Höfundur: Ágústa Eir Guðnýjardóttir
Grein þessi birtist fyrst á Facebooksíðu druslugöngunnar og fengum við leyfi höfundar til þess að birta hana hér. Henni hefur verið örlítið breytt af höfundi.
Fyrir 30 árum hitti ég, fyrir tilviljun, giftan graðan leigubílstjóra sem var svo illa haldinn að hann fórnaði mesta annatíma helgarinnar, aðfararnótt sunnudagsins, í að reyna að fá vilja sínum framgengt. Hann notfærði sér gróflega þær aðstæður mínar að ég sé nánast ekkert, allra síst í myrkri um miðja nótt. Það gaf honum færi á að keyra bara eitthvert út í myrkrið og……
Skemmtilegt kvöld í Þórskaffi
Árið er 1984, laugardagur í nóvember. Þá var undirrituð aðeins 17 ára, en, eins og títt er um unglinga á þeim aldri var ég voða fullorðin og þóttist fær í flestan sjó. Ég hafði komist í kynni við sjónskert fólk sem tilheyrði ungmennadeild Blindrafélagsins og hitti þau annað slagið. Þau voru öll nokkuð eldri en ég, en mér fannst það bara töff og fann samhljóm með þeim enda hafði ég þá afar lítið umgengist fólk sem bjó við svipaða skerðingu og ég.
Þennan umrædda laugardag höfðu þau ákveðið að fara saman út að borða um kvöldið og eftir það, á ball í Þórskaffi. Þau buðu mér með og sannfærðu mig um að þó ég hefði ekki náð þeim aldri sem þyrfti til að komast inn, þá myndu þau redda því. Ég treysti þeim bara og spáði ekkert frekar í hvernig þau ætluðu sér að fara að þessu. Það var ekki eins og ég liti út fyrir að vera eldri en ég var. En allt um það, við fórum út að borða og inn í Þórskaffi komst ég, hvernig sem það nú gerðist. Á þeim árum máttu dans- og vínveitingastaðir aðeins hafa opið til kl. þrjú á nóttunni um helgar. Klukkan þrjú streymdi fólk út á göturnar og leigubílar höfðu oft ekki undan að koma öllum þangað sem þeir ætluðu.
Ég man að ég skemmti mér vel þetta kvöld, dansaði mikið og vinir mínir skiptust á um að fara fyrir mig á barinn. Ég fann ágætlega á mér, óvön áfengisdrykkju, en var þó mjög langt frá því að verða ofurölvuð, man allt sem gerðist þessa nótt eins og það hefði gerst í gær.
Ég var í góðum félagsskap fólks sem passaði uppá að „barnið“ yrði ekki fyrir neinu áreiti eða lenti í hremmingum af neinu tagi. Á heimleiðinni misstu þau hins vegar sjónar á mér og þá gerðist það.
„Þig langa, er það ekki?“
Klukkan þrjú var skrúfað fyrir tónlistina og dyraverðir gengu um til að smala fólkinu út á götu. Við reyndum að halda hópinn, vorum sjö eða átta saman og vorum því of mörg í einn leigubíl.
Málin æxluðust þannig að þau sem urðu mér samferða í bílnum bjuggu í Reykjavík, ég hins vegar bjó úti á landi en hafði orðið mér úti um gistingu austast í Kópavoginum og var því síðust úr bílnum.
Leigubílstjórinn var af erlendu bergi brotinn, talaði mjög bjagaða íslensku, en var vel skiljanlegur og skildi allt sem sagt var. Ég sat í aftursætinu í upphafi ferðar, en þegar ég var orðin ein með bílstjóranum fór ég að hrósa tónlistinni í bílnum sem var grísk gítartónlist, minnti á Zorba. Bílstjórinn sagði mér þá að ég skyldi endilega koma yfir í framsætið því þá nyti ég tónlistarinnar miklu betur. Og ég, saklaus sem ég var, sá því ekkert til fyrirstöðu, hafði ekki hugmyndaflug til að ímynda mér neinn annan tilgang með sætaskiptunum en þann að tryggja að ég gæti notið hinna fínni blæbrigða tónlistarinnar.
Ég klifraði því yfir sætisbakið, eitthvað sem ég gæti ekki í dag, og lét fara vel um mig við hlið bílstjórans.
Hann byrjaði á því að fræða mig um tónlistina, flytjendur og heiti lagsins sem í gangi var, en ég man ekkert af því lengur. Síðan hófst hann handa við að koma ætlunarverki sínu í framkvæmd, og ég varð svo undrandi að fyrst í stað kom ég engum vörnum við. Hann hélt um stýrið með vinstri hendi, en þeirri hægri smeygði hann undir pylsið mitt og byrjaði að káfa á mér. Svo stundi hann „þig langa, er það ekki?“.
„Ha, langar hvað?“, spurði ég og fattaði auðvitað um leið um hvað málið snérist. Hann tók hendina á mér og setti hana í klofið á sér þar sem finna mátti beinstífann böllinn undir buxunum. Ég dró hana jafnskjótt til baka og sagðist engan áhuga hafa á typpinu á honum.
Hann stöðvaði bílinn, losaði beltið og dró mig til sín.
„Núna við hafa það gott saman“, stundi hann og reyndi að troða tungunni í sér uppí mig.
Ég ýtti honum frá mér, en hann gerðist æ ágengari, setti hendina á mér ítrekað á liminn á sér, sem hann var búinn að bera, og káfaði áfergjulega á mér með báðum höndum.
„Þú nudda hann, gerðu það. Þetta gott, er það ekki?“
Ég vissi ekkert hvar við vorum, vissi bara að við höfðum ekið mun lengur en það tekur að aka austur í Kópavogsbæ. Ég ímyndaði mér að við hlytum að vera á einhverjum fáförnum stað og áttaði mig á að núna var ég komin í hættulegar aðstæður. Þessi maður gæti komið fram vilja sínum og meira en það, ég gæti fátt gert til að stöðva áform hans.
Hann gerðist mjög ákafur, andaði hratt og reyndi að hneppa frá mér jakka og blússu. Hann var hins vegar svo skjálfhentur og æstur að hann réði illa við það auk þess sem hendurnar á mér þvældust sífellt fyrir og trufluðu hann.
Ég hugsaði hratt, ákveðin í að gera allt sem ég gæti til að stöðva þessa atburðarás en velti því fyrir mér hvort mikill mótþrói gæti orðið hættulegur. Ég var undir áhrifum og ég held að það hafi gefið mér meiri kjark til að taka áhættuna. Ég bara vildi þetta ekki, vildi ekki að þetta gerðist. Ég tók mér því taki, ýtti honum harkalega frá mér og spurði hátt og skýrt:
„Heyrðu góði minn. Átt þú konu?“
„Ha, já, ég á konu“, sagði hann og hætti að káfa.
„Hvar er hún núna?“
„Hún heima.“
„Jahá, núna sefur hún í rúminu ykkar, alveg róleg af því hún treystir manninum sínum sem er úti að vinna fyrir peningum. Áttu börn?“
„Já, tvö börn já.“
„Og þau sofa líka heima og treysta pabba sínum. En svo er þessi pabbi þeirra ekki að vinna þegar mest er að gera. Nei, hann er úti að káfa á ungum stúlkum. Veistu, að ef ég vil, þá get ég látið fletta þér upp á leigubílastöðinni og ég get látið konuna þína vita hvernig þú hagar þér. Viltu það?“
„Ha,… veit ekki… nei….“
„Jæja. Þá skaltu keyra mig heim eins og skot, bara núna strax, og ef þú gerir það þá skal ég gleyma þessu. En ef ekki, þá…..“
Hann spennti öryggisbeltið, setti í gír og ók mér austur í Kópavogsbæ. Þegar þangað kom opnaði ég dyrnar, steig út og sagði:
„Takk fyrir aksturinn, ég ætla ekki að borga þér eina einustu krónu fyrir þennan langa túr. Sjáðu, það borgar sig ekki að káfa á ungum stelpum í Reykjavík, þú tapar peningum á því og það getur verið hættulegt. Bless og góða nótt.“
Með það skellti ég hurðinni og hljóp inn.
Og almáttugur hvað ég varð skelfingu lostin eftirá. Þegar ég fór að spila þetta atvik í huganum, aftur og aftur, áttaði ég mig á því hversu hættulegar aðstæður þetta voru. Við hefðum getað verið í Heiðmörkinni eða bara hvar sem var, einhversstaðar þar sem enginn var til aðstoðar. Hann hefði getað nauðgað mér þarna og svosem gert margt fleira án þess að ég kæmi vörnum við.
Ég hef oft hugsað um það í gegnum árin hversu ótrúlega heppin ég var því hann hefði getað verið algjörlega samviskulaus. En spurningar mínar og tilraun mín til að höfða til samvisku hans bar árangur. Það var hreinasta heppni.
Ekki allar svona heppnar
Ég hugsaði um þetta atvik í mörg ár, en sagði engum frá. Ekki af því ég skammaðist mín, ég var alltaf fullviss um að ég hefði ekkert gert til að verðskulda þetta ógeðslega áreiti. Ég hafði bara áhyggjur af því að ef foreldrar mínir vissu að dóttir þeirra hefði lent í svona löguðu þá myndu þau kannski reyna að hefta ferðir mínar og hafa meira eftirlit með mér. Ég var bara 17 ára og ég vildi vera frjáls, vildi díla við þetta ein, vildi ekki gera neitt mál úr þessu.
Ég veit hins vegar núna, 30 árum síðar, að þetta atvik hafði meiri áhrif á mig en ég vildi kannast við. Það olli því m.a. að í mörg ár tortryggði ég alla leigubílstjóra. Ég var skelfilega stressuð og óörugg ef ég þurfti að fara ein með leigubíl. Hvar og hvernig myndi ferðin enda?
Fyrir 30 árum fékk ég borðliggjandi staðfestingu á því að fatlað fólk, einkum stúlkur og konur, er sá hópur samfélagsins sem er í mestri hættu á að verða fyrir kynferðisáreiti og ofbeldi í skjóli mismunar í formi valds og getu. Og fatlaðar stúlkur og konur eru afar „heppileg“ fórnarlömb þeirra sem hneigjast til þess að misnota vald sitt og hagstæðar aðstæður sem skapast.
Ég var heppin, hverju sem það var að þakka, þannig séð. Ég slapp ótrúlega vel úr hættulegum aðstæðum, en svo sannarlega er ekki hægt að segja hið sama um margar kynsystur mínar, því miður. Margar þeirra verða fyrir skelfilegu ofbeldi, jafnvel árum og áratugum saman, en veigra sér við að kæra eða sækja rétt sinn vegna þess að þær vita sem er að réttarkerfið skortir bæði vilja og metnað til að taka á málunum þannig að aðgerðir þess verði ofbeldismönnum víti til varnaðar. Margar þeirra veigra sér líka við að sækja sér aðstoð réttarkerfisins því þær vita sem er að þeim er ekki trúað, að frásagnir þeirra eru dregnar í eva og jafnvel gefið í skyn að þær hafi, með framferði sínu, klæðaburði eða orðum, gefið ofbeldismanninum tilefni til ofbeldisverka.
Margar þeirra segja ekki einu sinni sínum nánustu því það er búið að stimpla svo rækilega inn í sálir þeirra að þær séu lægra settar, minna virði og að þær eigi að vera þakklátar fyrir hina minnstu mola sem hrjóta af borðum ófatlaðs fólks.
Rannsóknir sýna að þrjár af hverjum fjórum fötluðum stúlkum og konum verða fyrir einhvers konar ofbeldi; andlegu, líkamlegu eða kerfislægu. Þetta eru sláandi upplýsingar, en koma mér, sem hef búið við fötlun í 47 ár ekki á óvart. Það kemur mér heldur ekki sérstaklega á óvart þegar fatlaðar konur tala um að þær upplifi sig kynlausar. Viðhorf samfélagsins til fatlaðra kvenna er líkt og viðhorf þess til eldra fólks. Kynvitund fólks virðist bundin við ófatlað ungt fólk. Og, þegar á vegi ofbeldismanns verður „kynlaus“ mannvera, kona, þá líta þeir á slík „fyrirbæri“ sem eitthvað sem má nota, manneskju sem er í lagi að misbjóða og niðurlægja.
Skilum skömminni!
– Ágústa Eir Guðnýjardóttir