélagið STIL í Stokkhólmi í Svíþjóð sem enn starfar af miklum krafti í dag. Hafa í kjölfarið verið stofnuð samvinnufélög um NPA í Noregi, Danmörku, Íslandi og víðar. Adolf stofnaði jafnframt þekkingarsetur um sjálfstætt líf eða Independent Living Institute.


Barátta Adolf Ratzka fyrir sjálfstæðu lífi og NPA fyrir fatlað fólk á rætur í reynslu hans af því að fatlast sem unglingur og finna mikilvægi þess að halda í frelsi og sjálfsákvörðunnarrétt sinn sem manneskja.


Adolf Ratzka lagði baráttu fatlaðs fólks á Íslandi mikinn lið en hann bæði heimsótti NPA miðstöðina á hennar fyrstu árum og veitti fræðslu og ráðgjöf til þeirra sem störfuðu þar á þeim tíma. Hann tók einnig á móti fötluðu fólki frá Íslandi og var alltaf boðinn og búinn að vera til staðar og innan handar fyrir baráttufólk hér á landi. Við sem að erum með NPA á Íslandi eigum því Adolf og starfi hans mikið að þakka.


Útför Adolfs fer fram 12. ágúst í Stokkhólmi í Svíþjóð. Fjölskylda hans hefur í hans anda óskað eftir að þau sem vilji minnast hans styrki minningarsjóð Adolf Ratzka fyrir fatlaða innflytjendur í Svíþjóð. Við vottum eiginkonu og dóttir Adolfs okkar dýpstu samúðarkveðjur sem og fötluðu fólki um allan heim sem hefur nú misst mikilvægan baráttu- og samstarfsmann.


Minningarsíðu Adolfs má finna hér.


Talskonur Tabú,

Freyja Haraldsdóttir

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

52 views
bottom of page