Sigríður Jónsdóttir, aktivisti, er ein af fjölmörgum sem hefur fylgst náið með framvindu grimmilegra árása á fólkið í Palestínu nú sem og fyrri ár. Verandi sjálf notandi gervihandar snart það hana djúpt þegar myndir og myndbönd fóru að streyma frá þjóðarmorðinu á Gaza af aflimuðu og illa særðu fólki og kveikti hjá henni löngun til þess að láta til sín taka.
,,Þegar myndir af aflimuðu fólki fóru að berast og reglubundnar árásir á spítala og heilbrigðisstarfsfólk urðu hversdagslegar skildi ég hversu hræðilegar aðstæðurnar væru gagnvart fötluðu og særðu fólki sem væri að upplifa missi og tráma. Fólkið fær takmarkaðan, ef þá nokkurn stuðning til að takast á við nýjan veruleika, gæði skurðaðgerða eru takmarkaðar og eftirfylgni skurðlækna sjálfsagt lítil eða engin, hvað þá að fólkinu bjóðist önnur aðstoð svo sem í formi stoðtækja, gervihandleggja og -fóta.” segir Sigríður.
Hún segir að það hafi kviknað hugmynd hjá sér um að vekja athygli á þessum aðstæðum með sterkum skilaboðum. Í samstarfi við Tabú feminíska fötlunarhreyfingu og Evu Ágústu Aradóttur ljósmyndara varð svo til rafræni gjörningurinn Unarmed sem samanstendur af samnefndu ljóði og ljósmyndum af Sigríði.
,,Mikilvægustu skilaboðin eru þau að það verði að stoppa grimmileg morð og árásir á herlausa þjóð og varnarlausan almenning í Palestínu. Á meðan hátæknivopn eru send af vesturveldunum bera þau einnig ábyrgð á þjóðarmorði og þjáningum saklausra.”
Sigríður segir að viðbrögðin hafi verið misjöfn en hún hafi upplifað sterkan stuðning frá vinum og vinnufélögum en einnig skynjað þögn. ,,Fyrir mig skiptir máli að nota þá rödd sem ég á til að vekja athygli á og mótmæla þjáningu og dauða tugþúsunda. Ég finn til djúprar samkenndar með því fólki sem birtist mér á samfélagsmiðlunum í þeim ólýsanlegu aðstæðum sem það er statt í.”
Að lokum spurðum við Sigríði hvernig hún teldi baráttuna fyrir frjálsi Palestínu skarast við baráttu fyrir fötlunarréttlæti. ,,Eins og í annarri baráttu fyrir réttlæti snýst allt um að afhjúpa það valdaójafnvægi sem jaðarsetur og undirskipar hópa. Fólkið í Palestínu hefur verið gert brottrækt frá eigin landi og jaðarsett frá árinu 1948. Hersetið og kúgað fólk er valdalaust fólk. Fatlað fólk þekkir valdaleysi. Þetta verkefni hefur þýðingu valdeflingar fyrir mig, - og vonandi fyrir öll.”
Viðtal: Freyja Haraldsdóttir
Comments