Birtist í Morgunblaðinu 8. júní 2022
Elsku María okkar,
Það er óraunverulegt að þú sért farin frá okkur, alltof snemma. Að geta ekki búist við þér aftur á Tabúhittinga, treyst á dómgreind þína, þekkingu og reynslu og upplifað kærleika þinn, leiðsögn og vináttu er þyngra en tárum taki.
Framlag þitt í Tabú breytti öllu - og okkur öllum. Þú varst sjaldnast orðamörg en það sem þú sagðir og lagðir til var undantekningarlaust úthugsað, djúpt og viturt. Þú gast verið ákveðin og áköf en þó alltaf róleg og yfirveguð - líka þegar þú upplifðir réttláta reiði vegna misréttis og óréttlætis. Þannig varstu okkur öllum fyrirmynd og ákveðin móðurímynd í baráttunni. Aktivistamamma.
Þú þreyttist aldrei á að halda á lofti hagsmunamálum fólks með þroskahömlun. Þú varst ófeimin við að leiðrétta okkur og láta okkur gangast við ábyrgð okkar á að gleyma aldrei þessum hópi. Þér var sérstaklega hjartafólgið að fólk með þroskahömlun hefði sambærilegt aðgengi að NPA, jöfn tækifæri á vinnumarkaði og traust til foreldrahlutverksins. Árið 2017 kom lífssagan þín út „Ég lifði í þögninni“ sem segir svo margt um þá óbærilegu þögn sem þú, og svo margt fatlað fólk, tókst á við. Bókin mun standa sem vitnisburður um kjark þinn, hugrekkið til að eiga rödd, taka pláss í samfélagi, hvika hvergi og krefjast virðingar og breytinga.
Þú varst langþreytt á ferðaþjónustu fatlaðs fólks og hélst úti dagbók á Facebook um reynslu þína af henni. Þú keyptir þér bíl, engan annan en fyrrverandi bíl Vigdísar Finnbogadóttur forseta, sem sæmdi þér afar vel. Freyja, Tabúsystir, fékk þann heiður að vera þér innan handar í bílakaupum en hún skilur enn ekki hvers vegna þú treystir henni til verksins því þú varst mun færari en hún til þess að kaupa bíl, vissir hvað þú vildir og varst með skynsamlegt fjármálaplan, sem hún hefur ekki roð í. Á stefnuskránni þinni var að taka bílpróf og varstu síðustu mánuði mikið að æfa þig með liðsinni Siggu, Tabúsystur. Þú varst orðin dúndur örugg og brunaðir um göturnar af sömu yfirvegun, áræðni og festu og þú gerðir flest annað. Við vildum óska þess að þú hefðir náð að ljúka þessum áfanga - við vitum að það hefði tekist. Þannig hefðir þú geta kvatt ferðaþjónustuna, ekið um á forsetabílnum og notið þess ferðafrelsis sem þú áttir skilið.
Við vitum ekki hvernig við höldum baráttunni áfram án þín. En við finnum leiðir og eitt er víst að þú verður alltaf með okkur í huga og hjarta. Allt sem þú hefur sýnt okkur og kennt búum við yfir og minningarnar um þig munu ylja okkur þegar á móti blæs og þegar vel gengur.
Elsku Ottó Bjarki. Við vottum þér okkar dýpstu samúð. Þú varst það allra mikilvægasta sem mamma þín átti og hún var alltaf svo stolt af þér. Hún hafði endalausa trú á þér og vissi að þér myndi vegna vel. Við erum vissar um að hún muni fylgja þér hvert fótmál áfram.
Takk fyrir að gera heiminn að betri stað fyrir okkur öll, elsku María.
Fyrir hönd feminísku fötlunarhreyfingarinnar Tabú, Freyja Haraldsdóttir og Embla Guðrúnar Ágústsdóttir
Commenti