Fín drusla
Orðin svíða, þegar hún segir við mig:
,,Þú ert fín drusla,,
Orðin stinga inn að beini, verða að sorg sem ég leyni
Skömmin sem mamma gat aldrei skilað
Innsti inni vissi ég að hún meinti þetta ekki
Orðin eru sögð undir áhrifum; þegar hún er í glasi og líður illa
Varpar eigin sjálfsmynd og minningum úr æsku yfir á mig
Þeim var ég verst er ég unni mest
Djúpur sársauki – arfleið kynmæðra/kynslóða
Amma mín var drusla að mati samfélagsins þegar hún var ung að árum
Á 5. áratugnum steig hún í vænginn við erlendan herra/hermann
Vogun vinnur vogun tapar
Hún var í ástandinu en ástandið innra með henni var öllu verra
þegar hann yfirgaf hana og landið ísilagða, þá var hún ekki kona einsömul
Frumburðurinn kom í heiminn, útskúfuð hélt hún sig heima í foreldraskýlinu
Í þrjá mánuði leit afinn ekki við sveininum í vöggunni
Tíminn vaggar með mildi augu mætast
Sá gamli tekur ástfóstri við barnið og allir kætast
þegar hann gengur því í föður stað
Steinvala verður að háu fjalli, árin færast yfir
Drungi nætur svíður burt dagsljós hugans
Kveikt er í glóð endurtekið, reykjamökkur er yfir gjörvallri stofu
Fyllir vit mín sígarettureyk, ég leggst ekki til hvílu af ótta við eld
Vín slævir dómgreind og huggar um stund
Móðir mín góð, farðu nú að sofa svo ég geti sett vatn á öskubakkana
Skömmin býr í þögninni og nýr dagur rennur upp
Hún man ekki eftir að hafa sært mig kvöldið áður með orðum liðinna tíma
Þau fellu eitt sinn af vörum móður móður minnar seint um kvöld
slegin í framan með borðtusku, ásökuð um að hafa gert eitthvað ljótt
álitin drusla fyrir það eitt að njóta sín með vinkonum
Hvert átti hún að leita með leyndarmál fortíðar?
Sár sem lyf og vín fá ekki grætt er hún áttaði sig ekki á
Flóttinn frá kynferðisofbeldi í æsku kom upp á yfirborðið
rétt áður en hún tók eigið líf
Þú ert fín drusla eru orð sem særa
hafa fallið munn fram að munni
kynslóð fram af kynslóð
En verða að valdi er ég fyrirgef þér mamma og skila skömminni
þar sem hún á heima.
Höfundur: Kolbrún Dögg, 15.7.2016
Ljósmynd: Jónatan Grétarsson. Myndin sýnir Kolbrúnu Dögg túlka Ernu Ómarsdóttur dansara.
[Myndlýsing: Myndin er svarthvít og sýnir Kolbrúnu Dögg sitja í hjólastól. Myndin er tekin á hlið þannig einungis sést á vinstri hlið Kolbrúnar og svo virðist sem hún sé á fullri ferð á leið útúr myndinni. Hárið stundur upp í loftið líkt og það þeysist um vegna hraðans sem Kolbrún er á.]
Comments