top of page

Druslugangan 2016: Kærastinn dömpaði mér

Höfundur lætur ekki nafn síns getið

Fyrir 30 árum var ég 16 ára unglingsstúlka og bjó í litlu þorpi úti á landi. Ég hef búið við sýnilega fötlun alla mína ævi og þó það hafi vissulega alltaf háð mér í heimi sem gerir ekki ráð fyrir fjölbreytileikanum, þá fann ég ekki svo mikið fyrir henni innan um jafnaldrana, ekki svo að það útilokaði mig frá því að stunda félagslífið.

Flest fólk álítur fötlun mína samt svo alvarlega að það hræðist fátt meira en að lenda í mínum sporum hvað það varðar.

Félagslífið, á þeim tíma, fólst aðallega í því að hittast í svokölluðum spilasölum, stöðum sem seldu aðgang að kössum með tölvuleikjum. Sumir komu þangað til að spila leikina og keppa í því að ná sem flestum stigum. Það voru þó aðallega strákarnir sem spiluðu, við stelpurnar notuðum þessa staði helst sem félagsmiðstöðvar.

Mér líkaði yfirleitt vel við krakkana, fann ekki mikið fyrir fordómum eða útilokun, helst að þau væru forvitin, en alltaf fékk ég að vera með og gera það sama og þau á mínum forsendum.

Þar til ég gerðist svo djörf að verða hrifin af strák úr hópnum, þá var vinum hans nóg boðið!

Í þá daga voru unglingarnir orðnir eldri þegar þeir fóru að para sig. Í þá daga tíðkaðist ekki að kyssast úti á götu eða í verslunarmiðstöðvum (enda engar til). Þá laumuðust unglingarnir bak við hús, inn í húsasund eða forstofuna heima hjá sér til slíkra athafna og allt var í laumi til að byrja með. En svo voru auðvitað krakkar sem komnir voru á fast og höfðu opinberað það fyrir öllum, en þau voru yfirleitt orðin eldri.

Ég varð hrifin af strák og ég var viss um að hann væri svolítið skotinn í mér. Alla vega er það alveg víst að ég neyddi hann ekki með mér bak við hús þar sem við kysstumst og þreifuðum hvort á öðru í kvöldmyrkrinu. Okkur þótti þetta óskaplega spennandi, fyrstu kossarnir og heimur fullorðna lífsins var alveg á næsta leiti.

Ég byggði heilmiklar skýjaborgir í kringum þennan strák og í huganum blasti framtíðin við með honum, bara honum. Hann var kannski ekki alveg eins mikill skýjaglópur og ég, fór varlegar í borgarbyggingarnar og framtíðarplönin, en samt – ég var viss um að samband okkar væri á fullri siglingu upp að altarinu.

En þá, eitt kvöldið, beið framtíðarskútan skipbrot og hvarf í haf vonbrigða og ástarsorgar.

Þegar ég mætti í félagsmiðstöðina eitt síðsumarkvöld var draumaprinsinn svo afundinn og fráhrindandi að ég var viss um að hann hefði nú stokkið um borð í aðra skútu. Ég reyndi mikið að komast að því hvað gerði hann svona úrillan, af hverju hann beinlínis forðaðist mig

Og ekki leið á löngu þar til ég komst að því að vinir hans hefðu talað hann til. Þá var farið að gruna að einhver neisti væri á milli okkar og ákváðu að bjarga honum úr þessum „vonlausu“ aðstæðum áður en eitthvað „verra“ hlytist af.

Þeir gerðu honum grein fyrir því að framtíð með fatlaðri kærustu, hvað þá eiginkonu, væri óhugsandi, en auðvitað færi það svolítið eftir því hver fötlunin væri. Þessi stelpa (ég semsagt) var hins vegar með fötlun af því tagi sem enginn strákur, eða karlmaður, gæti nokkru sinni búið við.

Eftir þetta sá draumaprinsinn mig ekki, forðaðist að verða á vegi mínum og passaði uppá að við sæumst aldrei tala saman. Þetta olli mér gríðarlegri sorg og höfnun, líka vegna þess að þetta útilokaði mig, nokkuð lengi, frá félagsmiðstöðinni. Hann hafði þar sterkari stöðu en ég, átti þar fleiri vini og þess vegna kaus ég að draga mig í hlé og sleikja sárin.

Ástarsorgir unglinga eru síður en svo einhver marklaus drami sem fullorðið fólk getur bara leitt hjá sér. Ómótuð sjálfsmynd unglinga þolir illa höfnun og þeir hafa oft á tíðum hvorki þroska né þrek til að vinna hjálparlaust úr þeim tilfinningum sem fylgja henni. Fullorðið fólk ætti alltaf að taka tilfinningaleg skipbrot barna og unglinga alvarlega og veita alla þá aðstoð sem með þarf á meðan sársaukinn gengur yfir.

Í mínu tilfelli snérist sársaukinn ekki einungis um þá staðreynd að kærastinn hafnaði mér heldur forsendur þess að hann hafnaði mér. Það var nefnilega ekki fyrir neina betri en mig, það var fyrir þá staðreynd að ég var ekki boðleg. Það var vegna þess að ég var „gölluð“ og ég myndi aldrei geta bætt það eða breytt því. Þetta voru aðstæður sem ég réði engu um, hafði ekki skapað og gat ekki lagað hversu mikið sem ég vildi það fyrir samband okkar og vináttu.

Ég trúði því þá að svona yrði þetta alltaf, ég væri þess engan veginn verð að nokkur strákur liti nokkru sinni á mig sem annað og meira en hugsanlega vinkonu. Allir draumar um kærasta, trúlofun, giftingu eða fjölskyldu voru þarna þurrkaðir út í mörg ár. Ég var handviss um að ég myndi pipra og yrði að láta mér nægja að sinna og elska systkinabörnin eða börn vinkvenna minna.

Mér fannst ég ekki geta rætt þetta við neinn vegna þess að hér væri um að ræða óumdeilanlega staðreynd sem enginn gæti nokkru sinni breytt og ég var viss um að þetta væru örlög allra stúlkna og kvenna í minni stöðu. Við værum fæddar gallaðar og enginn strákur eða karlmaður vildi slík eintök. Ég trúði því einfaldlega að fatlað fólk eignaðist ekki maka og þaðan af síður börn.

Núna, 30 árum síðar, vildi ég óska þess að ég hefði vitað þá það sem ég veit nú. Nú veit ég nefnilega að við, fatlaðar stúlkur og konur, eigum fullt af sénsum. Ef við hins vegar trúum því staðfastlega að fötlun okkar útiloki okkur frá ástinni, fjölskyldulífi eða foreldrahlutverkinu, þá er hætt við að svo verði.

Forsenda velfarnaðar í þeim málum er sú að trúa á sjálfan sig, hafa hugfast að þú ert fyrst og fremst manneskja með ótal ómetanlega kosti sem gerir þig svo sannarlega þess verða að draumar þínir um ást, börn og bjarta framtíð rætist. Reyndu að líta fremur á fötlun þína sem kost en ókost og mundu að hver sem skerðing þín er, þá ertu einstök og þú átt eftir að finna einhvern annan sem deilir þeirri skoðun með þér og elskar þig sem þá sem þú ert, með kostum og göllum.

Gangi þér vel.

9 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page