top of page
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram

Er NPA dýrt djók?

Höfundur: Rúnar Björn Herrera Þorkelsson

Í ljósi umræðunnar undanfarið um það hvað hún Freyja er mikil frekja að heimta að boðið verði upp á NPA samninga í stað frekari uppbyggingar á stofnunum, sem að margra mati ganga gegn Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þá langar mig hér að fara aðeins yfir það hversu mikið dýrara þjónustuform NPA er í raun og veru.

Í umræddri tilkynningu frá borgarráði er talað um að leggja til 520,6 milljónir í árlegan rekstrarkostnað til þess að þjónusta 28 einstaklinga með mismiklar þjónustuþarfir. Þetta fjármagn eitt og sér myndi duga til þess að veita 21 einstaklingum fullan NPA samning (sólarhringsaðstoð). Sé hinsvegar miðað við að ekki allir þurfi á aðstoð allan sólarhringinn að halda er klárt mál að það er vel hægt að nýta þetta fjármagn jafn vel, ef ekki betur, með því að fjármagnið fari í gerð NPA samninga. Það er því nokkuð ljóst að mjög erfitt er að segja að NPA sé dýrara þjónustuform.

Við skulum svo ekki gleyma því að inni í þessari áætlun velferðarsviðs er einnig talað um það að setja um 1 milljarð í uppbyggingu á húsnæði fyrir þessa starfsemi svo hún er í raun talsvert dýrari en NPA. Þetta gerir um 30 milljónir á hvern íbúa samkvæmt “áætlun”.

Ég er ekki endilega á móti því að það verði byggt meira af húsnæði fyrir fatlað fólk en væri ekki ágætt að byrja á því að gera fötluðum kleift að komast inn í almennt húsnæði. Hérna kemur Algild hönnun sterk inn, ég hvet fólk til þess að kynna sér það betur. Stjórnvöld ættu að beita sér fyrir því að t.d. engin ný íbúð yrði byggð án þess að fötluð manneskja kæmist þar inn. T.d. eru hér heilu hverfin þar sem fatlaðir komast bara inn í lítinn hluta af íbúðum þar sem flestar byggingar eru þriggja hæða og lyftulausar. Nú spyr fólk væntanlega: en væri ekki svo dýrt að setja lyftu í þriggja hæða hús? Svarið við því er, jú auðvitað, en þá hefðu bara verið byggð stærri hús þar sem lyftan myndi deilast á fleiri íbúðir.

Ég vil svo benda á það að einstaklingur með miklar þjónustuþarfir þarf ekki endilega að búa í húsnæði sem er sérútbúið fyrir fatlað fólk. Það dugir að húsnæðið sé aðgengilegt og almennt fólki bjóðandi. Ég tel a.m.k. að ég gæti búið í húsnæði þar sem kostnaðurinn er ekki yfir 30 milljónir per íbúa. Einnig er spurning hvort ekki myndu losna um einhver pláss á þessum fjölmörgum sambýlum eða þjónustukjörnum sem nú þegar eru til ef eitthvað af því fólki sem býr við þær aðstæður myndi frekar vilja NPA. Að mínu mati er ekki skortur á stofnanaúrræðum en það er skortur á NPA. Að lokum vil ég svo taka það fram að ég gæti ekki frekar en Freyja hugsað mér að fara aftur yfir í hið hefðbundna stofnanavædda þjónustukerfi.

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson er varaformaður stjórnar NPA miðstöðvarinnar. Hann skrifaði ofangreinda grein á bloggið sitt í kjölfar svæsinnar umræðu í kommentkerfum DV í frétt þar sem fjallað var um opið bréf Freyju Haraldsdóttur til borgarráðs. Við ákváðum í samráði við Rúnar að birta bloggfærsluna hér á Tabú.

1 view

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page