top of page
  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram

Freyja: Ég er fötluð allan sólarhringinn – ég bý heima hjá mér

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Á hverjum degi reyni ég mikið á mig við það að ýta í burtu stanslausum skilaboðum um lítið verðmæti mitt sem fatlaðrar konu í íslensku samfélagi. Skilaboðin eru frá sveitarfélaginu mínu sem lætur mig koma í árlegar samningaviðræður um frelsi mitt og hvort ég fái að halda því í formi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Skilaboðin eru frá fjármálaráðherra sem segir að flækja þurfi bótakerfið því upp til hópa séum við sem notum það svindlarar í eðli okkar. Skilaboðin eru frá afgreiðslukonunni í Hörpu sem nennti ekki að koma fram fyrir afgreiðsluborðið sem var svo hátt að ég sá ekki yfir það. Skilaboðin koma víða að. Oft gengur mér ágætlega að segja við sjálfa mig að ég sé mikils virði og að þessi skilaboð séu röng en jafn oft ná þau yfirhöndinni, læða sér inn í vitund mína, festa klónum þar og láta mig efast um sjálfa mig og tilganginn með baráttunni fyrir mannréttindum.

Samt bý ég við forréttindi miðað við margt annað fatlað fólk á Íslandi. Ég er hvít og gagnkynhneigð og nýt þannig góðs af hvítu og gagnkynhneigðu samfélagi. Ég er bara hreyfihömluð og þarf því ekki að láta annað fólk tala fyrir mig (þó fólk vilji það gjarnan) né sannfæra fólk um það í hvert sinn sem ég fer út úr húsi að ég sé viti borin manneskja þó ég sé ekki með samfélagslega viðurkennda greindarvísitölu (sumir efast samt). Ég er að ljúka meistaragráðu og er varaþingkona – það gefur mér meira vald en margir hafa. Mér tókst líka að sannfæra sveitarfélagið mitt Garðabæ á sjö árum um að ég væri fötluð allan sólarhringinn og hef því aðstoð á nóttunni. Ég er líka með aðstoð á daginn, kvöldin, um helgar, á annan í páskum og sumardaginn fyrsta sem þýðir að ég get búið heima hjá mér. Alltaf.

Á jaðri jaðarsins?


Á mynd er Freyja við eldhúsborðið heima hjá sér með bróður sínum, mágkonu og vinkonu. Á myndinni sést skreytt jólatré, kerti á stofuborði og hundurinn Bassi að sniglast í kringum mannskapinn. Myndin er tekin á jóladag sl. Það er gott að búa heima hjá sér.

Á mynd er Freyja á náttfötunum við eldhúsborðið heima hjá sér með bróður sínum, mágkonu og vinkonu (sem eru ekki á nóttfötunum). Á myndinni sést skreytt jólatré, kerti á stofuborði og hundurinn Bassi að sniglast í kringum mannskapinn. Myndin er tekin á jóladag sl. Það er gott að búa heima hjá sér.


En það sama gildir ekki um allt fatlað fólk. Héraðsdómur hefur í tvígang sýknað Reykjavíkurborg fyrir að brjóta gróflega mannréttindi fatlaðra íbúa, Benedikts og Salbjargar. Hæstiréttur hefur staðfest réttmæti mannréttindabrotanna í tilviki Benedikts.

Við þrjú, eigum það öll sameiginlegt, að búa við misrétti á grundvelli fötlunar. Við eigum það líka sameiginlegt að líkamsverund okkar er þess eðlis að við þurfum aðstoð allann sólarhringinn til þess að vera örugg. Lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu kveða á um réttindi okkar allra til aðstoðar og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks einnig. Samkvæmt þessum lögum og alþjóðasamþykktum eigum við, öll þrjú, rétt á að ráða því hvar við búum og með hverjum, hver aðstoðar okkur og hvernig. Jafnframt eigum við rétt á að búa við öryggi, frelsi og eðlislæga mannlega reisn. Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins bannar alla mismunun og stjórnsýslulög segja að gæta eigi jafnræðis. En það virðist ekki skipta neinu máli. Staðreyndir málanna láta í minni pokann fyrir ableískum geðþóttaákvörðunum Reykjavíkurborgar og dómskerfisins.

Þegar ég sá dómana skorti mig í öll skiptin orð til þess að lýsa sársaukanum og vanþóknuninni yfir því að dómsvaldið væri ekki einu sinni traustsins virði. Að það gerði einnig manngreinarálit, sendi okkur skilaboð um ómennsku okkar, einskis virði og viðhéldi, ofan á allt annað, stigveldi innan hóps fatlaðs fólks.

Geðþótti Reykjavíkurborgar og dómskerfisins

Skilaboðin til mín halda áfram að vera skýr; virði þitt er lítið en samt aðeins meira en sumra í þínum hópi. Skilaboðin til Benedikts og Salbjargar eru enn skýrari; þið eruð einskis virði. Samt eigum við öll að vera bein í baki, þakklát, auðmjúk, hógvær og brosa framan í kúgarana. Það eru auðvitað við sem erum stimpluð óraunsæ, vanþakklát og frek í augum meirihlutans fyrir að gera kröfu um að fá að vera til.

Sú staðreynd að ég bý í Garðabæ en ekki Reykjavík er lögum samkvæmt ekki næg til þess að mismuna mér né veita mér forréttindastöðu. Sú staðreynd að ég er hreyfihömluð en ekki með þroskahömlun gerir mig, lögum samkvæmt, hvorki meira né minna virði sem borgari í íslensku samfélagi.

Við sem erum skilgreind fötluð erum það allann sólarhringinn – alveg eins og við erum alltaf með sama húðlitinn – hann breytist ekki á miðnætti heldur. Og við viljum öll búa heima hjá okkur allan ársins hring. Það er ekki flókið að skilja að það að vera á vergangi er ekki hlutskipti samboðið neinni manneskju.

Eina ástæðan fyrir því að geta ekki skilið þetta tvennt er viljaleysi sem byggir á fordómum og hatri gagnvart fötluðu fólki (ableisma). Reykjavík og dómskerfið kærir sig ekki um að skilja gefinn hlut. Og kemst upp með það. Ég get ekki sætt mig við það. En þú? Ekki? Gerðu eitthvað, þá! Segðu það. Notaðu forréttindi þín. Skrifaðu grein. Sendu borgarstjóra bréf (Ertu í borgarstjórn? Beittu þér þá að öllu afli). Tweetaðu. Þrýstu á Alþingi að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð og fullgilda Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks (Ertu þingmaður eða ráðherra? Taktu ábyrgð). Deildu þessari grein. Taggaðu ábyrgðaraðila. Eyðileggðu matarboðið þar sem allir eru að farast úr meðvirkni með kerfinu. Kenndu gömlum fordómafullum hundi að sitja (ég hef prófað það, alveg hægt!). Ekki tuða heima í stofu. Ekki vera gunga. Sýndu samstöðu – upphátt! Vegna þess að allir eiga rétt á að búa heima hjá sér allann sólarhringinn, allt árið um kring. Það eru ekki sérréttindi ófatlaðs fólks. Það eru mannréttindi okkar allra.

Ég stend með ykkur, Benedikt og Salbjörg.

Þessi grein er hluti af virðingarvakningu Tabú til stuðnings Benedikts H. Bjarnason og Salbjörgu Atladóttur en þau hafa bæði þurft að lögsækja Reykjavíkurborg fyrir mannréttindabrot og tapað málunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og öðru fyrir hæstarétti. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð mun deila reynslu sinni. Það er okkar von að þær fari eins og eldur í sinu um samfélagið og trufli valdhafa sem mest. Við hvetjum samborgara okkar til þess að deila greinunum á Facebook og tweeta eins og enginn sé morgundagurinn undir myllumerkinu #heimahjámér og merkja héraðsdóm, hæstarétt, Reykjavíkurborg, Dag B. Eggertsson og aðra í borgarstjórn við sem flest tækifæri.

17 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page