top of page

Ragnar Gunnar: Ég er fatlaður allan sólarhringinn – ég bý heima hjá mér

Höfundur: Ragnar Gunnar Þórhallsson

Sýn mín, sem hreyfihamlaður borgari, á mannréttindi grundvallast m.a. á því að viðurkenna ekki vald hinna ofurríku á jarðkringlunni, hinna fáu eða hins ófatlaða meirihluta þegar því valdi er beitt til að mismuna fólki, ráðskast með og þvinga. Út á þetta ganga í raun allir mannréttindasáttmálar, en efni þeirra og innihald hefur ekki náð til allra þeirra sem völdin hafa. Svo mikið er víst. Og við sem fötluð erum mættum standa okkur betur í þekkingu á þeim sáttmálum.

Það er mikill munur á því opinbera þjónustukerfi fyrir fatlað fólk sem einkum var byggt upp á síðari hluta síðustu aldar og NPA, notendastýrðri persónulegri aðstoð. Gamla þjónustukerfið einkennist af valdapýramída sínum. Efst eru kjörnir fulltrúar (ófatlaðir) á Alþingi og í sveitarstjórnum, síðan kemur framkvæmdavaldið, stofnanirnar, embættismennirnir, þjónustuveitendurnir, fagfólkið og annað starfsfólk. Þessir aðilar setja reglurnar, ákveða hvaða þjónusta er veitt, hvar, hvenær og hvernig. Skipuleggja þjónustuna og ákveða útfærslu hennar allt niður í smáatriði. Þetta fyrirkomulag er vissulega kallað þjónusta, en birtingarmynd hennar er oft andhverfa þess sem hægt er að kalla þjónustu, þ.e. allskonar skilyrði eru sett, stundum ill skiljanleg, ofstjórnun, valdboð, tilskipanir og valdbeiting. Neðst í pýramídanum eru borgararnir, við fatlaða fólkið, undir oki pýramídans.

Í desember 2015 var gert það sem kallað var „Endanlegt samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustu við fatlaða.“ Þetta endanlega samkomulag tók (auðvitað) til gamla þjónustukerfisins, hið heilaga kerfi sem treglega má breyta og skal verja og varðveita um ókomna tíð. Er þjónustukerfið til fyrir borgarann eða fyrir sjálft sig? Maður hikar við að svara, finnst það óljóst, en við vitum hvaðan féð kemur til að starfrækja kerfið. Frá okkur borgurunum, kjósendunum. Í hinu endanlega samkomulagi var sem sagt NPA þjónustuformið undanskilið. Undanfari umrædds samkomulags var skýrslan „Endurmat á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks“, sem kom út í nóvember 2015. Í skýrslunni er kafli um NPA (7. kafli) þar sem gengið er ansi langt í því að tala NPA þjónustuformið niður. Þetta er gert þegar samstarfsverkefnið um NPA er í miðjum klíðum í þróunar- og innleiðingarfasa samkvæmt lögum frá Alþingi.

Reynsla mín af því að vera með NPA, sitja í stjórn NPA miðstöðvarinnar og hafa setið um tíma í verkefnisstjórn um NPA er sú að áhugi, skilningur og stuðningur við NPA fyrirfinnst meðal ýmissa starfsmanna sveitarfélaga og ríkis, en þar verð ég þó að undanskilja Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar á bæ hafa menn lagt sig fram um að tefja, draga úr og tala NPA þjónustuformið niður. Mér finnst að sjálfræði og sjálfstæði sveitarfélaga setji stórt spurningarmerki við það hvort sveitarfélögum sé treystandi fyrir því að tryggja jafnræði og jafnrétti Íslendinga til mannréttinda. Málaferli og dómar í málum Benedikts og Salbjargar benda til að svo sé ekki. Nema stjórnarskrá og lögum verði breytt. Baráttan heldur áfram og áfram og áfram og . . .

Ég stend með ykkur, Benedikt og Salbjörg!

Þessi grein er hluti af virðingarvakningu Tabú til stuðnings Benedikts H. Bjarnason og Salbjörgu Atladóttur en þau hafa bæði þurft að lögsækja Reykjavíkurborg fyrir mannréttindabrot og tapað málunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og öðru fyrir hæstarétti. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð mun deila reynslu sinni. Það er okkar von að þær fari eins og eldur í sinu um samfélagið og trufli valdhafa sem mest. Við hvetjum samborgara okkar til þess að deila greinunum á Facebook og tweeta eins og enginn sé morgundagurinn undir myllumerkinu #heimahjámér og merkja héraðsdóm, hæstarétt, Reykjavíkurborg, Dag B. Eggertsson og aðra í borgarstjórn við sem flest tækifæri.

16 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page