top of page

Kolbrún Dögg: Ég er fötluð kona, allan sólahringinn – ég bý heima hjá mér

Höfundur: Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir

Foreldrar mínir gáfu mér nafnið Kolbrún Dögg. Ég er miðjubarn. Móðir mín talaði oft um hve fæðing mín hafi verið yndisleg og auðveld. Ég er fædd í september 1972, sama ár og fyrsta miðstöðin um Sjálfstætt líf var stofnuð í Berkeley, Kaliforníu í Bandaríkjunum. Eins og flest fatlað fólk á Íslandi kynntist ég þeirri hugmyndafræði löngu seinna. Ég er alin upp á Broadway. Ekki Broadway í New York, heldur Breiðvangi í Hafnarfirði. Á æskuárum var ég vön að leika mér úti með vinum mínum í allskyns leikjum og stundum vorum við úti fram að miðnætti þegar sólin varla settist. Ég var frjáls og örugg. Ég elskaði að leika mér úti í hrauni sem var allt um kring. Að hafa hraunið að leikvelli hefur ýtt undir ímyndarafl og sköpunargleði mína. Þar skapaði ég mitt eigið hús eða höll er ég ein réði ríkjum. Skipulagði vistarverur þar sem steinar og hraunsyllur voru tilvalinn staður fyrir eldhús. Ég hrærði í drullukökur með sleif í potti frá mömmu sem hún lánaði mér í búið. Á haustin eftir skóla stytti ég mér oft leið yfir hraunið í stað þess að fara hinn hefðbundna manngerða göngustíg. Settist í hraungjótu, stundum ein með sjálfri mér, með kónguló í lófa. Týndi krækiber á heimleið, í grænu blokkina. Ég sá aldrei fatlað barn úti að leika sér eða í skólanum. Það var ekki vegna þess að það voru engin fötluð börn til í þá daga.

Foreldrar mínir unnu við störf er tengdust garðyrkju. Pabbi var skrúðgarðyrkjumeistari og mamma sá um blómasölu í Hellisgerði. Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði að vinna við hlið mömmu að selja sumarblóm, rósir, tré og runna. Margir heimsóttu Hellisgerði á sumrin. Þar lék ég mér löngum stundum; klifraði í klettunum, lá í grasinu upp á hól, njósnaði um fólk, sötraði appelsín með lakkgrísröri sem ég keypti í litlu sjoppunni á Reykjavíkurvegi. Á leiðinni upp brattan Reykjavíkurveginn kom ég við í vefnaðarvöruversluninni til að horfa á uppstoppuðu kanínuna sem gat hreyft sig þegar trekkt var upp í henni lífið. Ég borðaði líka hundasúrur og reyndi að finna fjögra blaðasmára í grennd við húsið hjá gömlu konunni sem ég hélt að væri norn. Mamma fékk stundum að skreppa á klósettið hjá henni þegar henni var mikið mál. Sumir trúðu að álfar og huldufólk ættu heima inn í klettunum. Ef til vill er það satt en ég man ekki eftir að hafa séð álfa né huldufólk þegar ég lék mér í heimkynnum þeirra. Þau eru flestum okkar ósýnileg. Sem minnir mig á líf faltaðs fólks sem var mér lengi vel hulið.


Hraunið í Hellisgerði

Hraunið í Hellisgerði


Er ég hugsa um Hellisgerði í dag sem nú er víst kallað Álfagarður þá velti ég fyrir mér aðstæðum fatlaðs fólks, félagslegri stöðu, þátttöku í samfélaginu og hvernig fötlun hefur verið búin til og viðhaldið. Eftir að hafa átt persónulega reynslu af fötlun frá unglingsaldri og starfað innan hagsmunasamtaka fatlaðs fólks um árabil, kynnst hugmyndafræði um sjálfstætt líf og NPA fyrir nokkrum árum, stundað háskólanám í bæði þroskaþjálfafræði og fötlunarfæði – velti ég fyrir mér hvort að fatlað fólk hafi verið huldufólkið á Íslandi? Lengi vel ósýnilegt og falið á jaðri samfélagsins í aðgreindum úrræðum og stofnunum.

Margir hafa háð mikla baráttu við brjóta sér leið út úr klettinum með NPA. Á brattan er að sækja. Og þótt mér hafi fundist gaman að klifra í klettunum í Hellisgerði sem barn og stundum lent í sjálfheldu og kallað á mömmu til að bjarga mér niður, þá er alveg glatað að hugsa til þess að við sem þurfum á aðstoð að halda til að lifa sjálfstæðu lífi á eigin heimili og eigin forsendum þurfum að standa í þessu ströggli við kerfið. Baráttu sem má líka við klettaklifur upp á líf og dauða. Að geta lifað sjálfstæðu lífi með NPA hefur ekki verið auðveld fæðing.

Mig grunaði ekki nýfæddri í fangi móður minnar að ég ætti eftir að heyja þessa baráttu með ykkur Benedikt og Salbjörg. Þið eruð yndisleg og ég stend með ykkur.

Þessi grein er hluti af virðingarvakningu Tabú til stuðnings Benedikts H. Bjarnason og Salbjörgu Atladóttur en þau hafa bæði þurft að lögsækja Reykjavíkurborg fyrir mannréttindabrot og tapað málunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og öðru fyrir hæstarétti. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð mun deila reynslu sinni. Það er okkar von að þær fari eins og eldur í sinu um samfélagið og trufli valdhafa sem mest. Við hvetjum samborgara okkar til þess að deila greinunum á Facebook og tweeta eins og enginn sé morgundagurinn undir myllumerkinu #heimahjámér og merkja héraðsdóm, hæstarétt, Reykjavíkurborg, Dag B. Eggertsson og aðra í borgarstjórn við sem flest tækifæri.

18 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comentarios


bottom of page