top of page

Þegar trú mismunar, niðurlægir og vanvirðir

Höfundur: Íva Marín Adrichem Ljósmynd: Axel Jón Fjeldsted

Það er svo margt við trúarbrögð og hugsunina á bak við þau sem mér finnst fallegt. Í flestum trúarbrögðum er grunnhugsunin sú sama. Trú á eitthvað æðra og þrá manneskjunnar að tilheyra. Markmið flestra sem trúa er að öðlast innri og ytri frið og hvern dreymir ekki um slíkt?

Því miður er raunveruleikinn sá að flest, ef ekki öll trúarbrögð, eiga sér langa sögu ofbeldis, blandað af þjóðerniskennd og kúgun. Mannkynið er lengi að læra af reynslunni, því enn í dag þrífst ofbeldi í skjóli trúarbragða.

Innan flestra trúarbragða talar hæst hópur bókstafstrúarmanna sem virðist hafa það eina að markmiði að fá eins marga og hægt er til að aðhyllast sömu trú og þeir. Þessi litli en jafnframt valdamikli og háværi hópur hefur algjörlega gleymt því að aðlaga trúarbrögð sín að nútímanum.

Þetta fólk virðist ekki í tengslum við raunveruleikan þar sem þau byggja lífsskoðanir sínar á gömlum og úreltum trúarritum. Þar er ekki hikað við að mismuna minnihlutahópum eins og konum, hinsegin fólki og fötluðu fólki. Ég undirrituð hef líkt og aðrir sem tilheyra minnnihlutahópum orðið vör við þess konar mismunun í daglegu lífi.

Það sem varð til þess að ég skrifa þessa hugleiðingu var ákveðinn maður sem ég mætti kvöld eitt í miðborginni. Hann kom að mér og vinkonum mínum þar sem við vorum á röltinu niður Laugarveginn. Viðkomandi maður hafði ákveðið að þetta kvöld skyldi hann dreifa “orði Drottins”. Ég afþakka kurteislega fyrir okkar hönd, sem varð til þess að maðurinn varð hneykslaður og reiður. Þegar ég ætlaði að ganga í burtu stoppaði hann mig og spurði mig hvassri röddu: „Nú, viltu ekki fá sjónina?“

Þetta kom mér í svo mikið ójafnvægi að ég vissi ekki hvað skyldi segja (sem gerist sko ekki oft). Það eina sem ég gat ælt út úr mér var að mér þætti þetta verulega óviðeigandi spurning. Maðurinn virtist ekki skilja hvað væri svona óviðeigandi og spurði mig hvað ég vildi. Í framhaldi byrjaði hann að segja sögu um það þegar Jesús hitti blindan mann á ferðalagi og veitti honum eina ósk. Blindi maðurinn vildi fá sjónina. Sjálfsagt hefur gerst einhvers konar kraftaverk og maðurinn fengið sjónina, en ég veit það ekki þar sem mér var svo misboðið að ég þoldi ekki að hlusta á restina af sögunni. Því greip ég fram í fyrir manninum og sagðist persónulega óska mér ýmissa annarra hluta en sjónar, til dæmis væri æðislegt ef fullkominn friður ríkti í heiminum. Hann fussaði bara og gekk móðgaður í burtu. Eftir stóð ég niðurlægð og undrandi á því að fólki finnist þurfa að „lækna mig“ og vilji þrönga upp á mig trúarbrögðum til að svo megi verða.

Það vill svo til að ég lenti í öðru atviki viku fyrr, þar sem vanvirðing byggð á trú setti mig út af laginu. Þetta var í messu þar sem guðspjallið var lesið um blinda manninn sem Jesús hellti leðju í augun á og hann öðlaðist sjón sem hann hafði ekki verið með frá fæðingu. Áður höfðu lærisveinarnir spurt hvort maðurinn sjálfur eða foreldrar hans hefðu syndgað.

Í predikuninni á eftir, gerði presturinn tilraun til að svara spurningu lærisveinainna. Hann sagði mörg börn fæðast árlega með einhvers konar skerðingar og að auðvitað spurja allir foreldrar sig „af hverju ég“. Hann svaraði því út frá kenningu Jesús. Að þessi börn væru einfaldlega valin til að Guð og þegnar hans geti sýnt manngæsku og kraftaverk í verki. Þýðist sem, við eigum að vera góð við fatlað fólk af því það er kraftaverk Guðs á jörðinni.

Persónulega finnst mér þessi tvö dæmi lýsa vanþekkingu á biblíunni. Hér er um að ræða dæmisögur frá fornöld. Á þeim tíma sem biblían var skrifuð var fatlað fólk aðeins sýnilegt sem ómagar og þyggjendur í samfélaginu.

Þegar talað er um að blindur maður sjái vegna kraftaverks Jesús, tel ég að verið sé að meina orðið sjón í taknrænni merkingu. Í mínum huga gæti Jesús hafa gefið aðra sjón en veraldlega sjón. Ég myndi frekar halda að hann hafi hjálpað fötluðu fólki að finna tilgang með lífi sínu og opnað augu þess fyrir hinu fagra lífi sem hægt væri að lifa.

Mér finnst alveg fráleitt og hreinlega lýsa barnaskap að fólk skuli túlka þessar dæmisögur svona bókstaflega og vísa svo í þær í daglegu lífi. Þau trúarrit sem bókstafstrúarfólk lifir eftir og þröngva upp á samferðarfólk sitt, voru barn síns tíma en hugsunarháttur breytist í tímanna rás og skoðanir samfélagsins með því.

Það er særandi og leiðinlegt að samkvæmt trú margra í þeim heimi sem ég bý í er ég annars flokks manneskja eða kraftaverk sem ber að sýna góðmennsku eða að lækna ýmist af fötlun minni eða syndum úr fyrra lífi.

Mikið væri gott ef allir gætu sammælst um upphaflega grunnboðskapinn sem trúarbrögð ganga út á um frið á jörðu og jöfnuði í heiminum. Oft hugsa ég til þess hvað mönnum eins og Jesús myndu finnast ef þeir snéru aftur til núverandi mannkyns og þess samfélags sem við höfum skapað okkur. Mig grunar að þeir yrðu ekki glaðir við að sjá hvernig fólk í dag beitir mismunun, niðurlægingu, ofbeldi og kúgun í skjóli orða þeirra.

Ég upplifði orð mannsins sem stoppaði mig úti á götu sem áreiti og niðurlægingu. Mér þykir ólíklegt að maður sem aðhyllist vísindahyggju myndi ganga um niðri í bæ á laugardagskvöldum og dreifa boðskap á borð við Darwinisma til gangandi vegfarenda. Því síður myndi sá maður áreita fólk sem einhverra hluta vegna sker sig úr og neyða það til að hlusta á sögur um heilbrigði og lækningar. Að mínu mati skilar svona ofstækishegðun ekki þeim árangri sem boðberar trúarbragða vonast eftir. Ég held frekar að hið gagnstæða gerist. í stað þess að leyfa trúnni að vera siðagrunndvöllur samfélagsins fælir ofstæki okkur frá raunverulega boðskap um kærleikann og veldur ófrið og vanlíðan.

Sem betur fer er meirihlulti iðkenda trúarbragða friðsamt og gott fólk, sem því miður er þögull meirihluti. Ég bið þess að við sem samfélag getum fært okkur út úr þessari þöggun og undirgefni við trúarofstæki. Við þurfum að sættast um að lifa samkvæmt því besta sem öll trúarbrögð boða um frið, frelsi, jöfnuð, umburðarlyndi og skilyrðislausan kærleik, sama hvort við séum trúarleiðtogar, vísindamenn eða almennir borgarar. Hættum ofstækinni og reynum að stuðla að virðingu og skilningi milli fólks, trúarbragða og menningarheima.

12 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

bottom of page