top of page

Opið bréf Tabú til Akureyrarbæjar: menntun er mannréttindi

Um aldamótin var unnin rannsókn sem sýndi fram á það að einungis 1% fatlaðra stúlkna og 3% fatlaðra drengja í heiminum hefði fengið tækifæri til þess að læra að lesa. Þar sem menntun er talin ein grundvallarmannréttindi barna vekja þessar niðurstöður óhug og áhyggjur af tækifærum fatlaðs fólks til menntunar, atvinnu, félagslegs öryggis og þátttöku í samfélaginu.

Það er því sorglegt að sjá viðhorf Akureyrarbæjar til kröfu 11 ára fatlaðs drengs, Kristjáns Loga Vestmann Kárasonar, um sjúkrakennslu vegna tíðra veikinda hans sem kemur í veg fyrir að hann getur sótt skólann. Kröfunni er hafnað á grundvelli þess að önnur sveitarfélög (óskilgreind) hafi hafnað sambærilegum beiðnum og að lögin séu ekki skýr.

Tabú, feminísk fötlunarhreyfing, mótmælir þessari afstöðu. Íslensk löggjöf og alþjóðlegir mannréttindasamningar sem Ísland er aðili að og/eða hafa lögfest kveður skýrt á um þennan rétt Kristjáns Loga og annarra barna í hans stöðu. Þar sem sveitarstjórnarfólki og embættismönnum þykir flókið að átta sig á réttarstöðunni viljum við leggja okkar að mörkum til þess að skýra hana:

  1. Í Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er kveðið á um í 65. gr. að allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Í 76. gr. er jafnframt kveðið á um að öllum sem þess þurfa skuli vera tryggður réttur til aðstoðar, almennrar menntunar og að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

  2. Í lögum um grunnskóla er kveðið á um skólaskyldu í 3. gr. fyrir börn á grunnskólaaldri. Í 17. gr. sömu laga um nemendur með sérþarfir segir að „nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Sjúkrakennsla er á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags.“

  3. Í lögum um málefni fatlaðs fólks segir í 7. gr. að ávallt skuli „leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu.“

  4. Í Barnasáttmálanum (sem Ísland hefur lögfest) segir í 23. gr. að aðildarríki viðurkenna að „andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.“ Þar kemur einnig fram að aðstoð sem veitt er til fatlaðra barna miði að því að tryggja að það njóti „menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum.“ Í 28. gr. segir að börn eigi rétt til menntunar og njóti sömu tækifæra á því sviði. Þar kemur einnig fram að aðildarríki skuli gera ráðstafanir til þess að „stuðla að reglulegri skólasókn og draga úr því að nemendur hverfi frá námi.“

  5. Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (sem Ísland hefur fullgilt og lögfest að fylgja skuli samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks) segir í 7. gr. að vernda skuli öll mannréttindi fatlaðra barna til jafns við aðra. Í 24. grein er sérstaklega vikið að réttindum fatlaðs fólks til menntunnar. Þá er tekið fram að ekki megi mismuna fötluðum börnum þegar kemur að skyldubundnu grunnskólanámi og að aðildarríkjum beri að tryggja viðeigandi aðlögun í skólastarfi.

Að ofangreindu má sjá að það er skýrt að Kristján Logi hefur lagalegan rétt til sjúkrakennslu þegar hann getur ekki mætt í skóla. Engu breytir fyrir Akureyrarbæ hvort önnur sveitarfélög hafi brotið mannréttindi fatlaðra barna með því að hafna þeim um sjúkrakennslu og gefur það sveitarfélaginu ekki leyfi til þess að feta í þeirra fótspor. Öll sveitarfélög eru skyldug til þess að tryggja þennan rétt og hvetjum við Akureyrarbæ til þess að ganga á undan með góðu fordæmi og bæta úr þessari mismunun tafarlaust.

Virðingarfyllst,

Bára Halldórsdóttir

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Erla B. Hilmarsdóttir

Freyja Haraldsdóttir

Guðbjörg Garðarsdóttir

Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir

Inga Björk Bjarnadóttir

Iva Marín Adrichem

María Hreiðarsdóttir

Pála Kristín Bergsveinsdóttir

Sigríður Jónsdóttir

Sóley Björk Axelsdóttir

Þorbera Fjölnisdóttir

6 views

Comentarios


bottom of page