Lagt fram 17. nóvember 2015
Í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað á Nýja-Bæ, rannsókna sem liggja fyrir um háa tíðni ofbeldis gagnvart fötluðum konum, brotalamir réttarkerfisins, þá miklu aðgreiningu sem fatlaðar konur búa við og reynslu okkar allra af margþættri mismunun og ofbeldi í íslensku samfélagi, gerum við eftirfarandi kröfur til félagsmálaráðherra.
Að félags- og húsnæðismálaráðherra geri sér grein fyrir að við erum mennskar. Við erum ekki kynlausar, úrhrök og afgangsstærð, eilíf börn eða ófærar um að hafa skoðanir, tala máli okkar og lifa sjálfstæðu lífi þó sumar okkar þurfi til þess mikla aðstoð. Þó svo að við deilum sameiginlegri reynslu af fötlunar- og kynjamisrétti erum við ólíkar, t.d. eru sumar okkar með sýnilegar skerðingar og aðrar með ósýnilegar skerðingar. Mikilvægt er að við fáum rými til þess að skilgreina okkur sjálfar. Við höfum þurft að lifa í þögn alltof lengi yfir kynferðisofbeldi, andlegu ofbeldi, líkamlegu ofbeldi, efnislegu ofbeldi, stofnanaofbeldi, þvingunum, vanrækslu, hatursglæpum, kerfislægu ofbeldi og menningarbundnu ofbeldi. Það er m.a. hlutverk félags- og húsnæðismálaráðherra að nota valdastöðu sína til þess að leggja sitt af mörkum við að binda enda á þá ofbeldismenningu sem einkennir líf okkar. Aðgerðarleysi félags- og húsnæðismálaráðherra stuðlar með beinum hætti að ótímabærum dauðsföllum okkar sökum ofbeldis sem þrífst í aðgreiningu.
Að félags- og húsnæðismálaráðherra skilji ábyrgð sína. Velferðarráðuneytið fer með yfirstjórn í málefnum okkar, ber ábyrgð á ytra eftirliti og því að setja reglugerðir um tiltekna þjónustu til þess að tryggja öryggi okkar. Við gerum þá kröfu um að hún beiti öllum tiltækum ráðum tafarlaust til þess að láta loka Nýja-bæ, þar sem þar dvelur fólk sem þarf grunnþjónustu, og því ekki hægt að segja að félags- og húsnæðismálaráðherra beri ekki ábyrgð með tilliti til 3. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.
Að félags- og húsnæðismálaráðherra láti gera úttekt á öllum sumardvölum fyrir fatlað fólk fyrir vormánuði, börn og fullorðna, og að sú vinna verði m.a. unnin af fötluðu fólki.
Að félags- og húsnæðismálaráðherra skilji að alþjóðlegar og íslenskar rannsóknir sýna að ofbeldi þrífst í aðgreinandi úrræðum og þar sem skortur er á aðstoð. Nauðsynlegt er að tryggja að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest sem eitt meginform í þjónustu við fatlað fólk óháð aldri og tegund skerðingar eins og alþjóðlegar hreyfingar fatlaðs fólks gera kröfu um.
Að félags- og húsnæðismálaráðherra tryggi að umbætur á þjónustu við fatlað fólk séu unnar í fullu samráði og samstarfi við fatlað fólk af öllum kynjum og á öllum aldri. Einnig að félags- og húsnæðismálaráðherra hvetji undirstofnanir sínar á sviðinu og sveitarfélög til þess að ráða fatlaða sérfræðinga til starfa svo líklegra sé að umbætur þjóni tilgangi sínum. Jafnframt að ráðuneytið sýni gott fordæmi og ráði sjálft fatlaða sérfræðinga til starfa.
Alma Ýr Ingólfsdóttir Arndís Hrund Guðmarsdóttir Ágústa Eir Guðnýjardóttir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Eva Þórdís Ebenezersdóttir Freyja Haraldsdóttir Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir Guðríður Ólafs Ólafíudóttir Ingeborg Eide Garðarsdóttir Iva Marín Adrichem Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir Margrét Ýr Einarsdóttir María Hreiðarsdóttir Rán Birgisdóttir Sigríður Jónsdóttir Snædís Rán Hjartardóttir Sóley Björk Axelsdóttir Soffía Melsteð Steinunn Ása Þorvaldsdóttir Þorbera Fjölnisdóttir
Fatlaðar konur í Tabú og Kvennahreyfingu Öryrkjabandalags Íslands
Comentários