top of page

Komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig

Höfundur: Iva Marín Adrichem

Ég er stelpa á 16. ári sem er í þann mund að klára grunnskólann. Ég hef verið búsett á Íslandi í 7 ár og tel að grunnskólaganga mín og félagslíf hafi ekki gengið  þrautalaust fyrir sig. Ég er blind og hef fengið að finna fyrir mismunun á grundvelli þess sem aðrir kalla fötlun. Með þessum skrifum vona ég að öðrum börnum verði forðað frá slíkri mismunun, enda ætti ekkert barn að þurfa upplifa slíkt niðurbrot.

Meðan ég bjó erlendis var ég í sérskóla fyrir blind og sjónskert börn í 6 til 10 manna bekkjum. Þá var ég ennþá svo ung að ég gerði mér ekki grein fyrir því „sem var að mér“ en mér fannst ég vera sérstök af því ég var sett í sérstakan skóla fyrir „sérstök börn“. Ég tel mig hafa lært mjög mikið af því að vera í sérskóla og það átti þátt í að styrkja sjálfsmynd mína og bjó mig á vissan hátt undir það sem á eftir kom.

Mér var gert rækilega grein fyrir því að ég væri fötluð 

Árið 2007 flutti ég til Íslands og byrjaði í almennum grunnskóla þar sem ég lenti í 25-30 manna bekk. Það var mjög erfitt að venjast því og kennararnir kunnu ekkert á punktaletur eða annan búnað sem ég þurfti að nota við námið. Ég eignaðist samt góða vini og skemmti mér oft mjög vel. En á móti kom að ég fór að finna fyrir öðru hugarfari í minn garð hjá kennurum og starfsfólki skólans en því sem ég var vön. Mér var gert rækilega grein fyrir því að ég væri fötluð og  að það bæri að koma öðruvísi fram við mig en jafnaldra mína. Mig þurfti að passa og það var ákveðið fyrir mig hvað ég gæti og hvað ekki. Ég hefði svo gjarnan viljað komast að því af eigin raun hvers ég er megnug í staðin fyrir að sitja undir niðurbroti kennara minna.  Það var sérstaklega einn kennari sem var  slæmur hvað þetta varðar og það var sami kennarinn og átti að vera mér til halds og trausts innan bekkjarins.  Til dæmis gerði viðkomandi mikið mál úr því að ég væri stundum ein heima eftir skóla, þar til foreldrar mínir komu heim úr vinnu. Slíkt hefði ekki verið tiltökumál ef um sjáandi nemanda hefði verið að ræða, en í mínu tilfelli þótti ég ófær um að sjá um mig sjálf í nokkra klukkutíma og foreldrar mínir voru kallaðir á teppið eins og um vanrækslu væri að ræða. Mér var stanslaust hlíft við hlutum sem  hefði verið hollt fyrir mig að upplifa.  Við það fór ég í svolitla uppreisn og gerði í því að haga mér illa og gera allt sem ég mátti ekki. Þó sú hafi verið raunin myndi ég ekki segja að ég hafi  hagað mér verr en aðrir krakkar. Það var bara meira mál gert úr því vegna þess að ég var fötluð og átti að sýna þeim sem voru svo góðir að hjálpa mér virðingu. Það gerði mig svo reiða að ég tók oft reiðiköst sem ég átti erfitt með að stjórna. Ég á stundum erfitt með að hafa stjórn á skapi mínu enn þann dag í dag. Allt þetta tel ég hafa stafað af fáfræði og vankunnáttu fullorðins fólks og því að Ísland stendur mörgum öðrum velferðarríkjum langt að baki hvað varðar viðhorf til fatlaðs fólks. Að sjálfsögðu ber að hafa í huga að ég var á þessum tíma að finna sjálfið mitt og sjálfsmynd mín var í mikilli þróun.

Þegar ég kom í unglingadeildina lagaðist allt til muna í sambandi við kennslu og námsefni. Nú er haft samráð við mig um hvernig ég vil fá námsefnið mitt uppsett, ég fæ oftast viðeigandi stuðning og yfirleitt reynir starfsfólk skólans að hugsa í lausnum frekar en að flækja málin. Hins vegar lendi ég stundum ennþá í því að ekkert mark er tekið á mér þegar ég reyni að leiðbeina fólki, sérstaklega fullorðnu fólki í hvernig á að aðstoða mig eða koma fram við mig. Stundum er mér boðin of mikil aðstoð að mínu mati og oft er ég talin dónaleg og vanþakklát ef ég afþakka hana. Oft finnst mér fullorðið fólk líka koma fram við mig með niðurlægjandi hætti fyrir framan skólafélaga mína. T.d. var ég í íþróttum nýlega og ég var ásamt annaristelpu á leið í búningsklefann eftir tímann. Kennarinn krafðist þess að fá að fylgja okkur af ótta við að ég dytti í stiganum og meiddi mig. Svo þurfti hann að finna lyklana sína og sagði við stelpuna sem var með mér: „Nennirðu aðeins að taka við henni?“ Ég varð svo undrandi að heyra hann hlutgera mig svona rosalega að ég missti aðeins stjórn á skapi mínu við þennan annars ágæta mann. Það var eins og ég væri einhver annars flokks byrgði sem maðurinn yrði að dröslast með í búningsklefann. Þetta sagði ég við hann og fékk þá eftirfarandi svar: „Þú veist að ég lít ekki á þig sem byrði. Þú verður að hætta að vera svona viðkvæm, reyna að vera kurteis við þá sem vilja þér vel og læra að stjórna skapinu .“  Við þetta æstist ég enn meira.  Auðvitað veit ég að hann vill mér innst inni vel, en mér finnst hann ekki gera það með því að ofvernda og hlutgera mig. Ég vil bara að komið sé fram við mig eins og manneskju. Allt annað flokka ég undir dónaskap. Mér þætti forvitnilegt að sjá hvernig hann myndi bregðast við ef einhver væri beðinn að taka við honum (eins og hann væri heilatómt kökukefli).

Mér finnst ég sjálf ekki vera fötluð

Þó svo að námið og skólinn gangi mun betur en það gerði er komið annað og að mínu mati flóknara mál til skjalanna – félagsmálin. Vinahópurinn minn frá því í barnaskóla hefur að miklu leyti sundrast og mér líður eins og ég passi hvergi inn í. Samnemendur mínir eru frekar áhugalausir gagnvart mér og mér finnst oft erfitt að tala við þá. Það eru allir með athyglina við snjallsímana sína og virðast öll samskipti jafnaldra minna eiga sér stað í gegnum samfélagsmiðla í stað raunverulegra aðstæðna. Ég á nokkra mjög góða vini, en þeir eru því miður flestir ekki með mér í skóla. Í skólanum lendi ég oft í því að finna ekki fólkið sem mig langar til að sitja hjá og oft gerir það heldur engar tilraunir til að tala við mig í frímínútum, þar sem símarnir eiga óskipta athygli þeirra.  Mig er líka hætt að langa að mæta í partý sem skólafélagar mínir skipuleggja því ég upplifi mig oft ósýnilega. Þar er fólk út um allt, svo brjálæðislega hávær tónlist að ég heyri engin samtöl, flestir tala ekki við mig og þeir sem gera það láta sig oft bara hverfa án þess að láta mig vita. Það finnst mér mjög sárt vegna þess að ég er farin að upplifa mig sem mjög lítils virði í augum skólafélaga minna. Strákar sýna mér nákvæmlega engan áhuga og er ég farin að upplifa mig sem kynlausa. Hins vegar fer nú að síga á seinni hluta grunnskólagöngunnar, aðeins nokkrir dagar eftir. Þá fer ég í framhaldsskólann þar sem langflestir bestu vina minna eru í námi og ég trúi því og vona að félagslífið mitt muni batna til mikilla muna eftir það.

Það sem mig langar að koma til skila með þessari grein er að það sem særir mig mest í öllum heiminum er þegar fólk lítur á mig sem „öðruvísi“ og metur mig ekki af verðleikum bara af því ég er „fötluð“ að þess mati. Mér finnst ég sjálf ekki vera fötluð, ég er sterkur persónuleiki, hef margt fram að færa, ég geri alla hluti sem jafnaldrar mínir gera og lifi áhugaverðu lífi með yndislega fjölskyldu og vini mér við hlið sem munu alltaf styðja við bakið á mér sama hvað mun ganga á. Markmið mitt í lífinu er að útrýma fatlandi áhrifum samfélagsins og sjá til þess að allir geti staðið jafnfætis óháð skerðingu.

Takk fyrir mig!

Tabú þakkar Ivu af auðmýkt fyrir að hafa viljað birta þennan einlæga og beitta pistil hjá okkur. Við vitum að til þess þarf hugrekki, ekki síst þegar manneskju er mismunað á grundvelli margra þátta, þ.e. sem barn (unglingur), stúlka og þess að vera skilgreind sem fötluð. Við væntum þess að Ívu og skoðunum hennar verði sýnd verðskuldug virðing í almennri umræðu, á samfélagsmiðlum, í fjölmiðlum, ef grein hennar endar þar, og í athugasemdakerfum. Takk Iva Marín.

93 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page