top of page

Druslugangan 2016: Gefðu þér séns á að komast á séns!

Höfundur vill ekki láta nafn síns getið

Kæru baráttusystur og allar systur sem lesa þennan vonandi valdeflandi pistil.

Ég er gift kona á suðvesturhorni landsins, nokkura barna móðir, stunda vinnu og lifi bara ósköp venjulegu lífi eins og við flest.

Ég hef lifað við sýnilega fötlun frá fæðingu, en ung tók ég þá ákvörðun að byggja sjálfsmynd mína og tilveru fyrst og fremst á þeirri staðreynd að ég er kona með tilfiningar, væntingar og drauma um lífið eins og annað fólk. Ég ákvað ung að skilgreina mig ekki sem „fötluðu“ konuna þó ég geti aldrei eða hafi aldrei afneitað henni sem slíkri enda engin ástæða til. Ég lít fyrst og fremst á fötlun mína sem mitt sérkenni sem er bara hluti af mér sem manneskju rétt eins og annað fólk er rauðhært, með skakkar tennur eða nef í yfirstærð.

En hvernig og hvers vegna þessi ákvörðun?

Þegar ég var barn og unglingur litu flestir í nærumhverfi mínu á mig sem „fötluðu“ stelpuna og ég gerði það sjálf því þannig lærði ég að það ætti að vera. Ég var samt aldrei útilokuð frá félagslífi eða öðru sem jafnaldrar mínir tóku sér fyrir hendur, en ég var mjög meðvituð um að ég væri öðruvísi en þeir.

Ég minnist þess svosem ekki að það hafi valdið mér neinum alvarlegum vandræðum þegar ég var barn, en þegar ég komst á unglingsár fór ég að hugsa um stráka og þá fóru málin að vandast. Ég var dásamlega oft skotin í strákum, hugsaði mikið um þá, en var sannfærð um að ég væri svo „gölluð“ vara að það myndi ekki nokkur strákur líta við mér. Af ótta við höfnun reyndi ég því aldrei neitt, gaf engu séns, dáðist bara að þeim úr fjarlægð og lét mig dreyma.

Þegar ég var rúmlega tvítug ákvað ég síðan að fara í nám til Svíþjóðar. Ég valdi Svíþjóð bæði vegna þess að þar fann ég hentugan skóla og svo langaði mig til að stækka sjóndeildarhringinn.

Þegar þangað kom gerði ég eina af meiriháttar uppgötvunum lífs míns. Ég áttaði mig á því að í hugum allra sem á vegi mínum urðu var ég óskrifað blað. Þarna þekkti ég engann og enginn þekkti mig og það gaf mér ómetanlegt tækifæri til að ákveða hvernig ég sjálf vildi skapa mína eigin mynd í hugum samnemenda og annarra sem ég ætti eftir að hitta og kynnast. Ég ákvað að hér eftir ætlaði ég fyrst og fremst að kynna mig sem ungu, lífsglöðu og forvitnu stúlkuna frá Íslandi, fötlun eða ekki, það var aukaatriði. Ég ákvað að láta á það reyna hvort ég ætti séns í strákana. Ég ákvað að láta á það reyna hvort ég gæti ekki orðið opna og hressa stelpan í stað „fötluðu“ stelpunnar.

Það er skemmst frá því að segja að mér tókst þetta svo vel að það kom sjálfri mér á óvart. Ég fékk svo jákvæð viðbrögð frá hinu kyninu að það leið ekki á löngu þar til ég eignaðist minn fyrsta kærasta og þetta sannfærði mig um að ég ætti alla þá sénsa sem ég kærði mig um. Samband mitt við fyrsta kærastann entist að vísu ekki lengi, en gaf mér dýrmæta reynslu og vissuna um það að ég þyrfti ekki og ætti ekki að líta á fötlun mína sem „galla“ eða útilokun frá ástinni og lífinu. Í Svíþjóð varð ég aldrei vör við að fötlun mín hindraði mig frá því að eignast kærasta eða vera með strákum og af því dró ég þá ályktun að það sama hlyti að gilda á Íslandi og hvar annarsstaðar sem ég væri. Þessi sannfæring mín var mjög frelsandi, gaf mér sjálfstraust, kjark og kraft sem ég bý ennþá að, mörgum árum síðar.

Eftirá að hyggja veit ég að vera mín í Svíþjóð var mín mesta gæfa í lífinu því hefði ég ekki farið þangað og uppgötvað frelsi mitt til að vera kona með fötlun, þá ætti ég sennilega ekki manninn minn og börnin mín því ég hefði kannski aldrei gefið neinu séns.

Ef þú sjálf, kæra systir, skilgreinir þig sem gallaða vöru, hvernig er þá hægt að ætlast til að aðrir fái aðra eða öðruvísi mynd af þér?

Prófaðu að láta umheiminn vita af því að þú sért fyrst og fremst stúlka eða kona með langanir og drauma. Prófaðu að gefa þér séns á að komast á séns.

Ég lofa þér því að árangurinn á eftir að koma þér á óvart.

Ég gat, og þú getur líka!

8 views

Recent Posts

See All
bottom of page