top of page

Hæfing vinnumarkaðarins og verðmæti fatlaðs fólks

Höfundar: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir

Réttarstaða fatlaðs fólks til jafnra tækifæra á vinnumarkaði er í raun mjög skýr á Íslandi. Í lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 segir í 32. gr. að fatlað fólk skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef starfshæfni þess er meiri eða jöfn annarra umsækjenda. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgillti 23. september sl., segir í 27. gr. um vinnu og starf, að fatlað fólk eigi rétt á því að búa við viðunandi lífskjör, m.a. með því að hafa tækifæri til þess að velja sér starf og starfsframa eins og aðrir. Dæmi og rannsóknir sýna hins vegar að vinnumarkaðurinn þverbrýtur þessi lagaákvæði sem hefur þær afleiðingar að fatlað fólk er sjaldan ráðið til starfa á almennum vinnumarkaði og hefur litla möguleika á starfsframa, stöðu- og launahækkunum og viðunandi lífskjörum. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að fatlaðar konur eru í sérstakri áhættu um að vera útilokaðar frá vinnumarkaði og búa við fátækt. Sú staða undirstrikar að bregðast þarf við og leggjum við til eftirfarandi aðgerðir til úrbóta.

 1. Við leggjum til þá tímamótahugmynd að farið verði að íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum, m.a. með því að setja lög um bann við mismunun á grundvelli fötlunar.

 2. Við leggjum til að stjórnvöld tryggi atvinnutækifæri fatlaðs fólks með kerfisbreytingum, s.s. lögfestingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, tryggi táknmálstúlkun, aðgengilegt samgöngukerfi og niðurgreiðslu á viðeigandi hjálpartækjum á vinnustað. Það er ekki nóg að meta starfsgetu eina og sér – mikilvægt er að horfa á aðstæður fatlaðs fólks í heildarsamhengi.

 3. Við leggjum til að stéttarfélög taki til sérstakrar skoðunar starfs- og launakjör fatlaðs fólks. Það er ekki ásættanlegt að fatlað fólk búi við lægri tekjur en ófatlað fólk eða hafi minni tækifæri til starfsþróunar og stöðuhækkana. Jafnframt er nauðsynlegt að skoða launalausa vinnu fatlaðs fólks í skjóli úrræða eins og hæfingastöðva, verndaðra vinnustaða og altækra stofnanna út frá skilgreiningum Sameinuðu þjóðanna um mansal og nauðungarvinnu.

 4. Við leggjum til að hætt verði að einblína alfarið á hæfingu fatlaðs fólks svo það geti stundað atvinnu og farið verði að hæfa vinnumarkaðinn svo hann geti notið starfskrafta sem nú eru vannýttir.

 5. Við leggjum til, í því skyni, að sett verði fjármagn í fræðslu til þess að draga úr fötlunarfordómum á vinnumarkaði. Mikilvægt er að sú fræðsla verði í höndum fatlaðs fólks.

 6. Við leggjum til að vinnustaðir sjái tækifærin í því að hafa sveigjanleika á vinnutíma og framkvæmd vinnuframlags. Starf manneskju í 30% vinnu er jafn þýðingarmikið og jafnvel þýðingarmeira fyrir vinnustað en starf manneskju sem er í fullri vinnu. Jafnframt er tæknin þess eðlis í dag að hægt er að vinna sama starf út um víðan völl í gegnum tölvur, t.d. upp í rúmi heima hjá sér.

 7. Við leggjum til að vinnustaðir tryggi gott aðgengi á vinnustöðum sínum og stjórnvöld fjárvesti í því að styðja þau til þess. Aðgengi er vítt hugtak og getur falið í sér lyftur og skábrautir, skipulag á umhverfi svo það henti blindu og sjónskertu fólki, efni og leiðbeiningar á auðlesnu máli, hvíldarrými svo fólk geti farið afsíðis til þess að leggjast niður eða fá næði o.sfrv. Mikilvægt er að fatlað fólk, óháð skerðingu, geti athafnað sig og sinnt starfi sínu án þess að þurfa að eyða óþarfa orku í það eitt að fara um eða vera á vinnustaðnum.

 8. Við leggjum til að vinnustaðir setji sér jafnréttisáætlanir sem taka mið af fleiri þáttum en kynjajafnrétti og tilgreini einnig aðra hópa sem oft upplifa misrétti á vinnumarkaði, t.d. fatlað fólk, hinsegin fólk og fólk af erlendum uppruna.

 9. Við leggjum til að fatlað fólk sé metið af verðleikum sínum og ekki litið á ráðningu þess til starfa sem velgjörð.

 10. Við leggjum til að vinnustaðir dragi úr því að gera kröfu um óviðkomandi gögn í ráðningarferlum sem oft eru notaðar til þess eins að mismuna, t.d. myndir, nöfn fjölskylduhagi, heilsufar og hjúskaparstöðu. Hafa ber í huga að þegar samdar eru atvinnuauglýsingar þurfa þær ekki að hljóma eins og einu hæfu umsækjendurnir séu ofurhetjur. Það er augljóslega ekki nauðsynlegt að allir geti gert allt.

 11. Við leggjum til að vinnuveitendur treysti fötluðu fólki fyrir því að meta hvaða starf það getur unnið og hvaða starfshlutfall það ræður við.

 12. Við leggjum til að vinnuveitendur átti sig á því að fatlað fólk vill ekki vera vísvitandi falið baksviðs í vinnunni né vera notað sem viðfang ímyndunarsköpunar um að fyrirtækið sé svo góðhjartað við fatlað fólk.

 13. Við leggjum til að stjórnvöld, undir handleiðslu fatlaðs fólks og í samstarfi við atvinnulífið, finni ólíkar hvataleiðir til þess að auka möguleika fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði án þess að þær leiðir séu valdletjandi og niðurlægjandi.

Misrétti á grundvelli fötlunar á vinnumarkaði er ekki náttúrulögmál. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur sem tilheyrir jafnvel fleiri valdaminni hópum samfélagsins. Sum okkar eiga erfitt með að vinna og þurfa að verja orkunni í aðra þætti. Þá þarf almannatryggingakerfið að tryggja viðunandi lífskjör. Við getum mörg unnið en fáum ekki til þess tækifæri vegna skorts á aðstoð, stuðningi, aðgengi og vegna alvarlegra fötlunarfordóma í atvinnuleit og á vinnustöðum. Eins og tillögurnar hér að ofan, sem alls ekki eru tæmandi, sýna er margt hægt að gera til þess að ná fram breytingum. Fatlað fólk þarf að leiða þessar breytingar og allir þurfa að axla ábyrgð; stjórnvöld, atvinnulífið og stéttarfélög. Það er ekki eftir neinu að bíða.

46 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comentarios


bottom of page