top of page

Atvinna óskast: Ég mæti í vinnu þegar ég get

Höfundur: Margrét Ýr Einarsdóttir

Konan hallar sér aftur í stólnum og leggur hendur í kjöltu sér. Hún hefur unnið núna í 12 tíma og vonar að vinnuveitandinn taki ekki eftir pásunni sem hún hefur tekið sér að honum forspurðum. Hendurnar eru þreyttar, fæturnir eru bólgnir og lúnir en konan freistast til að taka smá hlé á vinnu sinni. Hún kippist við þegar vinnuveitandinn ýtir við henni. Konan heldur áfram vinnu sinni og veltir því fyrir sér hve langt fram á kvöld hún þurfi að vinna, kannski verður það fram á nótt. Áfram heldur konan vinnu sinni þrátt fyrir að vera nær uppgefin. Vinnuveitandi konunnar lætur hana loks vita að nú megi hún fara að sofa, 16 tíma hefur hún unnið nær sleitulaust, líka í matartímum.

Konan leggst á dýnuna sína og reynir að gleyma að stundum kemur vinnuveitandinn upp í til hennar og heldur áfram að níðast á henni. Í nótt ákveður vinnuveitandinn að koma, einmitt þegar hún er að sofna. Hún lokar augunum og vonar að þetta taki fljótt af svo hún fái einvern nætursvefn því konan veit að snemma á morgun byrjar vinnan aftur.

Vinnuveitandinn er harður húsbóndi og aldrei að vita hvaða hugmyndir hann fær á morgnana, stundum rekur hann konuna á fætur um miðja nótt og lætur hana vinna. Eftir mörg ár hjá vinnuveitandanum veit hún að allt getur gerst.

Eftir þennan lestur er myndin í huga þér líklegast nokkurn veginn svona: Unga konan í sögunni er föst í vinnu sem hún vill ekki vinna og vinnur myrkrana á mill. Hún fær sjaldan frið frá yfirboðara sínum, ekki einu sinni á næturna. En þetta er ekki sagan sem ég er að segja þér.

Sagan er í raun um fatlaða/langveika konu. Lestu söguna aftur og hafðu fatlaða/langveika konu í huga og vinnuveitandinn er fötlunin/sjúkdómurinn.

Ég átta mig á því að sumum finnst þetta ýkt lýsing en svona er daglegt líf margra fatlaðra/langveikra einstaklinga og einnig líf sumra foreldra sem eiga fötluð/langveik börn. Sumir lifa þessa sögu alla daga, aðrir oft eða stundum.

Ég þekki þessa sögu sjálf. Ég er alltaf í vinnunni, ég fæ ekkert frí, hvorki helgarfrí né sumarfrí, ekki frí á jóladag og ég fæ ekki veikindadaga. Ég fæ ekki matarhlé og oft ekki nægan nætursvefn. Allt sem ég geri í hinu dagleg lífi er vinna og krefst mikillar orku. Það að koma mér á fætur og fá mér morgunmat er vinna, fara í sjúkraþjálfun er vinna, sinna heimili og fara á milli staða er mikil vinna. En taktu eftir, þetta er bara dagvinnan mín. Enn er eftir yfirvinnan, þ.e.uppeldi og heimilishald og svo er það næturvinnan sem fötlun mín eða sjúkdómurinn sér mér fyrir.

Sólarhringurinn er ekki alltaf svona hjá mér og mig langar að vinna utan heimilis en atvinnulífið á Íslandi er ekki tilbúið fyrir manneskju sem getur stundum mætt í vinnuna og stundum ekki.

Þau fyrirtæki sem eru tilbúin að ráð fertuga hreyfihamlaða konu sem getur stundum unnið 1-2 daga í viku, stundum nokkrar klukkustundir í mánuði og svo koma tímabil þar sem hún getur alls ekki mætt í vinnuna mega endilega hafa samband.

22 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page