Höfundur: Ágústa Eir Guðnýjardóttir
Það er þetta með alvöruna og alvarleikann.
Hvenær er ástand alvarlegt eða skortur alvarlegur? Og skortur á hverju?
Jú, alvarlegt ástand getur skapast og skapast oft á dag – alls konar aðstæður. Læknaskortur er alvarlegur vegna þess að hann hefur slæm og langvarandi áhrif. Það verða alvarleg ófyrirséð slys vegna þess að í þeim verður fólk fyrir líkamlegu tjóni sem veldur oft miklum sársauka, fólk verður fyrir áföllum og eignatjóni.
Fólk getur upplifað alvarlegan skort á mat, það er vont að vera svangur og það er heilsuspillandi til lengdar, það er alvarlegt mál að hafa ekki þak yfir höfuðið, aðallega vegna veðurfarsins, það er alvarlegt að eiga ekki klæði til skjóls, af sömu ástæðu, og ýmis alvörumál geta, og eru, svo sannarlega á sveimi. Og alvara mála þýðir að það þarf að bregðast við meintu ástandi.
En hvað með líkamlegt eða andlegt atgervi fólks?
Það er líklega ekkert alvarlegt við eldrautt hár, stór eyru eða fæðingarblett á kinninni, sennilega vegna þess að slíkt hamlar ekki aðgangi að uppfinningum eða mannvirkjum sem, vel að merkja, eru allt saman mannanna verk. Alvarleikinn lætur ekki á sér kræla fyrr en líkamleg eða andleg geta ræður ekki við mannvirkin eða fyrirbærin, sem flest eru hönnuð með ákveðna getu í huga, þetta andskotans „norm“. Þá verður ástandið, að sögn flestra, alvarlegt. Og fyrst og fremst alvarlegt fyrir þann sem býr við meintan „skort“, það er alvarlegt mál fyrir hann og það er hans vandamál. Hið opinbera, hönnuðir, arkitektar, textasmiðir, auglýsingahöfundar, byggingaverktakar og margir margir fleiri henda bara skömminni og ábyrgð á slæmu aðgengi og „vangetu“ yfir á þá sem teljast „alvarlega“ skertir. Og eftir því sem „skorturinn“ á líkamlegri eða andlegri getu verður meiri, sýnilegri, og passar síður inn í manngerðar aðstæður, þeim mun meiri alvara er á ferð. Og þeim mun meiri ástæða er auðvitað til að hafa samúð með þessum „alvarlega“ skertu einstaklingum, en engum dettur í hug að hafa samúð með skorti á getu og metnaði til að gera ráð fyrir fjölbreyttri flóru einstaklinga í samfélaginu og mismikilli getu þeirra til að njóta fullra mannréttinda og sinna sínum borgaralegu skyldum.
Það mætti sem best draga úr öllum þessum alvarleika með því að fólk hundskaðist til að átta sig á fjölbreytileika mannflórunnar, átta sig á því að fleiri en fullsjáandi, fullheyrandi, gangandi, hlaupandi, altalandi og andlega fullþroska fólk (hvað sem það nú er) kemur til með að notast við hönnunina þeirra, kerfin þeirra og ferðast um samfélagið. Og þeir verða að geta gert það sem allra allra mest af eigin rammleik, án aðstoðar, þjónustu, velvilja, vorkunnar og fórnfýsi ættingja, vina og fólks úti í bæ og, fyrst og fremst verða þeir að hafa stjórn á sínu eigin lífi (sennilega fáum við bara eitt á þessari jarðkringlu) og þeir verða að fá að halda reisn sem manneskjur.
Það felst engin reisn í því að þiggja ölmusu. Það felst engin reisn í því að vera sí og æ upp á aðra kominn vegna skorts á aðgengi í víðasta skilningi þess orðs.
Það felst aðeins niðurlæging í því að búa eilíflega við yfirgengilega forsjárhyggju opinbers kerfis sem hefur afar takmarkaða innsýn í persónulegar aðstæður fólks og á líka bara að hafa takmarkaða innsýn. Í lýðræðisríki eigum við nefnilega ekki að búa við hinn „alltsjáandi“ stóra bróður.
Það felst aðeins niðurlæging í því að geta ekki notið alls þess sem markaðsöflin auglýsa sem „algjörlega lífsnauðsynlegt“ vegna skorts á aðgengi.
Það felst óendanlega mikil niðurlæging í því að vera sviptur málfrelsi og frelsi til tjáskipta vegna skorts á heyrn og afsaka það með fjárskorti. Og þetta er þeim mun alvarlegra fyrir það að á sama tíma hyggjast ráðherrar fjárfesta í lúxusbílum fyrir sjálfa sig, fólk sem, það best ég veit, er fullfært til gangs. Og gleymum ekki hvaðan fjármagnið í lúxusinn kemur.
Illa gangfært fólk fær hins vegar annað hvort enga opinbera ferðaþjónustu eða úthlutuðum naumt skömmtuðum kvóta, og nægi hann ekki, þá kemur hinu opinbera það ekki við.
Enginn á að búa við þær aðstæður að vera aðeins númer á færibandi opinbers kerfis, aldrei!
Hvenær í andskotanum skyldi sá dagur renna upp að við, sem samfélag, getum sagt orðið „velferð“ með stolti og án þess að munnurinn fyllist af óbragði og tungan verði svört?
Í dag getum við það ekki, svo sannarlega ekki því miður.
Þjóð sem býr við opinbera stjórnsýslu sem hefur ekki, síðastliðin tæp átta ár, séð sér fært að fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sú þjóð getur ekki kennt sig við velferð, getur ekki tekið sér það orð í munn.
Orðið velferð er nánast verðlaust á Íslandi, þökk sé stjórnmála- og embættisfólki.
Comments