top of page

Fötlun og fátækt

Höfundur: Þorbera Fjölnisdóttir

Þær raddir hafa oft heyrst að það verði alltaf til fátækt fólk, svona eins og það væri nokkurs konar náttúrulögmál sem ekkert sé hægt að gera við. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Fátækt er ekki náttúrulögmál, heldur afleiðing pólitískra ákvarðana. Fátækt er því fyrst og fremst afleiðing þess hvernig samfélagið er skipulagt. Stjórnvöld geta ákveðið að útrýma fátækt. Þetta er einfaldlega spurning um hvernig samfélag við viljum.

Fátækt hefur mjög víðtækar afleiðingar, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið. Einstaklingur sem býr við fátækt þarf að velja á milli þess að kaupa í matinn eða að ná í lyfin sín út í apótek, hefur ekki ráð á að fara til læknis, hvað þá til tannlæknis. Ferðir í leikhús eða á veitingastaði eru nær útilokaðar. Einstaklingur sem býr við fátækt einangrast félagslega og er ekki neytandi í samfélaginu. Samfélagið missir þannig af skatttekjum. Auk þess hrakar andlegri og líkamlegri heilsu viðkomandi, þannig að kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna einstaklingsins verður hærri en ella hefði orðið.

Hvarvetna í heiminum eru þeir einstaklingar sem eru fatlaðir í meiri hættu á að búa við fátækt en þeir sem ekki eru fatlaðir. Sú er líka raunin hérna á Íslandi, þar sem við teljum okkur búa í velferðarsamfélagi í þeirri merkingu að í uppbyggingu samfélagsins sé innbyggt öryggisnet sem tryggi velferð allra. Fjármálaráðherra þjóðarinnar hefur nýlega viðurkennt opinberlega þá augljósu staðreynd að ekki sé hægt að lifa af þeirri upphæð sem Tryggingastofnun greiðir örorkulífeyrisþegum sem fá fullar greiðslur frá stofnuninni en sú upphæð er rétt um kr. 200.000- útborgaðar mánaðarlega. Erfitt er að átta sig á því hvers vegna þetta er svona. Hvers vegna hafa stjórnvöld ákveðið að þeir sem ekki geta framfleytt sér með fullri vinnu á vinnumarkaði sökum afleiðinga alvarlegra veikinda, slysa eða meðfæddra skerðinga eigi að hafa tekjur sem ekki duga til framfærslu? Frasinn „þeir sem minna mega sín“ heyrist oft af vörum stjórnmálamanna. Fólk má sín ekki minna vegna einhverra áskapaðra eiginleika, eins og látið er í veðri vaka, heldur vegna þess að samfélagið hefur sett það í þá stöðu, t.d. með því að vera gert að lifa á tekjum sem ekki duga fyrir nauðsynjum.

Í síðustu kjarasamningum var ákveðið að hækka lágmarkslaun í kr. 300.000-. Full þörf er á þeirri hækkun. Hins vegar er það óskiljanlegt hvers vegna örorkulífeyrisþegum er gert að lifa á mun lægri upphæð. Örorkulífeyrisgreiðslur eru í ósjaldan einu tekjur fólks í áratugi. Fólk er hins vegar á lægstu launum tímabundið, fyrst eftir að hafin eru störf á vinnumarkaði og síðan koma til hækkanir vegna líf- og starfsaldurs.

Það getur hver sem er komist í þá stöðu að þurfa að sækja um örorkulífeyri og enginn veit hver verður næstur. Daglega missir fólk starfgetuna vegna alvarlegra sjúkdóma og slysa. Margir lífeyrisþegar hafa einhverja starfsgetu og gætu því unnið hlutastörf. Auka þarf framboð á hlutastörfum á vinnumarkaði og draga þarf úr tekjutengingum í almannatryggingakerfinu, svo fólk hafi fjárhagslegan ávinning af því að vinna. Það mun ávallt vera ákveðinn hluti öryrkja sem er algerlega útilokaður frá vinnumarkaðnum, þar sem starfgeta viðkomandi er mjög takmörkuð eða engin. Þess vegna er brýnt að örorkulífeyrisgreiðslur dugi til framfærslu.

19 views

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page