top of page

Ekki í mínu nafni

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Ég er búin að vera sorgmædd, vonsvikin og reið yfir þeirri umræðu sem Þroskaþjálfafélagið hefur haldið á lofti síðustu daga. Ég hef velt fyrir mér hvort ég eigi að tjá mig um það eða þegja. Ég hef nú, eftir tveggja daga umhugsun, ákveðið að segja upphátt það sem ég er að hugsa. Það geri ég vegna þess að ég bý við þau forréttindi að geta það, þ.e.a.s. ég hef fengið tækifæri til þess að læra að lesa og skrifa, ég hef aðgang að internetinu og ég er ekki háð þeim þroskaþjálfum sem tala nú um fatlað fólk sem ofbeldisfólk. Ég tala líka sem þroskaþjálfi.

Ofbeldi er aldrei afsakanlegt. Það á engin að þurfa að þola ofbeldi í vinnunni, heima hjá sér, úti á götu né nokkursstaðar. Það er hins vegar þannig að ofbeldi er ekki einfalt fyrirbæri, allra síst í umhverfi þar sem ríkir ofbeldismenning. Líf okkar fatlaðs fólks er líf í ofbeldismenningu. Ég hef orðið fyrir ofbeldi á grundvelli kyngervis og fötlunar. Ég hef ítrekað horft upp á fatlað fólk, baráttusystkini, fólk á förnum vegi og ‘skjólstæðinga’ mína, verða fyrir ofbeldi. Ég hef hlustað á hverja söguna á fætur annarri um ofbeldi á grundvelli fötlunar. Fatlað fólk hefur skrifað opinberlega um ofbeldi. Ég hef horft á og heyrt bæði fagfólk og aðstandendur réttlæta ofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Ég hef setið í leikhúsum og kvikmyndahúsum umkringd fólki sem hlær í umvörpum að senum þar sem fatlað fólk er beitt ofbeldi.

Það ofbeldi sem ég hef orðið fyrir og horft upp á hefur haft mikil áhrif á mig. Ég glými oft við líkamshatur, ég forðast ákveðnar aðstæður og fólk, ég triggerast þegar ég sé aðra verða fyrir ofbeldi eða heyri lýsingar á því, keyri framhjá ákveðnum byggingum eða er í kringum eða sé einhverjar manneskjur sem hafa sýnt ofbeldishegðun. Ég á oft erfitt með að festa svefn og vakna oft ítrekað á nóttunni. Ég er líka oft kvíðin yfir rökréttum og órökréttum hlutum.

Það sem ég hinsvegar hef tækifæri til þess að gera er að deila þessari reynslu minni og þannig fá útrás fyrir sorgina, hræðsluna, kvíðan og reiðina. Ég get talað við fjölskylduna mína sem hefur alltaf sýnt djúpstæðan skilning, ég get leitað til vina sem hlusta, hughreysta og sýna samkennd með orðum og í þögn, ég get speglað líðan mína með baráttusystkinum mínum út á jaðrinum, skrifað fyrir mig sjálfa og aðra, leitað til sérfræðinga o.sfrv. Ég er líka með NPA og nota minn eigin bíl en ekki ferðaþjónustuna sem hefur dregið verulega úr ofbeldisaðstæðum í mínu lífi. Þrátt fyrir það verð ég stundum pirruð við fólk sem á það ekki skilið og mér þykir hvað mest vænt um og hreiti jafnvel ónotum í það og upplifi mig á stundum gjörsamlega valdalausa og eina í heimi þar sem enginn skilur mig almennilega. Þá fæ ég svo samviskubit sem lætur mér líða enn verr.

Málið er hins vegar það að fæst fatlað fólk er í þeim sporum. Margt fatlað fólk er ýmist líffræðilega og/eða samfélagslega dæmt til þess að lifa í þögn. Það ræður ekki hvar það býr, með hverjum og hver aðstoðar það. Það hefur ekki val um að hringja í aðstandendur þegar því líður illa né einkalíf til þess að tala um það sem það er að upplifa. Það hefur ekki tækifæri til þess að leita skjóls í Kvennaathvarfið, fara á Stígamót eða aðra sambærilega staði, fara út og öskra eða panta sér tíma hjá sálfræðingi. Það getur jafnvel ekki tjáð sig með hefðbundnum hætti eða samfélagslega skilgreint skýrt og því er það ýmist hunsað, ekki tekið alvarlega og beinlínis refsað fyrir að nota aðrar leiðir til þess að tjá vanlíðan eða segja hug sinn.

Þessar óhefðbundnu leiðir til tjáskipta eru oft stimplaðar sem óæskileg hegðun og nú, að öllum líkindum, ofbeldi. Það er ekki litið svo á að um sé að ræða sjálfsbjargarviðleitni. Ég segi það hér, og hef raunar oft gert, að hefði ég alist upp og búið við þessar aðstæður væri ég nú skilgreind sem ofbeldiskona. Ég væri búin að öskra á fólk ef ég gæti það, hrækja á það, reyna að bíta það, brjóta glös, diska og kasta hnífapörum. Ég væri búin að eyðileggja raftæki sem ég gæti kastað í gólfið, hætta að borða og drekka og margt fleira sem ég hef ekki hugmyndaflug í. Kannski væri ég þó búin að gefast upp. Orðin tóm í augunum, tekin í framan og brosandi hringinn allann daginn. Því það væri búið að refsa mér svo oft fyrir að ,,láta svona” (standa upp fyrir sjálfri mér, segja hug minn og setja mörk). Ég myndi bara hlýða. Og þjást. En ég hræki ekki, bít, kasta hlutum og eyðilegg því ég hef tækifæri til þess að nota aðrar leiðir þegar ég er beitt ofbeldi eða horfi upp á og heyri af ofbeldi.

Að sjálfsögðu er til fatlað fólk, líkt og ófatlað fólk, sem er ofbeldisfullt af öðrum ástæðum en kúgun. En það er bara brotabrotabrot af þeim hópi sem hér um ræðir. Að halda öðru fram og ætla að leysa þetta með því að brennimerkja fatlað fólk, einkum fólk með þroskahömlum, sem hóp af ofbeldisfullu fólki sem þarf að beisla niður enn frekar og setja skorður með verklagsreglum og skýrari strúktúrum er önnur tegund af ofbeldi. Þolendaskömm. Þroskaþjálfafélagið sýnir því óheyrilegt ábyrgðarleysi með þessum málflutningi, sem ofan á allt annað, er byggður á ÓFORMLEGRI könnum. Ofbeldi er ekki leyst með ofbeldi. Ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og starfsfólki í okkar umhverfi er leyst með samfélagsbreytingum sem eru lausar við aðskilnaðar- og mannkynbótastefnur. Samfélagsbreytingum sem lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð og aðgengi fyrir alla, banna mismunun á vinnumarkaði og gefa fötluðu fólki aðkomu til áhrifa á öllum stigum stjórnsýslunnar. Samfélagsbreytingum sem fela sér mannréttindastefnu en ekki ofbeldisstefnu.

Ég kæri mig ekki um að tilheyra fagstétt sem sér ekki skaðan í því að brennimerkja jaðarsettan hóp sem gerir hann (og þroskaþjálfana sem aðstoða okkur) útsettari fyrir ofbeldi. Ég vil tilheyra fagstétt sem vinnur faglega að samfélagsumbótum með fötluðu fólki því þannig drögum við úr allri ofbeldismenningu, bæði gagnvart fötluðu fólki og starfsfólki, sem stjórnvöld og kerfið hefur skapað og viðhaldið. Ég veit að ég er ekki eini þroskaþjálfinn sem að vill tilheyra slíkri fagstétt. Vöndum okkur.

12 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page