top of page

„Líkami minn er ekki almenningseign“ – Drusluganga 2014

Ræða Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur í Druslugöngunni 26. júlí 2014


Flestöll lærum við það frá unga aldri að það er sorglegt, slæmt og óaðlaðandi að vera fatlaður. Við lærum að vera góð við greyið fatlaða fólkið og þá sem minna mega sín. Við leiðum sjaldnast hugann að því hvernig tilfinning það er að tilheyra hópi sem sjálfkrafa er álitin vera þeir sem minna mega sín.

Það gefur auga leið að jafnrétti verður aldrei náð ef við lítum svo á að sumir megi sín minna en aðrir.

Ég var mjög ung þegar samfélagið fór að kenna mér að ég ætti að vera jákvæð og þakklát – af því ég er fötluð. Samfélagið kenndi mér að mæta öllum fordómum og kúgun með brosi á vör. „Embla, hann meinti þetta ekki illa, hann veit bara ekki betur – ekki velta þér upp úr þessu“. Mér var kennt að taka ábyrgð á fáfræði annarra, í stað þess að krefjast virðingar.

Á unglingsaldri fékk ég þau skilaboð að ég ætti að vera þakklát ef einhver strákur eða stelpa sýndi mér áhuga. Það væri nú ekki hver sem er sem vildi vera með fatlaðri stelpu. Ég lærði því að gera litlar kröfur og hafa enn minni væntingar. Skömmin var alltaf mín….

Fólk bendir, snertir, glápir á og spyr spurninga um líkama minn, líkt og hann sé eins konar almenningseign og alltaf á ég að vera kurteis!

Rannsóknir sem snúa að ofbeldi gangvart fötluðum konum segja að allt að 3 af hverjum 4 fötluðum konum verði fyrir einhverskonar ofbeldi á ævinni. Það er því miklu, miklu líklegra að verða fyrir ofbeldi heldur en ekki, ef þú ert fötluð kona.

Fatlaðar konur víða um heim, líka hér á Íslandi, eru ítrekað þvingaðar í ófrjósemisaðgerðir gegn þeirra eigin vilja. Stundum eru aðgerðirnar framkvæmdar án vitundar kvennanna. Þetta er gert svo að við, fötluðu konurnar, verðum nú ekki óléttar – þegar okkur verður nauðgað.

Vald fagfólks og lækna yfir líkömum okkar er algjört!

Það ofbeldi sem fatlaðar konur verða fyrir er margslungið. Það er þó ekki náttúrulögmál að fatlaðar konur séu margfalt líklegri til þess að verða fyrir ofbeldi. Það er ekki fötluninni minni að kenna að ég verði frekar fyrir ofbeldi en aðrir. Við sem fatlaðar konur lifum við ákveðna ofbeldismenningu sem réttlætir allt ofbeldið og segir okkur að ofbeldið sé eðlilegur og óumflýjanlegur hluti af lífi fatlaðs fólks.

En það er ekki satt. Það er hægt að gera svo ótrúlega margt til þess að breyta menningu, venjum, hefðum og viðhorfum. Og þannig getum við stöðvað ofbeldi.

Dagurinn í dag er merkilegur dagur. Í dag tóku á annan tug fatlaðra kvenna þátt í druslugöngunni með það að markmiði að skila skömminni heim. Það er merkilegt vegna þess að flestar fatlaðar konur á Íslandi búa við mikla kúgun, ofbeldi, fordóma og frelsisskerðingu sem veldur því að þátttaka í göngunni getur jafnvel verið hættuleg.

Það er mjög stutt síðan að ég áttaða mig á því að ég þarf ekki að vera kurteis við þá sem kúga mig og beita mig ofbeldi. Ég er ótrúlega stolt og þakklát að vera hluti af þessum sterka hópi fatlaðra kvenna. Við erum hættar að taka ábyrgð á öll því ofbeldi og þeim fordómum sem við höfum og munum verða fyrir – við skilum skömminni heim! Ég er druslugöngunni ótrúlega þakklát og ég vildi óska þess að hún hefði verið til á mínum unglingsárum!

Við verðum að halda áfram að ganga þessa göngu.

Við verðum að gera það fyrir alla þá sem búa enn við ofbeldi og komast þess vegna ekki í gönguna.

Við verðum að ganga þessa göngu fyrir alla þá sem lifa ofbeldið ekki af!

14 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page