top of page

Hugleiðingar um tjáningarfrelsi og mannréttindi: má gera grín að fötluðu fólki?

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir

Í umræðunni um tjáningarfrelsi í kjölfar hinna hryllilegu morða í París hefur eitt og annað skotið upp kollinum sem vakið hefur athygli mína og margt hefur rekið á mínar fjörur sem vakið hefur áleitnar spurningar í huga mér. Þversagnirnar eru svo margar og fólki er heitt í hamsi. Okkar færustu pennar birta greinar. Fésbókin logar. Þessar umræður eru dásamlegar. Það er svo margt sem kristallast í þeim stóru orðum sem látin eru falla. Margir hrópa heróp, sumir eru sárir. Allt virðist hafa breyst. Okkur hefur verið kastað upp í loftið og við erum áttavillt í umróti tilfinninga að reyna að finna kompás sem getur lýst okkur leiðina hér eftir. Öll erum við þó sammála um að tjáningarfrelsið þurfi að verja. Jafnvel valdhafar ríkja þar sem tjáningarfrelsi hefur verið fótum troðið marsera um í París til varnar tjáningarfrelsinu. Þversagnirnar eru margar. Fólk er ekki sammála um hvort skopmyndateiknararnir á Charlie Hebdo hafi verið farnir að hæðast að venjulegum innflytjendum, með niðrandi staðalímyndum eða hvort ádeila þeirra hafi staðfastlega verið unnin undir merkjum frelsis, jafnréttis og bræðralags og þannig fullkomlega réttlætanleg.

Í einum þeim þráða sem ég fylgdist með á Fésbókinni kastaði einn vina minna, Jón Ólafsson, sem ég met mikils, því fram að honum fyndist það frekar bjánalegt viðhorf að halda því fram að háð og spé sem nærist á staðalmyndum, ríkjandi fordómum og slíku væri rasískt vegna þess hvernig það beitir, og grefur um leið undan, orðræðum og orðræðumynstrum eða væri smánandi fyrir einstaklinga eða hópa. Í hans huga skæri samhengið og tilgangurinn úr um það hvort slíkt grín væri rasískt. Þessu til stuðnings vísaði hann til orða Jóns Gnarr sem var spurður í hinum frábæra sjónvarpsþætti Með okkar augum um það hvort honum fyndist í lagi að gera grín að fötluðu fólki. Eftir nokkurt hik hafði Jón svarað því að honum fyndist í lagi að gera grín að fötluðu fólki, alveg eins og maður gæti gert grín að þeim sem manni þætti vænt um. Minn ágæti Fésbókarvinur ályktaði að það væri því í lagi að gera grín að fötluðum, múslimum, femínistum, pípulagningamönnum, hjólreiðamönnum, gyðingum og svo framvegis og svo framvegis. Háð og háðsádeila væri í eðli sínu andóf sem hyggi á alla réttsýni um hvernig menn mættu tjá sig.

Getur grín og háð alltaf flokkast undir andóf?

Þessi staðhæfing þyrlaði upp spurningum í huga mér. Hvernig gæti grín að fötluðu fólki flokkast undir andóf? Andóf gegn hverju? Felur háð alltaf í sér réttmætt andóf? Er grín Jóns Gnarrs alltaf réttlætanlegt þar sem hann er yfirlýstur mannvinur og þykir vænt um fatlað fólk? Gerir Jón Gnarr bara grín að þeim sem honum þykir vænt um? Er það grín alltaf góðlátlegt? Í alvöru – metum við virði tjáningarfrelsis okkar í þeirri staðreynd að Jón Gnarr getur gert takmarkalaust grín að fötluðu fólki?

Nú er mér er ekkert sérlega skemmt þegar ég sé grín gert að fötluðu fólki sem bætir engu við skilning okkar á aðstæðum þess en viðheldur staðalímyndum og fordómum. Því miður upplifi ég margt af því gríni sem varðar fatlað fólk á þann hátt, þ.e. að fatlað fólk er afhelgað og afmennskað í gríni. Fatlað fólk er valdalaus, jaðarsettur minnihutahópur og mannréttindi eru brotin á þeim minnihlutahópi alla daga. Fólk sem tilheyrir ekki þeim minnihlutahópi, og er því í þeim skilningi forréttindahópur, skilur auðvitað ekki þetta viðhorf og finnst þetta grín allt í lagi, enda bítur það ekki á þeirra skinni. Það skilur ekki að þess konar grín viðheldur ekki aðeins staðalímyndum og fordómum heldur einnig aðgreiningu eða „öðrun“ með flokkuninni við og hinir – þ.e. ef grínið er endurtekið sí og æ án lærdóms og vakningar um það misrétti sem það er sprottið af og elur á. Slík öðrun getur falið í sér smættun og smán, sem réttlætir svo aftur áframhaldandi misrétti og brot mannréttinda.

Að styðja tjáningarfrelsið

Þessi afstaða mín þýðir þó ekki að ég styðji ekki tjáningarfrelsi. Þvert á móti. Jóni Gnarr er frjálst að gera grín að fötluðu fólki – en öllu frelsi fylgir ábyrgð. Það er rétt hjá Jóni vini mínum að samhengi gríns skiptir máli þ.e. ekki bara hvað er sagt um hvern, heldur líka hver segir það og fyrir hvern og í umhverfi hvers. Afstaða mín krefst þess að við beitum gagnrýnni hugsun um leið og við hlæjum. Það þarf að spyrja um tilgang þess sem sett er fram. Á afar góðu málþingi sem haldið var af menningarfræði Háskóla Íslands þann 16. janúar s.l. sagði Hugleikur Dagsson að stundum væri rétt að segja ranga hluti ef það er gert á réttan hátt. Ég er því algerlega sammála. En þó fólki sé frjálst að tjá sig hvernig sem er um hvað sem er getur því verið mislagðar hendur. Og ekki er allt grín gott. Og ekki er allt grín ádeila, hvað þá andóf.

Í þessu sambandi varð mér hugsað til þess að fyrir nokkrum árum var endurútgefin gömul bók sem fór fyrir brjóstið á mörgum. Þetta var bókin Tíu litlir negrastrákar, bók með myndum listamannsins Muggs, sem virtist á yfirborðinu svo saklaus. Kannski var það þannig að einhverjir áttu nostalgískan draum um að kúra undir sæng með börnum sínum og hlæja kósý saman að óförum þessara klunnalegu kumpána með stóru þykku varirnar sínar, eða þá að gleðjast í göngunni kringum jólatréð og syngja létt og glaðlega um brottfall þeirra eins af öðrum, og hlæja saman. Hin harkalegu viðbrögð létu ekki á sér standa. Bókin var fordæmd fyrir þær rasísku staðalímyndir og fordóma sem hún ól á. Í fréttum frá þessum tíma segir frá því að foreldrar blandaðra og þeldökkra barna lýstu áhyggjum af því að bókin myndi auka fordóma og báðu um að hún yrði ekki lesin á leikskólum. Úr varð talsvert fjölmiðlafár og bloggheimar loguðu. Voru þessi viðbrögð túlkuð sem ritskoðun og óréttmæt skerðing tjáningarfrelsis? Sennilega af alltof mörgum, eins og fram kom í rannsókn Kristínar Loftsdóttur, prófessors í mannfræði. Bókin fór á topp metsölulista og fyrsta upplagið, 3.000 bækur, seldist upp á innan við tveimur vikum. „Fyrir [Íslendingum] þýðir hugtakið „negri“ svartur Bandaríkjamaður. Þeir skilja ekki að það er þjáning, dauði og sársauki sem endurspegla það,“ sagði einn viðmælenda Kristínar sem var af erlendum uppruna.

„Það er rétt að brandarar og háð eru góð leið til andófs, til að afbyggja vald, draga fram þversagnir og þrýsta á um breytingar“ sagði ein kvennanna sem lagði til athugasemd á Fésbókarþræði míns góða vinar. Og það er rétt. Við skulum aldrei missa sjónar á mikilvægi þessa. Ekkert mannanna verk, hugmyndafræði, trúarbrögð, menning eða hefðir ætti að vera undanskilið endurmati og gagnrýnni hugsun – n.b. ekki heldur okkar eigin hugmyndafræði, trúarbrögð, menning eða hefðir. En við verðum að gera okkur grein fyrir því hvenær orðræðan er farin að vega að mennskunni og afhelga hana. Og fötlun er ekki hugmyndafræði, ekki frekar en kynþáttur fólks.

Þessi afstaða mín þýðir ekki að útiloka eigi fatlað fólk frá skopi, ekki frekar en við útilokum fólk af mismunandi kynþáttum frá skopi. Eg minnist skemmtilegs innslags í hinum fíflalega sjónvarpsþætti Hraðfréttum þar sem gert var grín að grófum viðbrögðum athugasemdakerfanna í garð Freyju Haraldsdóttur eftir að hún gagnrýndi okkar fyrrverandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur, fyrir misnotkun orðsins „fötlun“. Það var ádeila sem studdi kröfu um breytingu viðhorfa, það afhjúpaði vald og hjó á neikvæða, jafnvel hatursfulla orðræðu. Og frú Vigdís baðst afsökunar.

Í landi hinna blindu er sá eineygði kóngur

Mikið hefur verið rætt um afstöðu Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns gagnvart múslimum á Íslandi. Bjarni Benediktsson tók skýra afstöðu til þess að viðhorf Ásmundar endurspegluðu svo sannarlega ekki það viðhorf Sjálfstæðisflokksins að byggja ætti samfélag okkar á grundvallarmannréttindum og að hugmyndir Ásmundar gengju þvert gegn þeim. Það var notalegt að heyra Bjarna tala svona skýrt um mannréttindi. En pólitískir andstæðingar hans gripu boltann á lofti, þ.á.m. Vilhjálmur Þorsteinsson sem vildi meina að „formaður Sjálfstæðisflokksins [þyrfti] ekki að leggja mikið á sig til að skara fram úr sumu því furðuliði sem í kring um hann [væri] í ríkisstjórninni og í stjórnarmeirihlutanum á þingi“. En Vilhjálmur notaði til þessa myndmál sem vakti gagnrýni. Hann sagði að „í landi hinna blindu væri sá eineygði kóngur“ og hélt síðan áfram með tilvísun til furðuliðsins eins og blindir væru furðulið. Vinkonur mínar, Þær Ágústa Eir og Iva Marín, sem báðar hafa skrifað fyrir TABÚ, fannst þetta ekki fyndið, skiljanlega. Þeim þótti afleitt að vera líkt við furðulið, hvað þá að horfa uppá valdupphafningu þeirra sem sjá – yfir þá sem gera það ekki. En þegar Vilhjálmi var bent á það af Freyju vinkonu okkar að það væri skrýtið að velja þetta orðatiltæki – svona í sömu andrá og verið væri að tala um fordóma, þá brást hann snöggt við og breytti sínum texta með afsökun um meðvitundarleysið og með þökkum fyrir gagnrýnina. Einhverju öðru fólki fannst ekkert tilefni til þessarar „ritskoðunar“.

Þessar hugsanir leiddu mig að hugleiðingu um völd og fólkið sem heldur þeim. Það er stórkostleg írónía falin í þerri staðreynd að nú um áramótin, korteri fyrir þessi hræðilegu voðaverk í París, kepptust valdhafar á Íslandi við að predika yfir lýðnum um skaðsemi gagnrýnnar hugsunar og tjáningar. Helga Vala Helgadóttir á þakkir skyldar fyrir að afhjúpa þennan misbrest og gagnrýna í grein sem hún skrifaði fyrir Kvennablaðið og birt var þann 7. janúar sl. Í landi þar sem valdhafar kvarta yfir réttmætu aðhaldi almennings, hefur þar skort tjáningarfrelsi? Vissulega er tjáningarfrelsi brothætt og við sem njótum þess ættum að minnast þess að það er ekki sjálfgefið og standa þétt saman um að verja það gagnvart öllu valdi. En í aðgerðum okkar til varnar tjáningarfrelsi þurfum við þá einhverja nýja tegund af tjáningarfrelsi? Í öllum þeim skrifum sem þotið hafa upp á yfirborð vefmiðla í kjölfar ódæðanna í París verð ég að viðurkenna að ég skelfist sumt af því sem ég hef lesið vegna þess að í þessu tilfinningaróti ringulreiðarinnar örlar á kröfu um að við ættum að sleppa okkur algerlega í tjáningu – án gagnrýnnar hugsunar. Herópin virðast hvetja til afnáms gagnrýnnar hugsunar á þversagnakenndan máta – á þann hátt að ekki eigi að gagnrýna tjáninguna, sem aftur getur verið gagnrýnifull. Allt á að vera leyfilegt. Allt á að vera umborið. Getum við samþykkt að í nafni tjáningarfrelsis og kröfu um afhelgun alls skuli gagnrýnni hugsun varpað út í hafsauga?

Hver hló?

Guðmundur Andri Thorson er dásamlegur greinarhöfundur, mannvinur hinn mesti og réttsýnn í skrifum sínum. Hann býr yfir því valdi að eiga fastan vikulegan dálk í Fréttablaðinu, einu mest lesna dagblaði landsins. Mánudaginn 12. janúar s.l. birti hann grein sem hlotið hefur mikið lof. Egill Helgason birti hana í fullri lengd á sinni eigin vefsíðu, Silfrinu. En það er undirtónn í greininni sem ég skelfist, mest vegna þess að hún rennur út úr penna míns kæra Guðmundar Andra, sem ég met svo mikils og dái.

Guðmundur Andri leggur upp með það í greininni að fíflið, hláturleyfishafinn, hafi verið tekið af lífi í Frakklandi – fyrir þá sök að vekja hlátur. Fíflið hafi verið sá sem sá til þess að fram kom sú hlið sannleikans sem við veigrum okkur við að segja, vegna meðvirkni eða út af sjálfsritskoðun, tepruskap, alvörugefni, eða bara af tillitssemi í garð náungans. Þar sem við búum í opnu samfélagi megi segja og tjá næstum hvað sem er, því á hinu opinbera svæði hafi nánast allt verið afhelgað og njóti ekki lengur friðhelgi. Það tákni að þótt einhverjum sé eitthvað heilagt verði viðkomandi að una því að öðrum þyki lítið til þess helgidóms koma.

Ég er ósammála Guðmundi Andra um það að fíflið hafi verið tekið að lífi fyrir þá sök að vekja hlátur. Hver hló? Og ég er ósammála því að fíflið segi alltaf „sannleikann“. Sannleika hvers? Og þá er ég ósammála þeirri söguskoðun að í Frakklandi, vöggu frelsis, jafnréttis og bræðralags, hafi ekki ríkt raunverulegt tjáningarfrelsi og því hafi Frakkar sammælst um hláturleyfishafa og afhent honum leyfi til að tjá skoðanir sem almenningur treysti sér ekki til að tjá. Í alvöru? Átti almenningur í Frakklandi virkilega erfitt með að tjá andóf? Voru skopmyndateiknararnir í París ekki á eigin forsendum að tjá sig í krafti tjáningarfrelsis? Andóf ætti að verja það sem skiptir mennsku okkar máli, vörn þess sem er í þeim skilningi heilagt. Nægir ekki sú skýring að fífl var tekið af lífi af morðingja sem þurfti fórnarlamb? En hvað er morðingja heilagt? Eitthvað?

Ég skelfist gagnrýnislausa upphafningu afhelgunar, eins og afhelgun sé tilgangur í sjálfu sér., eins og afhelgun eigi að vera náttúrulögmál í nútímasamfélagi. Afhelgun er skilyrði fyrir og farvegur afmennskunar. Og það að finnast ekkert heilagt – er það ekki hugarástand morðingja?

Ég set stórt spurningarmerki við orðræðuna um afhelgun. Þarf að afhelga mennsku okkar af því að tilgangurinn helgar meðalið? Metum við helgað meðalið meira en mennsku okkar? Já, hugmyndafræði hefur gott af afhelgun og gagnrýni á mannanna verk á fullan rétt á sér, en þarf að afhelga allt annað í leiðinni?

Guðmundur Andri segir svo til stuðnings þessu afhelgunar-gríni:

„Raunar má telja það til mannréttinda að tilheyra mengi sem gert er grín að: það táknar að maður sé fullgildur meðlimur í samfélaginu; fyrir utan það að öll höfum við gott af því að horfa á sjálf okkur í spéspegli.“

Ég á svo erfitt með þessa setningu því að hún felur í sér svo mikla smættun fyrir fólk sem ekki er fullgilt í samfélagi þrátt fyrir að það sé gert grín að því. Hún leggur byrðina á þennan hóp að sættast við hlutskipti sitt, jafnvel þykja það léttvægt og hlæja að því. Þannig er hún beinlínis kúgandi. Ég tek undir að aflétting þöggunar í gegnum grín getur verið ákaflega mikilvæg fyrir útskúfaða hópa, en hún er alls ekki það sama og samþykki samfélags og fullgilding – og getur aldrei falið það í sér – hvað þá að slíkt jafnist á við fullgildingu mannréttinda. M.ö.o. ég skelfist þessa setningu vegna þess að í samhengi hennar felur hún í sér að raunveruleg mannréttindi séu ekki heilög og ekki fyrir alla – og að þeir „hinir“ verði að sætta sig við það.

Nú ætla ég ekki að fara að gera Guðmundi Andra upp skoðanir. Ég veit að hann er mikill félagshyggjumaður og lítur til hins minnsta bróðurs með kærleika. Ég skil að þessi setning átti að standa til höfuðs trúarbrögðum en ekki mennsku. Titill greinarinnar og efni er Glæpir gegn mannkyni og í henni telur Guðmundur Andri upp hina morðóðu hunda mannkynssögunnar, sem ekkert var heilagt, í sama mund og kallað er eftir kröfu um afhelgun alls – til varnar mannkyni. Sjá menn þessa þversögn? Telja menn afhelgun virkilega vera ljósið í því mikla myrkri sem hefur hvolfst yfir heim í sorglegu ástandi?

Enginn sem tilheyrir minnihlutahópi og skilur hvað samfélagslegt misrétti felur í sér hefði getað skrifað þessa setningu. Þannig er hún afhjúpandi um stöðu þess sem skrifar hana. Það hefur fengið mig til að hugsa um það hvernig svo sómakær maður, upplýstur og menntaður, lét hana frá sér fara.

Skipta mannréttindi okkur aðeins máli ef þau snúa að okkur sjálfum?

Gera hámenntaðir hvítir, gagnkynhneygðir, ófatlaðir karlar í kjörþyngd og á þroskuðum aldri, með atvinnu og völd sér ekki grein fyrir forréttindastöðu sinni? Eru þeir bara ekki komnir lengra? Líta þeir ekki í eigin barm? Í þeirri yfirburðastöðu sem þeir standa og út frá hverri þeir virða fyrir sér heiminn – er það virkilega þannig að fátt sé þeim heilagt? Eða skilja þeir ekki það sem er þeim heilagt – bara af því það hefur ekki reynt á það? Það hefur leitt mig til að hugsa um forréttindastöðu hins vestræna heims. Getur verið að mannréttindi skipti okkur aðeins máli ef þau snúa að okkur sjálfum?

Í þessu samhengi er gott að rifja upp að eftir nær átta ár frá undirritun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er enn ekki búið að lögfesta hann á Íslandi. Af þeim 155 löndum sem undirrituðu samninginn er Ísland eitt það alsíðasta til að lögfesta hann. Ísland er bara ekki komið lengra. Fólk í valdastöðum hefur ekki treyst sér til að skipta kökunni þannig að fjármagni verði veitt í málaflokka fatlaðs fólks svo fullgilding samningsins geti orðið að veruleika og réttindi fatlaðs fólks lögfest. Okkur er sagt að þetta mjakist áfram. Getur verið að sama gildi um þau gæði sem vesturlandabúar halda svo fast í? Getur verið að forréttindahópurinn líti á gæði sín sem norm? Eigum við svona erfitt með að láta af hendi þau gæði sem tryggja mannréttindi allra? Eða eiga einhverjir náttúrulegan rétt til gæða – umfram aðra – „aðra“ sem verði að sætta sig við það?

Afmennskun er „Glæpurinn“ gegn mannkyninu

Í stórkostlegri grein sem Ólafur Páll Jónsson skrifaði fyrir Kjarnann og birt var þann 14. janúar s.l. bendir hann einmitt á skort mannréttinda sem rót þeirra ógna sem við stöndum frammi fyrir. Ég er svo sammála honum. Þetta snýst ekki um grínið. Stóra málið snýst um mannréttindi. En það getur verið erfitt fyrir okkur vesturlandabúa að horfast í augu við, það gerir kröfu til okkar sjálfra. Við getum potað fingrum í allar áttir í satíru án þess að gangast við forréttindastöðu okkar. Við gætum beðið til enda alheims eftir því að þeir „hinir“ breytist. Virðing fyrir mannréttindum og fullgilding þeirra fyrir allt fólk er ljósið í því mikla myrkri sem hefur hvolfst yfir heim í sorglegu ástandi. Mannréttindi eru áttavitnn og vegurinn. Við eigum ekki að hræðast að láta mannréttindi vísa okkur veginn á þeirri braut sem er framundan. Við getum þurft að takast á við trúarkenningar, menningu og hefðir, okkar eigin ekki síður en annarra, hugmyndafræði sem er mannanna verk og efast þannig um valdið, en á forsendum baráttu gegn aðgreiningu, kúgun, ofbeldi, brennimerkingu, stimplun og kerfi sem viðheldur efnahagslegu og félagslegu misrétti, fátækt, takmörkunum til náms eða höftum á rétti til atvinnu, svo lengi mætti áfram telja. Tjáningarfrelsið er mikilvægt tæki í baráttunni fyrir réttindum alls fólks, og í sjálfu sér eru það mannréttindi að fá að tjá sig, ég vísa til einkunnarorða TABÚ – orða Malölu um að við skiljum fyrst mikilvægi þess að hafa rödd þegar hún er tekin af okkur, en við þurfum að átta okkur á þvií að tjáningarfrelsið getur verið misnotað sem kúgunartæki sem viðheldur fordómum og ójöfnuði. Og við eigum aldrei að hafa umburðarlyndi fyrir því sem veldur og viðheldur afmennskun. Afmennskun er „Glæpurinn“ gegn mannkyni.

Ef við ætlum raunverulega að bæta heiminn þörfnumst við ÖLL vitundarvakningar um það hvað raunverulega felst í mannréttindum. Það er okkar verkefni, krafa sem við ættum að gera til okkar sjálfra. Afhelgun er enginn kompás. Og tjáningarfrelsi er einskis virði ef við beitum ekki gagnrýnni hugsun.

Þessi grein er tileinkuð Óskari, 6 ára systursyni mínum sem er með taugarýrnunar-sjúkdóminn SMA. Eftir vikulangt nám og lestur um Dr. Martin Luther King og Albert Einstein lét hann þessi orð falla: „Ég vildi að ég gæti búið á framandi plánetu þar sem allir hefðu jöfn réttindi“ – eða uppá enskuna hans – „I wish I could live on an alien planet where everyone has equal rights“.

– Sigríður Jónsdóttir

43 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page