Höfundur: Freyja Haraldsdóttir
Fyrir flesta er það hversdagsleg upplifun að sjá líkama sem svipa til þeirra eigin út um allt. Í kringum sig og í sjónvarpinu, blöðum, bókum og leiksýningum. Fyrir aðra er það sjaldgæf upplifun eða jafnvel á sér aldrei stað.
Alveg frá því að ég var lítil og búin að átta mig á að líkami minn var mjög frábrugðinn líkömum flestra í kringum mig man ég að ég var sífellt leitandi. En ég fann hann hvergi – líkama eins og minn. Ekki í barnabókum né teiknimyndum. Ekki í sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum. Aldrei í námsefni, t.d. í kynfræðslu. Líkami minn var hvergi. Nema kannski í mínum ímynduðu barnaleikjum, t.d. playmo. Ég sagði engum frá þessari leit en vonaði bara að einn daginn kæmi ég auga á hann. Vonin dofnaði þó með alls konar afleiðingum, t.d. miklu líkamshatri á unglingsárum, aftengingu við líkaman, ótta við að sýna hann og ranghugmyndum um kynverund mína. Ósýnileikinn var ekki eina ástæðan en spilaði stóran þátt í mjög flóknum samskiptum mínum við líkama minn. Og gerir enn í dag.
Ég var átján ára þegar ég hitti í fyrsta skipti manneskjur með sömu skilgreindu skerðinguna og ég og þ.a.l. svipaða líkamsverund á ráðstefnu í Bandaríkjunum. Það var skrítið, gott, vont, yfirþyrmandi og allt þar á milli. Frelsandi á margan hátt. Það var samt einhvernveginn ekki nóg að sjá bara líkama eins og minn á lokaðri ráðstefnu á hóteli. Áfram sá ég þá ekki í sjónvarpinu, leikhúsinu, blöðunum og bókum.
Þangað til í kvöld á leikritinu Falling in Love With Frida í Manchester. Ég vissi að ég var að fara á leiksýningu um fötluðu listakonuna Fridu Kahlo. Það sem ég vissi ekki var að leikkonan, sem leikur Fridu, Caroline Bowdish, er með sama beinagenanýsköpunina (eins og ég hef nýverið valið að kalla læknisfræðilegan skilgreindan gallan þökk sé Gunnhildi Sigurhansdóttur) og ég og því með svipaða líkamsverund. Þegar ég kom inn í salinn var hún komin inn á sviðið og ég sá það strax – þetta var líkami sambærilegur og minn. Mér fannst það óþægilegt í fyrstu að það hefði verið það fyrsta sem ég tók eftir. Skammaðist mín. Ég fyrirgaf mér það þó fljótt er leiksýningin hófst og ég naut þess að horfa á þetta mjög svo fallega verk. Verk sem einhvernveginn ögraði flestu sem við erum búin að skapa okkur í huganum um líkama og hreyfingar og snerti á flestum tabúum sem lúta að alls konar líkömum fatlaðra kvenna.
Það var þó ekki það sem hafði mestu áhrifin á mig. Það var einfaldlega það að finna líkama sambærilegan og minn, loksins, í rými sem fólk með ófatlaða og normatíva líkama hefur eignað sér. Á leiksviði. Og eitt af því fyrsta sem ég hugsaði þegar ljósin sloknuðu og fólkið í salnum klappaði nánast endalaust var; ég vildi að ég hefði getað sagt 8 ára Freyju að hún myndi finna líkama ,,sinn” að lokum. Á mjög fallegri leiksýningu í stóru leikhúsi þegar hún færi í skiptinám til Manchester 20 árum seinna.