top of page

Baráttu- og hátíðarkveðjur

Kæru Tabúkonur, baráttusystkini, samverkafólk og aðrir vinir

Um leið og við óskum ykkur gleðilegrar hátíðar og friðar og mannréttinda á nýju ári þökkum við samhuginn, samstöðuna og stuðninginn á árinu sem er að líða.

Tabú hefur ekki haft mikið á milli handanna né orku til þess að halda úti skipulögðu baráttustarfi þetta árið. Misrétti spyr þó sjaldnast að slíku og höfum við allar í Tabú lagt hönd á plóg við að moka okkur í gegnum óréttlætisskafla og áföll ársins. Við höfum haldið áfram að þrýsta á umbætur á nýrri löggjöf um þjónustu við fatlað fólk sem voru samþykkt á árinu en eru þau bæði bylting og vonbrigði. Góðu fréttirnar eru að NPA hefur verið lögfest og sjáum við strax afleiðingar þess fyrir okkar konur. Nokkrar þeirra hafa nýverið fengið NPA samninga og óskum við þeim innilega til hamingju. Það er þó margt ábótavant sem þarf að vinna í af krafti áfram.

Tabúkonur hafa staðið sig ólýsanlega vel í greinaskrifum, við að yrkja ljóð, tala á ráðstefnum, halda fyrirlestra og þrumuræður og fara í dómsmál vegna fötlunarmisréttis. Við erum þakklátar fyrir óeigingjarnt framlag allra.

Klausturmálið hefur tekið sinn toll af okkur öllum og höfum við kappkostað að styðja hvor aðra og hittast í hlýju og baráttugleði. Við erum afar þákklátar Báru fyrir kjarkinn og þolið. Við erum sammála um að hún hafi náð í sönnunargögn um það mikla fötlunarhatur (og kynjahatur og hinseginhatur) sem er ríkjandi í samfélaginu og við höfum ítrekað bent á en okkur er hinsvegar sjaldnast trúað. Það hefur verið gott að finna samstöðuna.

Við höfum jafnframt reynt að hlúa vel hver að annarri og hittast reglulega á árinu – það er okkur ómetanlegt.

Að lokum viljum við þakka stuðninginn og samstöðuna á árinu, í formi fallegra kveðja og styrkja. Í gær fengum við t.d. fallega jólagjöf frá 1. árs nemum í þroskaþjálfafræði upp á 40.000 kr., sem var ágóði af bolasölu þeirra, en að þeirra sögn vildu þau „styrkja sterkar konur“ í kjölfar liðinna atburða. Allur stuðningur af þessum toga er okkur dýrmætur svo við getum haldið úti okkar starfi.

Við endum þessa jólakveðju með tilvitnun í eina af okkar uppáhalds aktivistum, fyrirmyndum og feministum. Enda einstaklega viðeigandi þetta árið.

‘Sometimes we are blessed with being able to choose the time, and the arena, and the manner of our revolution, but more usually we must do battle where we are standing.’

Með kærri hátíðakveðju,

Talskonur Tabú

10 views

Comments


bottom of page