top of page
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram

Að klífa klósett(djöfulinn)

Höfundur: Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir (birtist fyrst á Facebook síðu höfundar 20. nóvember sl.)

Í tilefni af alþjóðlega klósettdeginum þá get ég upplýst ykkur um að ég á í ástar- og hatursambandi við klósett. Ég elska klósettið mitt heima. Margir hreyfihamlaðir einstaklingar hafa reynslu af því að geta ekki farið á salernið út í bæ, í skólanum eða vinnustað oft vegna skorts á aðstoð eða aðgengis – klúðurs í opinberum byggingum.

Stundum þarf lítiið að koma upp á að ég lendi í vandræðum við að komast á blessað klósettið og pissa ég þá bara heima. Á vinnustað mínum er alveg ágætt aðgengi en stoðirnar eru öðruvísi en heima svo ég verð að nota flutningsbretti og stól með örmum til þess halda mér í. Þetta eru aðferðir sem ég hef þurft að finna út úr sjálf. Ekkert námskeið í boði hjá Námsflokkunum í klósettflutningum.

Heima hjá mér get ég hins vegar oftast athafnað mig sjálf (stoðir frá Epal) en það þarf lítið að koma upp á svo að ég er vanda stödd eins og um helgina. Á fimmtudaginn sl. gerðist það að sessan mín (loftpúðasessa) fór að leka á ráðstefnu um NPA, allt loft fór úr mér vinstra megin undir ákveðnu erindi, kannski dulin skilaboð, mér var nóg um. Ég var ekki með pumpu með mér og varð að bíða þar til ég kom heim til að bæta lofti í sessuna og var þá orðin skökk og illt í bakinu.

Í ljós kom að sessan lekur og varð að fara í viðgerð í Hjálpartækjamiðstöð. Oh, þar er bara opið frá kl. 10-15 virka daga. Hvað átti ég að gera? Sitja á gömlu býflugna sessunni minni (já hún er eins og býflugnabú en er eignlega búin á því) alla helgina og vera að drepast í bakinu? Eða fá lánaða samskonar loftpúðasessu hjá Hjálpartækjamiðstöð? Þetta kallaði á það að ég komast ekki í vinnuna við að arensera þessum sessumálum, hringja og athuga hvort það væri hægt að gera við sessuna á föstudegi? Nei, það var ekki hægt, fáliðað á verkstæðinu.

Ég fékk lánaða sessu sem var svipuð og mín en hærri og harðari. Það þýddi að ég gat ekki flutt mig yfir af klósettinu í hjólastólinn. Þá varð ég að notast við býflugnasessuna en eitthvað klikkaði og ég var næstum dottin. Aðstoðarkona mín gat komið í veg fyrir það. Ég varð svo skellkuð því í fyrra datt ég illa á hnéið og tognaði við það að færa mig vitlaust á milli rúms og stólsins (lán í ólani þar sem kom í ljós í myndatöku að ég væri komin með beinþynningu).

Um kvöldið þá kveið mér fyrir að fara á klósettið og lenda í sömu hrakningum og fyrr um daginn. Mér fannst eins og öll sund væru lokuð, hvað á ég að gera? Aðstoðarkonan var farin heim af vakt. Ég get ekki sleppt því að fara á salernið.

Grátandi á klósettinu, hugsaði ég til þeirra sem klífa Evrest eða K2, hættuna við að fara niður af fjallinu, ef eitthvað klikkar þá ertu dauð (eða kannski tognuð í mínu tilfelli ef ég dett á gólfið). Ég stappaði í mig stálinu og flutti mig yfir. Þvílíkt þakklæti að komast heil á höldnu aftur í stólinn.

Ég þarf greinilega að eiga tvær alveg eins sessur til að koma í veg fyrir óþarfa vesen. Því sessur bila líka um helgar og eftir kl.15 virka daga. Ég komst af klóesett fjallinu. Ég verð víst að fara aftur, á fjallið, alla daga ársins eins og aðrir.

18 views

Recent Posts

See All

Kommentare


bottom of page