top of page

María Hreiðarsdóttir fallin frá


María í Druslugöngunni 2014 með skilti sem segir Fordómar þínir gagnvart fötluðu fólki eru hluti af ofbeldismenningu.
María á Druslugöngunni 2014 með skilti sem segir Fordómar þínir gagnvart fötluðu fólki eru hluti af ofbeldismenningu.

Okkar elskulega Tabúsystir, samverkakona, fyrirmynd, brautryðjandi og lærimóðir, María Hreiðarsdóttir, kvaddi þennan heim 7. maí síðastliðinn.

María var reynslumikil baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks og starfaði með Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, Landssamtökunum Þroskahjálp, Sendiherrum Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og okkur í feminísku fötlunarhreyfingunni Tabú, svo eitthvað sé nefnt. Hún skrifaði jafnframt, ásamt Guðrúnu V. Stefánsdóttir, sjálfsævisögu sína og hefur gefið út handbók fyrir fagfólk um stuðning við seinfæra foreldra.

Í gegnum starf okkar í Tabú fengum við að kynnast því hve heitt María brann fyrir réttindum fatlaðra foreldra, aðgengi fólks með þroskahömlun að NPA, bættri ferðaþjónustu fatlaðs fólks, jöfnum tækifærum á vinnumarkaði og svo lengi mætti telja. Það hefur djúpt skarð verið hoggið í Tabúhópinn með fráfalli Maríu og söknum við og syrgjum hennar fallegu vináttu, sterku nærveru og mikilvæga framlags til réttindabaráttu fatlaðs fólks. Hennar verður þó minnst og líf hennar heiðrað með því að halda baráttunni áfram með nestið sem hún gaf okkur í formi þekkingar og reynslu í farateskinu. Fyrir það verðum við eilíflega þakklát.

Í lífinu sjálfu var móðurhlutverkið Maríu það allra mikilvægasta og var drengurinn hennar, Ottó Bjarki, hennar mesta stolt og yndi. Hún sagði okkur reglulega frá honum og talaði ávallt um hann af djúpri ást og virðingu. Við vottum Ottó okkar dýpstu samúðarkveðjur ásamt öðrum aðstandendum.

Útför Maríu fer fram í Kópavogskirkju 8. júní kl. 13.

105 views

Comments


bottom of page