top of page

Skuggaskimun: Menntamálastofnun tryggir ekki fjölbreytileika í ungmennaráði

Þann 29. nóvember ’16 sendi Skuggaskimun Tabú fyrirspurn til Ungmennaráðs Menntamálastofnunar þar sem óskað var eftir upplýsingum um með hvaða hætti ungmennaráð Menntamálastofnunar endurspeglar margbreytileika ungmenna á Íslandi og hvort (og þá hvaða) formlegu aðferðum Menntamálastofnun beitti við val á fulltrúum í ungmennaráðið. Menntamálastofnun sendi Skuggaskimun Tabú eftirfarandi svar þann 7. desember ’16:

„Vísað er í erindi Skuggaskimunar Tabú, dags. 29. nóvember sl. þar sem spurningum um ungmennaráð Menntamálastofnunar er komið á framfæri.

Eins og kemur fram í fréttatilkynningu um ungmennaráðið frá 28. nóvember sl. eru í ungmennaráðinu fulltrúar úr ráðum Barnaheilla, SAFT, Samfés, Unicef, umboðsmanns barna, UMFÍ og ungmennaráðum sveitarfélaga og eru samtals 20 fulltrúar í ráðinu, auk tveggja varamanna. Menntamálastofnun gengur út frá því að fulltrúar í þessi ungmennaráð séu valdir með lýðræðislegum hætti. Stofnunin vill kynnast sem flestum sjónarmiðum um menntun og er tilbúið að halda fundi með þeim sem vilja koma ólíkum skoðunum á framfæri hvort sem það er innan ungmennaráða eða á öðrum vettvangi.

Með bestu kveðju Erla Ósk Guðjónsdóttir“

Viðbrögð Tabú við svari Menntamálastofnunar Tabú er uggandi yfir svörum Menntamálastofnunar. Vakin er athygli á því að Menntamálastofnun svarar ekki fyrri spurningu skuggaskimunar Tabú sem snýr að því með hvaða hætti ungmennaráð Menntamálastofnunar endurspeglar margbreytileika ungmenna á Íslandi. Af svörum Menntamálastofnunar að dæma er ljóst er að stofnunin beitir engum markvissum aðferðum til að tryggja fjölbreytileika innan Ungmennaráðsins aðra en að treysta því að ungmennaráðin sem tilnefna einstaklinga í Ungmennaráð Menntamálastofnunar séu valin með lýðræðislegum hætti. En þó Menntamálastofnun segist ekki notast við neinar sérstakar aðferðir til að tryggja fjölbreytileika vekur það athygli að kynjahlutföll í ungmennaráðinu virðast nokkuð jöfn. Veltum við fyrir okkur hvort um tilviljun sé að ræða eða hvort sérstökum aðferðum hafi verið beitt til að tryggja jöfn hlutföll dregja og stúlkna.

Reynslan og rannsóknir hafa löngum sýnt fram á mikilvægi þess að nefndir og ráð endurspegli fjölbreytileika samfélagsins til að draga úr jaðarsetningu. Fjöldi barna og unglinga eru jaðarsett innan menntakerfisins á grundvelli til dæmis fötlunar, kynhneigðar og/eða stéttar. Það veldur okkur bæði áhyggjum og vonbrigðum að Menntamálastofnun vinni ekki markvisst gegn þessari jaðarsetningu með því að tryggja fjölbreytileika innan Ungmennaráðsins.

Í svari Menntamálastofnunar kemur jafnframt fram að stofnunin sé tilbúin til að „halda fundi með þeim sem vilja koma ólíkum skoðunum á framfæri hvort sem það er innan ungmennaráða eða á öðrum vettvangi.“ Vekur það undrun að Menntamálastofnun sýni ekki meira frumkvæði en svo að vera tilbúin til að funda með þeim sem vilja. Það er morgunljóst að fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum á oft erfiðara en með að fá áheyrn og hafa með beinum hætti áhrif á stefnumótun – enda er það í raun eðli jaðarsetningar. Það verður því að teljast afar óeðlilegt að gera þá sem jaðarsettir eru alfarið ábyrga fyrir aukinni aðkomu sinni að Menntamálastofnun. Höfum við talsverðar áhyggjur af því að þessi skortur á frumkvæði sé til þess fallinn að ýta enn frekar undir jaðarsetningu fólks.

Teljum við mikilvægt að opinber stofnun um menntamáli taki meira frumkvæði í því að tryggja að hún starfi fyrir alla þá hópa sem henni er ætlað. Til eru verkfæri og fræðileg skrif um hvernig hægt sé að tryggja betur aðkomu jaðarsettra hópa að stefumótun og ákvarðanatöku. Tabú hvetur Menntamálastofnun að tileinka sér þessháttar vinnubrögð.

8 views
bottom of page