Höfundur: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir
Ég var 17 ára gömul þegar ég kynntist femínisma almennilega. Það var merkilegt og í senn óþægilegt að sjá lífið allt í nýju ljósi. Allt ógeðið sem feðraveldinu fylgir, hvernig gat þetta farið framhjá mér í öll þessi ár? Á þessum tíma var ég mjög meðvituð um fötlunarfordóma sem ég mætti daglega en mig skorti hugtök til að lýsa þeim. Femínisminn færði mér tæki og tól til þess að tala um og vinna gegn kynjamisrétti. Ég var skyndilega orðinn æstur femínisti og vildi fá útrás með öðrum femínistum.
Ég fór að sækja femíníska viðburði í þeirra von að geta loksins hitt fólk sem væri á sömu blaðsíðu og ég. Fólk sem leitaðist við að breyta samfélagsgerðinni en ekki hvert öðru og hefur trú á jafnrétti. Ég hafði miklar væntingar bæði til femínista og til femínismans sem hugmyndafræði.
Fötlunarfordómar innan femínistahreyfinga Fyrsti viðburðurinn sem ég mætti á var haldinn á annarri hæð á Sólon sem vakti undrun mína. Ég ákvað samt að láta mig hafa tröppurnar því umræðu efnið var spennandi. Ég settist við laust borð og fann strax að ég passaði ekkert sérlega vel inn í hópinn. Ég varð skyndilega óvenju meðvituð um líkama minn og reyndi eins og ég gat að láta lítið fyrir mér fara. Mig langaði mikið að verða hluti af þessum hópi en tilfinningin um að tilheyra var fjarri góðu gamni.
Þó að ég hafi ekki fundið mig í hópi íslenskra femínista lærði ég með tíð og tíma að nýta femínismann í mínu daglega lífi þegar kom að allskyns misrétti. Ég áttaði mig á því að ég og aðrar fatlaðar konur upplifum sambland af allskyns fordómum og mismunun sem fáir virðast taka sérstaklega eftir.
Hvorki fötlunar né femínistahreyfingar hafa sýnt mikla viðleitni til þess að viðurkenna og bregðast við þessari stöðu. Enn ríkja fötlunarfordómar innan femínistahreyfinga og karlremba innan fötlunarhreyfinga. Fólk segir gjarnan við mig „auðvitað eru fötlunarfordómar meðal femínista eins og allsstaðar annarsstaðar“ en mér finnst ekki að það ætti að vera svo sjálfsagt, ekki frekar en mér finnst sjálfsagt að karlremba ráði för í fötlunarbaráttu.
Ógerlegt að flokka misrétti Í mínum huga er femínismi sem hugmyndafræði öflugt tæki til þess að greina samfélagið, skilja valdakerfi og finna skrefin í átt að jafnrétti. Af þeim sökum finnst mér femínistar almennt hafa mikið forskot á aðra þegar kemur að því að skilja samfélagslega stöðu jaðarhópa og mikilvægi þess að taka mið af samtvinnun mismunabreyta þegar barist er fyrir jöfnum rétti.
Hér á landi hafa hins vegar verið uppi háværar raddir um mikilvægi þess að aðgreina kynjajafnrétti frá öðrum jafnréttismálum svo umræðan verði ekki „útþynnt“. Mér finnst stórmerkilegt að femínistar standi fyrir slíkum málflutningi og geri á sama tíma svo lítið úr reynsluheimi kvenna. Við vitum vel að konur tilheyra líka mismunandi stéttum, hafa mismunandi kynhneigð og kynvitund, mismunandi húðlit, mismunandi getu o.s.frv., sem allt hefur samverkandi áhrif á félagslega stöðu okkar. Í mínu tilfelli, og líklega flestra, er ógerlegt að flokka í sundur það misrétti sem ég verð fyrir. Ég get ekki verið fötluð á mánudögum, kona á þriðjudögum og samkynhneigð á miðvikudögum til þess að laga mig betur að baráttunni hverju sinni.
Í mínum huga komumst við ekki lengra í jafnréttismálum án þess að taka til greina alla þá samverkandi þætti sem valda mismunun. Ég hef fulla trú á að það sé hægt ef við þorum að horfast í augu við óttann og kyngja stoltinu. Konur hafa lengi barist fyrir því að á þær sé hlustað og að þær fái sama rými og vægi í umræðunni og karlar. Nú er kominn tími til að femínistar beiti þessari hugmyndafræði innan frá þannig að foréttindahópur femínista hlusti á jaðarsettar konur svo þær fái aukið rými og vægi í umræðunni. Konur eru allskonar og fullu kynjajafnrétti verður ekki náð fyrr en gert er ráð fyrir því á öllum stigum baráttunnar.
– Höfundur er talskona Tabú og nemi í kynjafræði.
Grein þessi britist upphaflega í ársriti Kvennréttindafélags Íslands þann 19. júní 2015 http://kvenrettindafelag.is/