top of page

Hvað er ableismi?

Updated: Apr 14, 2021

Höfundar: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir


Þegar fjallað er um mismunun og fordóma er það oft í samhengi við kynjamisrétti, réttarstöðu hinsegin fólks og fólks af erlendum uppruna. Það hefur vakið athygli okkar að sjaldnast er talað um fötlunarmisrétti og –fordóma í alþjóðlegum mannréttindasamningum, landsslögum eða í skýrslum sem varða mismunun. Fólk gerir sér því oft illa grein fyrir að fatlað fólk er einnig jaðarsett og verður fyrir mjög miklum fordómum hvern einasta dag um allan heim. Við þekkjum flest hugtök eins og rasisma, sexisma og heterosexisma en fæst okkar könnumst við hugtakið ableismi.


Ableismi er hugtak yfir mismunun og fordóma gagnvart fólki með ólíkar skerðingar, t.d. hreyfihömlun, þroskahömlun, einhverfu, blindu, döff og geðröskun. Skerðingarnar geta verið ýmist meðfæddar eða afleiðing slysa eða veikinda og mismunandi sýnilegar og getur því ableismi birst með ólíkum hætti í lífi fólks. Gerðar hafa verið tilraunir til þess að þýða hugtakið en teljum við þau orð ekki lýsa ableisma nógu vel og því notum við ensku útgáfuna enn sem komið er.


Ableismi fatlar fólk

Ableismi einkennist af þeim hugmyndum að fatlað fólk sé gallað og því sé m.a. í lagi að eyða fötluðum fóstrum lengur en ófötluðum fóstrum og að aðgreina fatlað fólk í sérúrræðum, t.d. á vernduðum vinnustöðum þar sem það fær oft lítil sem engin laun fyrir vinnu sína. Til þess að fatlað fólk megi vera til eða taka þátt í samfélaginu er ofur áhersla á að hæfa það, t.d. með sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun eða framkvæma aðgerðir til þess að draga úr því að líkaminn líti öðruvísi út en líkamar fólks sem er ekki fatlað. Með þessu er ekki átt við að öll þjálfun eða læknisfræðileg inngrip sé slæm heldur að sé hún notuð til þess eins að aðlaga fatlað fólk að samfélaginu og ófötluðu fólki sé um ableisma að ræða.


Ableismi felst einnig í því að fatlað fólk er ekki álitið vera eðlilegur hluti af samfélaginu og gengið er út frá því að það geti minna en aðrir. Það er t.d. oft ekki gert ráð fyrir því að fatlað fólk geti verið efnilegir námsmenn, starfsmenn eða stjórnmálamenn, hæfir foreldrar eða aðlaðandi og heppilegar fyrirsætur, leikarar og makar.


Þess vegna er margt í samfélaginu okkar hannað og byggt upp með það í huga að fatlað fólk sé ekki partur af því nema kannski að hluta til. Til dæmis eru skólar, vinnustaðir og þinghús/ráðhús/ráðuneyti oftast hannaðir eingöngu með aðgengi fyrir ófatlað fólk í huga. Í lögum segir einnig að gera megi ófrjósemisaðgerðir á fötluðu fólki án samþykkis þess ásamt því að reglugerð kveður á um að banna megi fötluðu fólki að ættleiða börn. Í auglýsingum sjáum við sjaldnast fatlað fólk og í leiksýningum, kvikmyndum og þáttum eru nánast aldrei fatlaðir leikarar (ekki einu sinni í hlutverki fatlaðra karaktera). Í kynfræðslu er nánast aldrei talað um fatlaða líkama, að fatlað fólk stundi kynlíf eða sé með ólíka kynhneigð eða kynvitund og í fjölmiðlum er fatlað fólk ítrekað spurt í miklum smáatriðum um kynlíf sitt (og jafnvel klósettferðir í sömu andrá).


Allt þetta eru skýr dæmi um mismunun á grundvelli fötlunar og gerir það að verkum að fatlað fólk hefur mjög skert tækifæri til þess að taka þátt í samfélaginu og hafa áhrif á það. Einnig birtir þetta mismunun sem gefur til kynna að fatlað fólk sé ekki eðlilegur partur af mannlegu samfélagi og fjölmenningu, heldur sé það með afbrigðilega greind og/eða líkama, ekki mennskt né „nógu gott“ til þess að vera samþykkt á ólíkum sviðum samfélagsins, bæði persónulegum og pólitískum.


Ableismi er ósýnilegur

Það sem er flókið við ableisma, líkt og sexisma og rasisma, er að hann er mjög ósýnilegur því þær hugmyndir sem taldar eru upp hér að ofan eru álitnar eðlilegar og birtast stöðugt í menningu okkar, lagasetningu og þjónustukerfum. Það gerir það að verkum að fatlað fólk á oft mjög erfitt með að benda á ableisma og ófatlað fólk vill yfirleitt ekki kannast við hann, s.s. neitar að horfast í augu við forréttindastöðu sína.


Það er nánast daglegt brauð og álitið pólitískt rétt að fólk, jafnvel þingmenn og aðrar virtar opinberar persónur, veigri sér ekki við að nota orðalag eins og ,,hann er nú bara eitthvað þroskaheftur!” eða „þau ættu nú bara að búa á sambýli þetta fólk þarna á Alþingi“ í þeim beina tilgangi að niðurlæga aðra og gefa til kynna að fólk sem hagar sér óskynsamlega sé fatlað. Semsagt; fötlun er álitið neikvætt lýsingarorð sem er heppilegt til þess að lýsa ónýtum hlut eða niðurlægja manneskjur. Ef orðræða af þessu tagi er gagnrýnd af fötluðu fólki vekur það oftar en ekki hörð viðbrögð hjá þeim sem tala með þessum hætti, vísar það ítrekað í tjáningarfrelsi sitt og sakar fatlað fólk um að vera viðkvæmt og húmorslaust.


Einnig taka stjórnvöld oft ákvarðanir, t.d. um að lögfesta ekki notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), sem frelsissviptir fatlað fólk með mjög alvarlegum hætti á sama tíma og það myndi aldrei setja í lög að ófötluðu fólki bæri að fara ekki fætur fyrr en um hádegi, mætti eingöngu fara á klósettið einu sinni á dag og yrði að vera komið upp í rúm kl. tíu á kvöldin. Ef fatlað fólk gagnrýnir ráðamenn fyrir að lögfesta ekki þá grunnþjónustu sem NPA er er það iðulega sagt frekt og vera fjárhagslegt byrði. Eru þetta góð dæmi um hve sjálfsagt og hversdagslegt ófötluðu fólki finnst talsmáti og ákvarðanataka af þessu tagi því það telur sig hafa tilkall til slíkrar framkomu og lætur sig lítið varða um rétt fatlaðs fólks til þess að vera frjálst frá hatri eða frelsissviptingum.


Ableismi býr innra með okkur öllum

Bæði fatlað og ófatlað fólk er haldið hugmyndum sem bera af sér ableisma. Ófatlað fólk fyrst og fremst vegna þess að það hefur ekki persónulega reynslu af jaðarsetningu, þarf ekki að takast á við þá fordóma og mismunun sem henni fylgir, venst því að búa við betri réttarstöðu en fatlað fólk og hefur því tilhneigingu til þess að viðhalda ableisma með því að láta hann sig lítið eða ekki varða. Fatlað fólk hefur tilhneigingu, líkt og aðrir jaðarhópar, til þess að verða samdauna ableismanum, innbyrða hann og eiga því í erfiðleikum með að andæfa honum. Þó það stundi meðvitað og ómeðvitað andóf eru fordómafullu hugmyndirnar svo rótgrónar í samfélagsvitundina að það krefst mikillar orku að reyna að breyta þeim. Fæstir hafa slíka orku enda ekki eðlileg krafa að fólk þurfi að vera í fullu ólaunuðu starfi við að láta bera virðingu fyrir sér á degi hverjum.


Misrétti er ekki náttúrulögmál. Það verður til af mannavöldum og allt sem verður til af mannavöldum er breytanlegt. Líkt og rasismi og sexismi er ableismi afleiðing orða og gjörða fólks. Það þýðir að hann má uppræta með því að ófatlað fólk horfist í augu við forréttindastöðu sína og taki mark á því þegar fatlað fólk bendir á hatursorðræðu og aðra mismunun. Ableisma má einnig uppræta með því að fatlað fólk standi saman að því að linna ekki látum fyrr en að það fær aðkomu að ákvörðunartöku á öllum stigum stjórnsýslu og taki þannig það vald sem það á en aðrir hafa tekið föstum tökum. Valdið yfir að skilgreina sig og sinn hóp og valdið yfir líkama sínum og lífi.


2,482 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page