top of page

Andóf fatlaðra kvenna: ræða flutt á baráttufundi á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Áður en ég byrja finnst mér mikilvægt að minnast þess að flestar fatlaðar konur á Íslandi geta ekki verið hér í dag – það fylgja því bæði forréttindi og ábyrgð að tala fyrir hönd okkar á þessum fundi. Þær geta ekki verið hér í dag vegna þess að þær fengu ekki til þess aðstoð, ferðaþjónustan gat ekki komið á réttum tíma, það fékkst ekki táknmálstúlkur, þeim var bannað það eða vegna þess að þær hafa ekki aðgang að netinu og vita ekki að þessi viðburður er að eiga sér stað.

„Mér finnst ég vera alvöru kona. Sterk. Sterkari og duglegri. Tilbúnari í að segja. Hvað mér finnst. Og hvað er rétt og rangt, sko. Það finnst mér alveg meiriháttar flott. Því þá er ég ekki eins óörugg um mig.“ Þetta eru orð konu á fertugsaldri, með þroskahömlun, sem tók þátt í MA rannsókn minni í kynjafræði á sálrænum afleiðingum af misrétti fyrir fatlaðar konur á Íslandi á árunum 2015-17.

Öll eigum við að vita að fatlaðar konur eru brotaþolar kynbundins ofbeldis og fötlunarmisréttis sem oft samtvinnast og verða ein flækja en hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ég ætla ekki að staldra við birtingarmyndir ofbeldisins í dag eða svimandi háar tölur um tíðni þess. Ef við erum að hlusta á fatlaðar konur og taka þær alvarlega dag frá degi eigum við að vita allt um það. Ég ætla að tala um andóf. Kröfur. Byltingar.

Konurnar sem tóku þátt í rannsókninni, 9 talsins, á aldrinum 20-50 ára, með ólíkar skerðingar, deildu sameiginlegri reynslu af þessu ofbeldi. Afleiðingarnar voru kvíði, reiði, sorg, fíkn, upplifun af því að vera álitnar byrði, ómennskar og kynlausar. Það er auðvitað ekki þeirra að finna lausn á þeirri kerfisbundnu kúgun sem þær upplifa enda ekki á þeirra ábyrgð. Skömmin er ekki okkar. Þær hafa samt skýrar kröfur. Ég get ekki farið yfir þær allar í dag en ég ætla að draga nokkrar fram.

Mikilvægustu lausnirnar eru af pólitískum toga, að þeirra mati; kerfisbreytingum og réttarbótum, t.d. lögfestingu Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, NPA, réttlátu bótakerfi, táknmálstúlkun á öllum sviðum og alhliða góðu aðgengi. Þegar þetta er í ólagi eru margar fatlaðar konur ekki einungis ofurseldar læknisfræðilegu kerfi og mikilli forræðishyggju fagfólks af öllum kynjum heldur einnig fjölskyldum, þ.m.t. mökum. Oft körlum.

En það er líka hið persónulega. Fötluðu konurnar í rannsókninni gera kröfu um taka skilgreiningarvaldið yfir lífi sínu, upplifunum og líkama úr höndum ófatlaðs fólks og í sínar eigin. Það vilja t.d. gera með því að segja „ég er fötluð“ með stolti.

Þær vilja andæfa kvenfyrirlitningu og rótgrónum hugmyndum um kvenleika. Í því felst m.a. að uppræta kvenfyrirlitningu í fötlunarsamtökum og fötlunarfyrirlitningu í feminískum hreyfingum. Einnig að líkamar þeirra, kynverund og frjósemi séu teknir gildir í kynfræðslu, innan heilbrigðiskerfisins og í allri umræðu um kynlíf og barneignir.

Konurnar sem tóku þátt í rannsókninni vilja sumar rjúfa þögnina en ekki á forsendum annarra heldur ef og þegar þær eru tilbúnar. Þeim skortir oft samstöðu frá kynsystrum sínum og pláss og öryggi til þess að valdeflast með öðrum fötluðum konum.

Síðast en ekki síst gera þær kröfu um að eiga tilfinningar sínar og upplifanir og geta deilt þeim með öðrum án þess að þær séu ógildar eða notaðar gegn þeim, t.d. til þess að réttlæta það að líf í fötluðum líkama sé ekki þess virði að lifa því.

Þar er í raun kjarni málsins. Samfélagið ræktar vítarhringi ofbeldismenningar gagnvart fötluðum konum með því að svipta okkur mennskunni látlaust og afsaka þannig undirokunina. Og með mennskunni fer kynverundin. Á því þurfa allir að taka ábyrgð. Kona á þrítugsaldri sem tók þátt í rannsókninni útskýrði þetta vel er hún lýsti samskiptum sínum við fagmanneskju sem taldi sig vita betur um hennar líf og líkama; „hún byrjaði að koma með rök og ég fann einhvernveginn að ég gat ekki komið með mótrök af því að hún var fagaðilinn, hún var búin að mennta sig í þessu. […]ég finn að ég er ekki í aðstöðu, eða á ekki að vera í aðstöðu, til þess að neita. Þetta fólk er bara háskólagengið og menntað í fólki eins og mér. Og mér finnst fólk ekki horfa á það að ég er ekki bara líkami minn, ég er líka manneskja.“

Til hamingju með daginn og takk fyrir mig.

5 views

Recent Posts

See All

Not being heard: #metoo and disabled women

Speech performed at the #Metoo conference in Reykjavík on the 18th of September 2018 Anna Sigrún Ingimarsdóttir, doctoral student in disability studies and a social worker The #metoo movement initiate

Комментарии


bottom of page