Höfundur: Freyja Haraldsdóttir
Á Íslandi er ekki sterk baráttuhreyfing fatlaðs fólks miðað við víða annars staðar í heiminum. Baráttan hefur meira og minna verið í höndum fárra einstaklinga með skerðingar, lítilla hagsmunahópa fatlaðs fólks, hagsmunasamtaka sem ekki eru stýrð af fötluðu fólki og ófatlaðra stuðningsmanna. Ég vil meina að það valdi því að framfarir á sviði mannréttinda okkar eru hægar, það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn og valdamikla embættismenn að misnota vald sitt því pressan er máttlaus og mikið svigrúm er fyrir það að mál sofni …. og stundum deyi. Fatlað fólk á Íslandi, einkum konur, er auðvelt skotmark mannréttindabrota.
Erfitt er að merkja hvers vegna staðan er með þessum hætti og get ég nefnt óteljandi ástæður sem hugsanlega koma til greina:
– lítill möguleika fatlaðs fólks til þess að valdeflast, styrkja sjálfsmynd sína og gera kröfur í eigin lífi
– forræðishyggja, plássfrekja og afskiptasemi ófatlaðs fagfólks og baráttufólks
– á stundum hroki akademíunnar
– skortur á aðstoð við fatlað fólk sem skapar möguleika til þátttöku og þar með tækifæri til þess að taka þátt í mannréttindabaráttu
– innbyrðis fordómar milli fötlunarhópa sem grefur undan samstöðu
– ábyrgðarleysi og lært hjálparleysi fatlaðs fólks þegar kemur að réttindabaráttu
– ótti og vonleysi
– skörun samfélagshópa sem veldur margþættri mismunun sums fatlaðs fólks, t.d. hinsegin fatlaðs fólks, fatlaðra kvenna og fatlaðra barna, og veldur því að það finnur sig hvergi velkomið.
Ástæðurnar eru örugglega margar og flóknar og ekki mitt að leggja dóm á það ein og sjálf.
Einmanaleiki
Sem þátttakandi í fötlunar- og kynjatengdri mannréttindabaráttu á Íslandi hefur þessi staða mikil áhrif á líðan mína og upplifun af aktivismanum. Ég hef mjög takmarkað bakland sem styður mig í starfi mínu og sá þröngi ómetanlegi hópur sem myndar þetta bakland hefur oft fullt í fangi með að halda sjálfu sér gangandi og missa ekki vonina í oft á tíðum vonlausu umhverfi.
Efri mynd: Freyja ásamt Teresa Lugsteim, fatlaðri konu og kvennaráðgjafa í Austurríki.
Ófatlaði stuðningshópurinn er oft upptekinn í alls konar hlutum og því fljótur að gleyma ,,smámálum” eins og réttindabaráttu fatlaðs fólks. Því skortir líka oft hugrekki til þess að vera opinberir stuðningsmenn og hvetja mig/okkur frekar áfram í lokuðum fundarherbergjum – ekki endilega upphátt svo allir heyri.
Mér finnst ég ekki endilega finna mér farveg sem bæði fötluð manneskja og kona því fötlunarbaráttan er mjög karllæg og kynhlutlaus (við erum bara einstaklingar en ekki kyn) og í femínískri baráttu finnst mér ekki pláss fyrir reynsluheim minn sem fötluð manneskja. Í baráttuumhverfinu er ekki þverfóta fyrir ófötluðu fólki með ófatlaðar skoðanir og því finnst mér ég oft þurfa að eyða mikilli orku í að réttlæta tilveru mína, sjálfið mitt og aðgerðir mínar. Ég fæ lítinn frið og lítið pláss til þess að segja og gera hluti án þess að þurfa að rökstyðja það í þaula eða deila tilfinningum sem mér finnst ég ekki þurfa að afsaka eða útskýra. Jafnframt er ekki oft sem einhver segir; hey, þú ert á réttri leið! Meira svona; farðu nú að slaka á frekjan þín!
Þetta veldur mér og okkur sem upplifum þessa stöðu oft mikilli vanlíðan. Vanlíðan sem ég áttaði mig á fyrir stuttu að væri í raun einmanaleiki. Sem fötluð kona er ég einmanna í mannréttindabaráttu á Íslandi.
Alþjóðlegt samstarf og samstaða fatlaðra kvenna
Freyja heimsótti feminísku ráðgjafamiðstöðina Ninlil í Vín sem byggir á hugmyndafræði jafningjaráðgjafar þar sem fatlaðar konur styðja aðrar fatlaðar konur m.a. varðandi hverskyns ofbeldi, upplifun þeirra af líkama sínum og kynímynd, málum sem snúa að barneignum og móðurhlutverkinu og alls konar annað sem konurnar vilja ræða og fá aðstoð við.
Fyrir tæpri viku kom ég heim frá Vín þar sem ég var á vinnufundi og hitti margar fatlaðar konur sem starfa í svipuðum hlutum og ég. Allt í einu var upplifun mín og líðan á allra vörum því hún var sameiginleg með okkur öllum. Allt í einu þurfti ég ekki að afsaka mig, réttlæta eða útskýra. Allt í einu gat ég verið femínisti og fötluð kona á sama tíma. Allt í einu var í lagi að segja upphátt að það væri erfitt að vera kona í fötlunarbaráttu og fötluð í kynjajafnréttisbaráttu. Allt í einu vorum við nógu stór hópur af fötluðum konum á fundi með ófötluðum konum til þess að vera ekki í minnihluta. Allt í einu gátum við átt skoðanaskipti og deilt ólíkri sýn án þess að upplifa hroka eða undirskipun. Allt í einu var hópur af svona og hinsegin fötluðum konum frá fjórum löndum að benda hvor annarri á að þær væru á réttri leið á sínum ólíku ótroðnu slóðum. Konur sem minntu hvor aðra á, á vinnufundum og yfir hvítvínsglasi á kvöldin, að reynsluheimur þeirra væri á við margar háskólagráður. Þó aðrir lítilsvirði og vanmeti djúpu þekkinguna sem frá reynsluheiminum kemur er hún dýrmæt og á að hafa þungavigt í samfélagsumræðunni í heimalöndum okkar og alþjóðlega.
Einmanaleikinn hvarf ekki en þessir nokkru dagar í Vín voru hins vegar kærkomið andlegt frí og mikil orkusprauta þrátt fyrir mikla vinnu. Þeir voru líka áminning um mikilvægi þess að Tabú er rétt skref í átt að því að skapa vettvang þar sem fatlaðar konur á Íslandi fá frið og pláss til þess að vera fatlaðar manneskjur og konur á sama tíma og gera og segja, innbyrðis og opinberlega, það sem þeim sýnist án þess að þurfa að skammast sín eða afsaka sig.
Ein af konunum í Vín orðaði þetta nokkuð vel: ,,Að vera ,,hin” gefur okkur möguleika á að fara aðra leið og hafa meira pláss. Það getur hins vegar verið meira einmanalegt því engin hefur farið leiðina áður eða getur ímyndað sér hana. Þess vegna er mikilvægt að við getum talað saman um allar þessar efasemdir og ótta. Til þess að halda áfram.”
Comments