top of page

Heimilisofbeldi og fötlun: hver hefur skilgreiningarvaldið?

Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá að vera hér í dag og fagna viðfangsefni þessarar ráðstefnu sem er þarft. Ég heiti Freyja Haraldsdóttir, er talskona Tabú, feminískrar fötlunarhreyfingar, doktorsnemi og aðjúnkt við menntavísindasvið HÍ. Bakgrunnur minn er menntun í þroskaþjálfafræði, kynjafræði, hagnýtri jafnréttisfræði og baráttu- og ráðgjafastarf með fötluðu fólki, síðasta rúma áratuginn.

Í dag ætla ég ekki að staldra við tíðni ofbeldis gagnvart fötluðu fólki enda vil ég trúa því að aukin umræða, rannsóknir og aktivismi fatlaðs fólks hafi aukið meðvitund samfélagsins um hve mikill fjöldi fatlaðs fólks, einkum barna og kvenna, verða fyrir ofbeldi og hve seint og illa við leitum okkur hjálpar vegna þess að okkur er ekki trúað og við höfum ekki tækifæri til þess vegna skorts á aðgengi og stuðningi.

Í dag langar mig einkum til þess að ræða þrennt: skilgreiningar á heimilisofbeldi, aðkomu og áhrif fatlaðra brotaþola að stefnumótun, lagasetningu og aktivisma sem snýr að heimilisofbeldi og þeim samfélagslegu úrlausnarefnum sem við stöndum frammi fyrir til þess að draga úr og binda enda á heimilisofbeldi gegn fötluðu fólki. Ég mun byggja á reynslu minni úr starfi og þeim rannsóknum sem ég hef komið að og kynnt mér.

Skilgreiningar á heimilisofbeldi

Þegar ég var í skiptinámi í Manchester Metropolitan University 2015 skoðaði ég skilgreiningar á heimilisofbeldi í Bretlandi og á Íslandi. Það sem var einkennandi að heimilisofbeldi var tengt við einkaheimili og ofbeldi í nánu sambandi var oftast tengt við núverandi að fyrrverandi fjölskyldumeðlimi eða maka. Í tilviki fatlaðs fólks er þetta ekki svo einfalt.

Fatlað fólk er stundum tímabundið eða til langs tíma í þjónustuúrræðum eða á stofnunum sem eru vissulega ekki heimili þeirra en eru samt staðir sem hafa ígildi heimilis, t.d. endurhæfingarstofnanir, skammtímadvalir, hjúkrunarheimili og stuðningsfjölskyldur. Þó svo að vissulega megi skilgreina ofbeldið sem stofnannabundið í einhverjum tilvikum má ekki horfa fram hjá því að viðkomandi staður er tímabundið „heimili“, þ.e. griðarstaður, svefnstaður, staður sem fólk þarf að upplifa öryggi. Fötluð börn dvelja t.d. stundum allt að tvær vikur í mánuði á skammtímadvöl.

Náin sambönd í tilviki fatlaðs fólks getur t.d. einnig átt við stuðningsaðila inn á einkaheimilum (og sambýlum), t.d. heimahjúkrun, aðstoðarfólk, heimaþjónustuna og annað fagfólk, t.d. atferlisfræðinga, þroskaþjálfa og sjúkraþjálfa sem koma heim. Sambönd fatlaðs fólks við þessa aðila er oft mjög náið, er trúnaðarsamband, og hlaðið valdatengslum þar sem fatlað fólk er oftast undir. Samskiptin fara fram á einkaheimilum þó þau geti verið fagleg og eru því í einkarými, á persónulega sviðinu, oft ósýnileg. Fatlað fólk getur einnig orðið fyrir ofbeldi af öðru fötluðu fólki á sambýlum og horft upp á annað fatlað fólk verða fyrir ofbeldi.

Í fyrrnefndu verkefni færði ég rök fyrir því þessi dæmi sýndu fram á hvernig skilgreiningar á ofbeldi geta verið pólitískar, sem hefur útilokandi áhrif á fatlað fólk, dregur úr líkunum á að það tengi við umræðu um ofbeldi, kemur í veg fyrir að það segi frá og fái sömu meðferð, t.d. fyrir dómsstólum.

Aðkoma, áhrif og samráð

Það er algjört lykilatriði að fatlað fólk (ekki eingöngu ófatlaðir fulltrúar samtaka fatlaðs fólks) hafi áhrif á lagaumbætur á þessu sviði, taki þátt í stefnumótun gegn ofbeldi, starfi á ólíkum stigum stjórnsýslunnar og inn í úrræðum/samtökum sem styðja þolendur ofbeldis og hafi fullan aðgang að öllu baráttustarfi gegn ofbeldi. Rannsóknir, t.d. í Bretlandi, sýna að þetta er ekki staðan, og sama má segja um Íslandi. Samráð við fatlað fólk á öllum sviðum er slakt og þurfum við stöðugt að minna á okkur og bókstaflega troða okkur við borðin, okkur er sjaldnast boðið. Fatlað fólk býr við misrétti á vinnumarkaði og höfum við fjöldan allan af dæmum um að fatlað fólk, einkum konur, er ekki ráðið í störf sem það er hæft til þess að sinna, jafnvel hæfast. Á það einnig við um samtök og úrræði sem vinna með brotaþolum, þau hafa ekki lagt sig fram um að ráða fatlaða sérfræðinga til starfa. Þá eru margir viðburðir á vegum feminískra samtaka haldnir á óaðgengilegum stöðum og oft spretta upp mjög erfiðar umræður og varnarviðbrögð meðal ófatlaðs fólks, t.d. á samfélagsmiðlum, þegar fatlaðar konur tjá sig um kynbundið ofbeldi. Innan hreyfinga fatlaðs fólks er oft lítið rými gefið til þess að ræða samtvinnun kyngervis og fötlunar ásamt því að stundum eru þau samtök, sem gjarnan eru leidd af ófötluðu fólki eða fötluðum körlum, ekki örugg rými til þess að tala um ofbeldi. Þau fáu samtök sem eru leidd af fötluðu fólki fyrir fatlað fólk eru illa studd og því eiga þau erfiðara uppdráttar. Það er engin tilviljun þess vegna að fatlaðar konur stigu ekki fram opinberlega í #metoo byltingunni. Það er erfitt að treysta samfélagi sem hvorki trúir okkur né treystir. Þetta verður að breytast. Á meðan fatlaðir brotaþolar hafa ekki aðgang að byltingunum og umbótavinnunni er skilgreiningarvaldið á ofbeldi í höndum ófatlaðs fólks.

Heimilisofbeldi er ein afleiðing fötlunarmisréttis

En það er auðvitað ekki nóg að breyta skilgreiningum á heimilisofbeldi, þó sú vinna skipti miklu máli. Við getum ekki rætt um heimilisofbeldi og fötlun í einangrun. Líkt og kom fram í MA rannsókn minni um sálrænar afleiðingar af margþættri mismunun fyrir fatlaðar konur á Íslandi þarf að fara fram umræða um ableisma, margþætta mismunun og langvarandi kerfislæga útilokun fatlaðs fólks. Því ofbeldi, af hvaða tagi sem er, þrífst í aðgreiningu. Til þess að vinna gegn heimilisofbeldi þurfum við að verða við skuldbindingum Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks um að binda enda á stofnannavistun fatlaðs fólks, í hvaða formi sem er. Á meðan fatlað fólk er tilneytt til þess að vera háð aðstandendum sínum, ræður ekki hvar og með hverjum það býr, eða hver aðstoðar það og hvernig, eru forsendur til þess að vinna gegn ofbeldi nær engar. Á meðan fatlað fólk fær ekki óheftan aðgang að táknmálstúlkun eða óhefðbundnum tjáskiptaleiðum er tjáningarfrelsi ekki fyrir hendi eða möguleikinn til að rjúfa þögnina. Þegar aðgengi að úrræðum fyrir brotaþola er ekki fyrir hendi, í víðu samhengi, heldur fatlað fólk áfram að lifa í þögn, láta ofbeldi viðgangast hættulega lengi og jafnvel lifa ekki af. Á meðan fötluðu fólki er mismunað á vinnumarkaði og er háð bótakerfi sem heldur fólki í fátækt er mjög flókið að koma á valdajafnvægi og friði, á einkaheimilum fólks og á pólitíska sviðinu. Heimilisofbeldi er ein afleiðing misréttis – fötlunarmisréttis.

Feminískt mannréttindamál

Aðgerðirnar þurfa því bæði að vera stórtækar en vel skilgreindar – og minni og afmarkaðar. Aðkoma fatlaðs fólks að öllu starfi sem snýr að því að fyrirbyggja og sporna gegn heimilisofbeldi þarf að vera tryggð hjá samtökum og nefndum, svo eitthvað sé nefnt. Ráða þarf fatlaða sérfræðinga til starfa innan dómskerfisins, hjá lögreglunni, félagsþjónustunni, barnavernd, heilbrigðiskerfinu og innan úrræða sem styðja þolendur. Við skráningu, t.d. hjá lögreglu, er mikilvægt það sé hægt að haka við heimilis- og stofnannaofbeldi samtímis til þess að við áttum okkur betur á umfangi og eðli þess ofbeldis sem á sér stað og getum betur brugðist við afleiðingum, t.d. fyrir dómsstólum og við þróun stuðningsúrræða. Samtök fatlaðs fólks verða líka að setja upp kynjagleraugu í vinnu sinni gegn ofbeldi og á öllum öðrum sviðum. Þannig dreifum við skilgreiningarvaldinu og getum skapað samfélag sem skilur betur hvað ofbeldi er margslungið og náð betri árangri í að vinna gegn því. Þá þurfa allir sem vettlingi geta valdið að leggjast á árarnar með okkur til að vinna gegn aðskilnaði og jaðarsetningu fatlaðs fólks. Hingað til höfum við ekki fengið mikinn hljómgrunn og fötlunarmisrétti verið álitið einhverskonar velferðarmál til að leysa. En það er það ekki. Fötlunarmisrétti er kerfislægt og menningarbundið ofbeldi, sem stuðlar að beinu ofbeldi, m.a. heimilisofbeldi. Að vinna gegn því er mannréttindamál – og feminískt mál – sem er á ábyrgð allra.

 

Á ráðstefnunni var sett af stað vitundarvakningin Þú átt von og hér má sjá myndband um reynslu fatlaðrar konu.


Heimildir

  1. Attard, M. and Price-Kelly, S. (ed.). (2010). Accommodating Violence. The experience of domestic violence and people with disability living in licenced boarding houses. Sidney: People with Disability Australia.

  2. Collins, P. H. (2002). Black Feminist Thought: Knowledge, Consciousness, and the Politics of Empowerment. (2nd ed). London: Routledge.

  3. Hague, G., Mullender, A. and Thiara, R. K. (2011). Losing out on both counts: disabled women and domestic violence. Disability and Society, 26(6), 757-771.

  4. Haraldsdóttir, F. (2017). ‘I am discriminated against because I exist’: Psycho-emotional effects of multiple oppressions for disabled women in Iceland (master thesis). The University of Iceland, Reykjavík.

  5. WHO. (2011). World report on disability. Geneva: World Health Organization.

73 views

Recent Posts

See All
bottom of page