top of page

Jafningjahópar hefjast!

Í október og nóvember 2024 mun Tabú vera með jafningjahópafundaröð. Jafningjaráðgjöf og stuðningur á rætur sínar að rekja til valdeflingarstarfs fólks með geðrænanar áskoranir og hefur einnig verið notuð í ýmsum jaðarsettum hópum til þess að skapa öruggara og hugrakkara rými til samtals, speglunar og fræðslu fyrir fólk í sambærilegri stöðu.


Jafningjaráðgjöf er einn af hornsteinum hugmyndafræði mannréttindabaráttu fatlaðs fólks um sjálfstætt líf og er álitin ein mikilvægasta leiðin til valdeflingar og sjálfræðis fyrir fatlað fólk. Þar er fatlað fólk álitið sérfræðingar í eigin lífi og með dýrmæta þekkingu á þeim hindrunum sem við mætum og hvernig við tæklum þær. Jafningjastuðningur kemur ekki staðin fyrir sálfræðiaðstoð en getur verið góð byrjun og/eða sjálfsvinna samhliða henni, sem og ein og sér.


Hver fundur mun hafa ákveðið viðfangsefni og umræðum verður stýrt af umsjónaraðila sem hefur reynslu af því að leiða jafningjahópa og er fötluð sjálf.


Fundir verða haldnir klukkan 19:30 til 21:15 á eftirfarandi dagsetningum:

  • Fimmtudaginn 17. október

  • Fimmtudaginn 24. október

  • Fimmtudaginn 31. október

  • Fimmtudaginn 7. nóvember

  • Fimmtudaginn 14. nóvember

  • Fimmtudaginn 21. nóvember


Fundirnir eru gjaldfrjálsir og verða opnir öllum fötluðum konum og kvár óháð því hvort þær/þau hafi tekið þátt í starfi Tabú áður. Hvatt er til þess að mæta á alla fundina en einnig er valkvætt að mæta á þá fundi sem henta og áhugi er fyrir.


Með fötlun er átt við konur og kvár sem skilgreina sig og upplifa sig fatlaðar/fatlað og/eða langveikar/langveikt, óháð mati fagaðila. Engin er of lítið eða of mikið fötluð/fatlað til þess að taka þátt í fundunum. Engin langveikindi eru of ósýnileg til þess að manneskja geti tekið þátt.


Fundirnir munu fara fram í safnaðarheimili Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði.


Aðgengi fyrir fólk sem notar hjólastóla og önnur hjálpartæki er nokkuð gott. Mikið er af upphituðum bílastæðum fyrir utan og hægt er að keyra alveg upp að dyrum ef þess gerist þörf. Aðgengi í strætó er einnig gott með Ásnum, sem stoppar við Kirkjutorg í einna mínútna göngufjarlægt samkvæmt straeto.is. Í safnaðarheimilinu er rúmgott og mikið pláss við borð og auðvelt að færa til borð og stóla eftir þörfum. Salernisaðstaða er með ágætum og búin helstu aðgengiskröfum. Einnig verður aðstaða fyrir aðstoðarfólk afsíðis.


Til þess að byrja með er ekki þarft að skrá sig á fundina en það gæti breyst.


Fyrir frekari spurningar er hægt að senda póst á tabu@tabu.is.

5 views

Comments


bottom of page