top of page

Druslugangan 2016: Obeldi og fatlaðar konur á Íslandi

Höfundar: Sigríður Jónsdóttir og Þorbera Fjölnisdóttir

Þann 17. nóvember sl. gekk hópur kvenna frá Tabú og Kvennahreyfingu ÖBÍ kröfugöngu milli ráðuneyta og Alþingis til að mótmæla niðurfellingu mála um kynferðisofbeldi á dvalarheimilinu Nýjabæ, mála sem Kastljós hafði gert ítarleg skil nokkru áður. Mótmælin beindust ekki eingöngu að umræddum brotum og þeirri skömm að konurnar, sem höfðu orðið fyrir ofbeldinu, höfðu ekki fengið tækifæri til að leita réttar síns fyrir dómstólum, heldur einnig að aðstæðum fatlaðra kvenna, valdaleysi þeirra gagnvart kerfinu, kúguninni innan kerfisinsins og þöggun samfélagsins.

Fötluðu fólki er ekki tryggður aðgangur að réttarkerfinu þar sem rannsóknaraðilar og ákæruvaldið hefur í mörgum málum, eins og þessum, talið að framburður fatlaðs fólks verði ekki tekinn trúanlegur fyrir dómstólum og mál því látin niður falla. Þar með hefur fötluðu fólki verið neitað um aðgengi að réttarkerfinu og réttlæti, sem ætti að vera tryggt í almennri löggjöf og er ítrekað í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Tryggja þarf að innan löggæslu og dómskerfisins sé fyrir hendi þekking og skilningur á stöðu fatlaðs fólks sem þolenda ofbeldis.

Eins er mikilvægt að benda á að ekkert regluverk og eftirlit er með stöðum eins og Nýjabæ, þangað sem fatlað fólk er sent til dvalar. Nánast hver sem er getur opnað slíkan stað. Í umfjöllun Kastljóss kom fram að ábendingar starfsmanna slíkra rekstraraðila um vanrækslu og ómannúðlega meðferð á fötluðu fólki, sem sendar höfðu verið opinberum aðilum í stjórnsýslunni, höfðu að því er virðist dagað uppi eða verið hunsaðar.

Þá má benda á að fatlaðar konur fá margar hverjar ekki aðgang að Kvennaathvarfinu og margar hafa ekki tækifæri til að leita sér hjálpar vegna skorts á aðgengi í víðum skilningi, aðstoð og vegna fordóma. Vert er að benda á að þrátt fyrir að unnið hafi verið að því að draga úr ofbeldi gagnvart fötluðu fólki, einkum konum, þá er sú fræðsla sem þróuð hefur verið að mestu bundin við höfuðborgarsvæðið og fjármögnun á fræðsluefni takmörkuð. Þess ber þó að geta að gefnir voru út bæklingar í tengslum við Daphne verkefnið, rannsókn á ofbeldi gagnvart fötluðum konum, sem Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum tók þátt í ásamt erlendum aðilum. Þeir bæklingar komu einnig út á auðskildu máli, í hljóðfæl og á táknmáli. Slíku efni þarf þó að fylgja markviss og enn ítarlegri fræðsla með dýpri efnistökum sem tryggir að upplýsingarnar gagnist fötluðum konum, séu viðeigandi og, umfram allt, valdeflandi, – því sökin er ekki þeirra.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að aðgreind úrræði og jaðarsetning hefur áhrif á ofbeldi í garð fatlaðs fólks, enda felast þar kjöraðstæður fyrir ofbeldi. Í því umhverfi eru fatlaðar konur og fötluð börn í sérstakri hættu. Bent er á áhrifamikið erindi Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur sem flutt var á málþinginu Fatlaðir þolendur kynferðisbrota sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík þann 24. maí 2016, og sem birt var á vef Tabú undir fyrirsögninni Að upplifa líkama sinn sem almenningseign: Áhrif og afleiðingar margþættrar mismununar. Þar segir Embla m.a.:

„Mikilvægt er að átta sig á því að gerendur nýta sér ekki fötlunina sem slíka heldur nýta þeir sér jaðarsetta stöðu okkar. Dómskerfið kýs til að mynda að líta á okkur, fatlaðar konur, sem ótrúverðug vitni. Þetta vita gerendurnir manna best og notfæra sér óspart. Það væri eflaust lítið varið í að misnota okkur kynferðislega ef á okkur væri hlustað. Þannig eru gerendurnir ekki að nýta sér fötlun okkar heldur það valdaleysi og kúgun sem við búum við á öllum sviðum. Hvort sem um ræðir innan dómskerfisins eða þjónustukerfisins svo dæmi séu nefnd.

Það er ekki tilviljun að fatlaðar konur verða fyrir ofbeldi. Þetta er ekki einhver ótrúleg óheppni og ofbeldið stafar ekki af því að fatlaðar konur geta ekki varið sig.

Í sameiningu höfum við búið okkur til samfélag þar sem ofbeldi, kúgun og misrétti er talið hversdagslegt og jafnvel eðlilegt fyrir tiltekna hópa, – einhverskonar náttúrulögmál. Fólk keppist við að afsaka ofbeldið og afgreiða það sem fáfræði. Svo hvetjum við fatlað fólk til að mæta ofbeldinu með umburðarlyndi og bros á vör. Slík menning er gróðrarstía ofbeldis.“

Í göngunni milli ráðuneyta og Alþingis þann 17. nóvember sl. höfðu konurnar meðferðis kröfuskjöl sem afhent voru á hverjum stað mótmælanna. Kröfuskjal fatlaðra kvenna til Ólafar Nordal, innanríkisráðherra má finna hér, Kröfuskjal fatlaðra kvenna til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra má finna hér og Kröfuskjal fatlaðra kvenna til Alþingis má finna hér.

Í kröfuskjalinu sem afhent var innanríkisráðherra var m.a. farið fram á eftirfarandi:

„Að innanríkisráðherra tryggi að fatlaðir brotaþolar hvers kyns ofbeldis hafi jafnt aðgengi að réttarkerfinu og ófatlað fólk. Í því felst að lögregla og dómskerfið hafi nægilega þekkingu á samfélagslegri stöðu okkar sem jaðarsetts hóps, verkferlar séu aðgengilegir og auðskiljanlegir og að sú aðstoð sem við þurfum, t.d. vegna óhefðbundinna tjáskiptaleiða, sé veitt og rýri ekki undir nokkrum kringumstæðum möguleika okkar til þess að kæra ofbeldisbrot og koma þeim alla leið í gegnum réttarkerfið.

Að ekki sé tekið mark á okkur því líkamar okkar líta öðruvísi út, greindarvísitala okkar samræmist ekki normalkúrfunni, skynjun okkar sé með öðrum hætti en meirihlutans eða við notum skynfæri okkar með öðrum hætti en flestir er ofbeldi í sjálfu sér.

Að innanríkisráðherra tryggi að umbætur á löggæslu og réttarkerfinu séu unnar í fullu samráði og samstarfi við fatlað fólk, einkum okkur konur.“

Í kröfuskjalinu sem afhent var félags- og húsnæðismálaráðherra var m.a. farið fram á eftirfarandi:

„Að félags- og húsnæðismálaráðherra skilji ábyrgð sína. Velferðarráðuneytið fer með yfirstjórn í málefnum okkar, ber ábyrgð á ytra eftirliti og því að setja reglugerðir um tiltekna þjónustu til þess að tryggja öryggi okkar.

Að félags- og húsnæðismálaráðherra láti gera úttekt á öllum sumardvölum fyrir fatlað fólk fyrir vormánuði, börn og fullorðna, og að sú vinna verði m.a. unnin af fötluðu fólki.

Að félags- og húsnæðismálaráðherra skilji að alþjóðlegar og íslenskar rannsóknir sýna að ofbeldi þrífst í aðgreinandi úrræðum og þar sem skortur er á aðstoð. Nauðsynlegt er að tryggja að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest sem eitt meginform í þjónustu við fatlað fólk óháð aldri og tegund skerðingar eins og alþjóðlegar hreyfingar fatlaðs fólks gera kröfu um.

Að félags- og húsnæðismálaráðherra tryggi að umbætur á þjónustu við fatlað fólk séu unnar í fullu samráði og samstarfi við fatlað fólk af öllum kynjum og á öllum aldri.“

Í öllum kröfuskjölunum er bent á að við, fatlaðar konur, erum mennskar. Við eigum rétt á mannréttindum og eigum ekki að vera smækkaðar niður í að vera viðfang velferðar. Við erum ekki kynlausar, úrhrök og afgangsstærð, eilíf börn eða ófærar um að hafa skoðanir, tala máli okkar og lifa sjálfstæðu lífi þó sumar okkar þurfi til þess mikla aðstoð. Þá er mikilvægi þess ítrekað að við fáum rými til þess að skilgreina okkur sjálfar. Fatlaðar konur hafa alltof lengi þurft að lifa í þögn yfir kynferðisofbeldi, andlegu ofbeldi, líkamlegu ofbeldi, efnislegu ofbeldi, stofnanaofbeldi, þvingunum, vanrækslu, hatursglæpum, kerfislægu ofbeldi og menningarbundnu ofbeldi. Það er á ábyrgð valdamanna og samfélagsins alls að binda enda á þá ofbeldismenningu sem einkennir líf fatlaðra kvenna. Aðgerðarleysi styður þá ómenningu og viðhorf sem enn ríkir, að ofbeldi sé einskonar náttúrulögmál og órjúfanlegur hluti af lífi okkar.

Tabú hefur ekki upplýsingar um hvort gripið hafi verið til aðgerða innan ráðuneytanna eða Alþingis í samræmi við þær kröfur sem settar voru fram í Kröfuskjölunum sem afhent voru þann 17. nóvember sl.

Stjórnvöld þurfa að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Aðildarríki hans viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, á að verða þolendur ofbeldis, sbr. q. lið formálsorða Samningsins. Aðildarríkjum ber að taka sérstakt tillit til fatlaðra kvenna og gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fullan þroska, framgang og valdeflingu kvenna í þeim tilgangi að þau mannréttindi og það grundvallarfrelsi sem sett eru fram í samningnum sé tryggt, sbr. 6. gr. samningsins.

Stjórnvöld þurfa einnig að vinna markvisst að einu samfélagi fyrir alla þar sem valdefling einstaklingsins er höfð að leiðarljósi. Fatlaðir einstaklingar sem eru háðir öðrum um aðstoð í daglegu lífi eru berskjaldaðir fyrir ofbeldi. Því þarf öll aðstoð við fatlað fólk að fylgja hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Og samfélagið þarf að skilja og styðja þá valdeflingu og þann rétt, því án þess stuðnings er ofbeldismenningu og kúgun viðhaldið.

10 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page