Ég sat stjörf ein í stofunni og mændi á slökktan sjónvarpsskjáinn. Innra með mér bærðust ótal tilfinningar; skömm, forvitni, eftirsjá og ótti. Ég var hissa. Mig langaði að segja og spyrja um svo margt en vissi að ég gat aldrei sagt neinum frá þessu. Ég var þrettán ára og ein heima þetta kvöld. Mér fannst það gott þó ég hefði enga aðstoð og væri föst á sama stað allan tímann – fyrir framan sjónvarpið með fjarstýringuna í vinstri höndinni. Passasöm að missa hana ekki á gólfið því þá myndi ég ekki geta teygt mig í hana aftur. Ég var bara svo sjaldan í einrúmi að það skipti ekki máli þó að aðstæðurnar væru slæmar. Þá. Sjónvarpsdagskráin var óspennandi en ég ákvað að horfa á mynd á Ríkissjónvarpinu sem var nýbyrjuð þegar mamma og pabbi fóru. Í fyrstu var lítið við hana að athuga. Fjallaði um miðaldra mann sem bjó á bóndabæ og átti flugvél.
Allt í einu var þó komin inn í söguna fötluð kona sem bjó hjá honum. Ég man ekki af hverju. Hún var mikið hreyfihömluð, virtist tjá sig lítið, var illa til höfð, skítug og þurfti mikla aðstoð. Hún lág alltaf einhversstaðar bara. Hún birtist mér sem mikill sjúklingur. Hún var það ekki en kvikmyndaheimurinn vill helst ekki birta fatlað fólk öðruvísi. Þó hann vilji helst ekki birta það.
Mér fannst þetta óþægilegt. Af hverju þurfti þetta alltaf að vera svona? Átti ég að skipta um stöð? Mig langaði ekki að sjá þetta. Samt sá ég aldrei fatlaðar konur í sjónvarpinu. Ég þráði að sjá þær. En þetta var ekki mín spegilmynd. Eða hvað? Var það? Kannski.
Myndin hélt áfram. Allt í einu fór hún að snúast um að konan væri að deyja. Auðvitað. Allt fatlað fólk deyr í bíómyndum. Maðurinn varð riddarinn á hvíta hestinum sem fórnaði tíma sínum í að hugsa um konuna. Hann var líkneski. Samt var hann ekkert sérstaklega góður við hana. Konan var algjörlega frumkvæðislaus. Hún sagði ekkert. Gerði ekkert. Var ekkert. Samt sem áður komst það einhvernveginn til skila að heitasta og seinasta ósk hennar var að stunda kynlíf. Ég skildi það ekki. Af hverju var hún ekki búin að stunda kynlíf fyrr? Stunduðu fatlaðar konur ekki kynlíf?
Ég vissi að ég átti að slökkva á sjónvarpinu. Myndin var líka bönnuð innan 16 ára. Hvað ef mamma og pabbi kæmu heim? Sæju að ég væri að horfa á einhverja mynd um deyjandi fatlaða konu sem vildi stunda kynlíf? Ég skammaðist mín. Ég gat samt ekki hætt að horfa á myndina.
Myndin endaði svo á því að maðurinn svaf hjá konunni. Hetjan sem hann var. Að vera svona góður við greyið fötluðu konuna sem kyrfilega var gefið til kynna að engin/nn vildi. Þau voru ekki ástfangin. Þau virtust ekki laðast hvert að öðru. Þau voru ekki hjón. Þau voru ekki par. Þau voru ekki vinir. Þau voru ekki neitt.
Ég slökkti á sjónvarpinu. Var ringluð og hrædd. Var þetta framtíð mín? Yrði ég konan sem sagði ekkert, gerði ekkert, var ekkert? Yrði mitt kynlíf með öðrum óraunhæfur draumur sem væri ekki hægt að uppfylla nema með hetjulegri ölmusu annarra? Ég starði áfram á svartan skjáinn.
Ég hafði upplifað mikla fordóma fram að þessum tíma og var farin að læra það af skilaboðum samfélagsins að ég væri ekki alvöru stelpa. Ég hafði samt ekki áttað mig á því fyrr en þetta kvöld að í augum margra væri ég líklega ekkert nema afbrigðileg og ógeðsleg. Ég hataði það. En ég hataði líka mig.
Í dag, tæpum tveimur áratugum síðar, vildi ég að ég gæti farið til baka og tekið utan um sjálfa mig og útskýrt fyrir mér að bíómyndir ljúga næstum öllu um fatlaðar konur. Ég hefði bætt við að líkamsverund stjórnaði ekki kynverund og kynlífi kvenna heldur fyrst og fremst hvernig heimurinn sem þær búa í sjá þá líkamsverund. Ég hefði hvatt sjálfa mig til þess að læsa ekki allar þessar flóknu tilfinningar innra með mér og finna einhvern sem ég treysti til þess að tala við. Ég hefði sagt mér að það eina sem væri raunverulega afbrigðilegt og ógeðslegt væri sú staðreynd að ófatlað fólk þénar formúgur og upphefur sjálft sig, af kvikmyndum eins og þessari, með því að kenna fötluðum stelpum um allan heim að hata sig. Ég hefði líka sagt mér að þá staðreynd mætti ég alveg hata – en að hata sjálfa mig væri lífshættulegt. En ég get ekki farið til baka og huggað mig þegar ég var þrettán ára. Leiðrétt ranglætið og komið í veg fyrir allar afleiðingarnar sem þetta hefur fyrir mig og mína kynverund á hverjum einasta degi.
Í staðin get ég að unnið að því að leiðrétta og aflæra það sem þessi bíómynd og heimurinn allur hefur kennt mér um það að vera fötluð kona. Það verkefni gengur upp og ofan, satt best að segja, og mun vara svo lengi sem ég lifi. Því skömmin situr oftast föst hjá mér. En fatlaða kvenpersónan í bíómyndinni er ekki mín spegilmynd. Hún er ekki spegilmynd fatlaðra kvenna sem hóps. Hún er spegilmynd rótgróinna viðhorfa samfélaga sem sér fatlaðar konur sem kynlausar og þar með ekki sem mennskar. Það þarf ég að muna þegar ég horfi á mína spegilmynd. Og ég má ekki gefast upp við það verkefni að virða það sem ég sé og fagna og njóta líkama míns eins og hann er. Ég á það skilið. Því ég er sterk, líka þá daga sem ég er niðurbrotin. Ég á ekki skömmina, þó mér finnist erfitt að skilja við hana flesta daga. Svo er ég þess virði, líka á þeim dögum sem ég trúi því ekki sjálf.