top of page

Það sem ég sá

Ég yfirgaf leikfimistímann, ég varð, því tónlistin lét mér líða illa. Ég stóð hjá hurðinni.

Ég beið. Ég snéri að hurðinni inn í leikfimissalinn, og ég sá bekkjarfélaga þjóta út um hurðina og aðstoðarkennara fara í humátt á eftir honum. Aðstoðarkennarinn greip í vestið hans. Stöðvaði hann. Nemandinn barðist um. Aðstoðarkennararnir hópuðust saman fyrir utan salinn og gláptu í gegnum gluggana.

Ég veit hvað þeir sáu.

Þeir sáu ekki einhvern sem var að biðja um að fá að komast í göngutúr. Þeir sáu hann ekki grátbiðja um að fá smá svigrúm.

Þeir sáu einhvern sem var að gera tilraun til þess að sleppa. Tilraun til þess að óhlýðnast og sleppa. Nemanda sem væri að reyna að plata kennara sinn, til þess að fá sínu framgengt.

Þeir sáu einhvern sem skildi ekki tilganginn með íþróttatímanum.

Þeir sáu nemanda sem var að reyna að sleppa.

Hann snéri sér undan, og aðstoðarkennarinn ýtti honum aftur inn um dyrnar á íþróttasalnum, öskrandi ,,Inn með þig! Inn með þig! Inn með þig,” og ýtti og togaði á meðan nemandinn barðist um. Mjög ,,hvetjandi” fyrir þá sem horfðu á frá hliðarlínunni. Mér fannst of mikið vera að gerast.

Ég sá mótmæli og átök. Ég sá nemanda sem getur ekki talað með orðum vera ýtt í gegnum hurð eins og ekkert væri, alla öskrandi. Niðurbeygðan nemanda sem reyndi að halda sér uppi með fullt af fólki á bakinu sem ýtti honum upp að hurðakarminum. Ég sá of mikið, of mikið.

Ég sá alls konar hreyfingar og heyrði hljóð úr öllum áttum. Ég sá loftið, hurðakarminn, gólfið, hendur á fólki, alla að öskra. Ég sá þegar það tókst að ýta nemandanum inn um hurðina aftur, fagnaðarlæti, alla að gleðjast yfir björgunaraðgerðinni.

Ég sá svima og ringulreið.

Ég sá það sem hann sá.

Ég sá samnemanda sem vildi ekki bregðast við fyrirskipunum því þær komu of hratt og sem náði ekki áttum því áreitið var alltof mikið í einu.

Hann lyppaðist niður út í horni á íþróttasalnum og barði höfðinu í vegginn. Aðstoðarkennarinn brást við með beittu augnaráði sem gaf til kynna að slíkt myndi ekki líðast. Og ég veit hvað kennararnir sáu.

Þeir sáu mótþróa. Óæskilega hegðun. Frekjukast.

Ég sá nemanda sem var að reyna að útiloka utanaðkomandi áreiti. Ég sá. Allir kennararnir héldu sínu striki, hlógu og spjölluðu, á meðan krakkarnir hituðu upp. Ég stóð hjá hjálparlaus.

Ég sá niðurlægðan mann sitjandi út í horni upp við vegg, hjálparlausan og útskúfaðan, sem hafði enga leið til þess að tjá sig.

Ég sá það sem hann sá. Fullt af nemendum hlaupandi allt í kringum mig, fólk umkringjast mig, hvetjandi aðstoðarkennarinn áfram eins og hann væri að taka þátt í keppni við að draga nemenda aftur inn í kennslustund. Ég sá heiminn hringsnúast í höfðinu á mér og skella svo í vegginn til þess að reyna að draga úr hávaðanum.

Ég sá að enginn spurði sig hvernig honum liði. Ég sá ekki bara uppgjöfina og það hvernig hann var sviptur mannlegri reisn og virðingu; ég sá niðurlægingu. Ó, já, það sá ég. Sársauka.

Ég horfði á af skelfingu. Ég fann til með honum. Aðstoðarkennari, sem sá að ég hafði farið fram, spurði hvort það væri allt í lagi hjá mér. Svo brosti hún góðlátlega til mín, skellti upp úr, ,,Hann er að fá kast.”

Nei. Það er ekki það sem ég sá.

Ég sá nemanda sem hafði þyrmt yfir, reyna að komast úr vondum aðstæðum. Tilraun til þess að finna öruggan stað, salerni, smá vatn.

Ég sá grófa og ruglingslega ,,björgun” sem slævðu tilfinningar hans og möguleika til þess að hugsa. Ég sá áreiti sem meiddu skynfæri hans (sjón, heyrn og snertingu) svo mikið að það væri eins og verið væri að keyra á hann af vörubíl. Ég sá örvæntinguna og óttan og pirringinn því engin skildi hann, ekki einn einasti.

Þau sáu kast.

Þau sáu ekki það sem ég sá.

Ég veit, sagði ég hljóðlaust með vörunum. Þetta er allt í lagi. Hann brosti til mín.

Ég veit.

Vélin á strætónum hökti og við keyrðum út af bílastæðinu. Þau voru enn að tala um hann og greina hegðun hans út frá eigin reynslu. Ég vissi að hann heyrði til þeirra. Að þeim væri eiginlega bara alveg sama. Að það væri ekki mitt hlutverk að leiðrétta þau. Reyna að kenna þeim. Það er ekki hlutverk nemandans.

Ég sá svipinn á honum, og ég vissi að enginn skildi hann.

Hann sat og hallaði sér upp að glugganum, svipbrigðin endurspegluðu mikla streitu, hann var brúnaþungur. Ég vissi að það var ekkert að þeim, og að þau gætu setið þarna og haldið áfram að búa til kenningar um hegðun hans, hann var hins vegar enn að ná sér niður. Ég sá það í augunum hans. Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja.

Ég sá að hönd hans hvíldi á sætinu. Hikandi hallaði ég mér yfir ganginn og lagði mína við hlið hans. Ég vissi ekki hvernig ég gæti öðruvísi sagt ég er til staðar fyrir þig.

Þumalfingurinn hans tók utan um tvo fingur mína og þannig vorum við í nokkra stund. Svo tók hann í hönd mína.

Ég kreisti hana. Ég veit.

Við héldumst í hendur um stund. Strætóinn hökti niður götuna og smeigði sér meðfram götuhornum, hönd mín hvíldi í hans.

Þau sögðu að ég hefði hjálpað til við að róa hann niður. Stundum vanmetur fólk hvað felst í því að viðurkenna mennsku fólks. Sjá hana. Ég veit ekki hvað þau héldu að ég væri að gera, en við vissum það. Að sýna hvert öðru samstöðu. Hljóðlega, með engum látum, hvíslandi samstöðu. Ég veit.

Þetta er það sem ég sá. Mjög ólíkt því sem kennararnir sáu.

Ég veit ekki hvað hann sá. Það hlýtur að hafa verið hryllingur.

En ég vona … ég vona … að eftir hryllinginn …. vona ég að hann hafi séð vin.

Við Tabúkonur erum talsvert miklir grúskarar. Það skilar sér í þeirri snilld að við finnum ýmislegt áhugavert efni sem fatlað fólk hefur skrifað. Í janúar fundum við bloggsíðu einhverfrar konu, Kitt McKenzie, sem ber yfirskriftina AutisticChick. Við lásum þar ofangreindan pistil sem snerti okkur djúpt og finnst eiga erindi við lesendur okkar. Við ákváðum því að þýða hann yfir á íslensku svo hann yrði aðgengilegri fyrir fleiri. Vonandi nutuð þið vel og lærðuð margt.

Heimsækið bloggið hennar og drekkið það í ykkur, okkur finnst hún hafa allt merkilegt að segja.

5 views

Recent Posts

See All

Afstofnannavæðið skólakerfið!

Höfundur: Shain M. Neumeier Þýðing: Freyja Haraldsdóttir Að hverfa frá aðgreindum stofnannaúrræðum og verða hluti af samfélögum okkar...

Comments


bottom of page