top of page

Skuggaskimun: Svör frá Barnahúsi

Þann 23. mars sl. sendi Skuggaskimun Tabú spurningar til Barnahúss um aðgengi fyrir fatlað fólk í Barnahúsi. Bárust svörn frá Barnahúsi 6 dögum síðar, þann 29. mars. Vegna óvæntra og óviðráðanlegra aðstæðna hefur starfsemi Tabú verið í lágmarki síðastliðinn mánuð og því hefur ekki verið unnt að birta svörin fyrr en nú. Við biðjumst við innilegrar velvirðingar á því.

1. Hvernig er aðgengi fyrir fatlað og/eða langveikt fólk, einkum börn og unglinga, í Barnahúsi? Dæmi: kemst það á allar hæðir án þess að vera borið upp stiga, um öll rými án þess að færa þurfi húsgögn, í gegnum hurðir án þess að fara yfir þröskulda eða basla við þrengsli?

Barnahús flutti starfsemi sína í nýtt og betra húsnæði í október 2014.  Enda þótt húsið sé á tveimur hæðum er tryggt að hreyfihömluð börn/unglingar hafa greiðan aðgang að öllum þjónustuþáttum á fyrstu hæð hússins, þmt. vegna rannsóknarviðtala, læknisskoðunar og meðferðar. Þar eru rampar, engir þröskuldar og breiðar hurðar. Salerni fyrir fatlaða sem er stórt, hægt að snúa hjólastól inni á salerninu, vaskurinn er lár og salerni með handföngum.

2. Er táknmálstúlkun í boði í Barnahúsi?

Barnaverndarnefndir tryggja túlka fyrir börn/unglinga sem þurfa að nýta sér þjónustu Barnahúss. Starfsmenn Barnahúss eru vanir að nýta þjónustu túlka hvort sem um er að ræða táknmálstúlka eða tungumálatúlka.

3. Er þekking á óhefðbundnum tjáskiptaleiðum í Barnahúsi?

Ekki er fyllilega ljóst hvað átt sé við með óhefðbundnum tjáskiptaleiðum í fyrirspurninni. Hins vegar eru rannsakendur í Barnahúsi sérþjálfaðir í rannsóknarviðtölum sem m.a. eru tekin upp á myndband. Mat á tjáningu er ekki einskorðað við frásögn heldur tekur mið af heilstæðri tjáningu, þmt. líkamstjáningu svo sem svipbrigðum og hreyfingum.  Þjálfunin tekur m.a. sérstaklega mið af ungum börnum og börnum með ýmiss konar fatlanir. Samstarf er einnig við Greiningarstöð ríkissins.

4. Er þekking á sérstöðu fatlaðra og/eða langveikra barna og unglinga í tengslum við ofbeldi, margþætta mismunun og ólíkar birtingamyndir ofbeldismenningar hjá þessum hópi barna?

Barnahús telur sig búa yfir sérþekkingu á því sem spurt er um og jafnan er leitast við að bæta þá þekkingu með símenntun starfsfólks. Barnahús og Barnaverndarstofa í samvinnu við Velferðarráðuneytið hafa fengið tvo sérfræðinga í fötlunum barna frá Bandaríkjunum til landsins með 3 daga kennslu og fyrirlestur í byrjun júní n.k.

10 views

Comments


bottom of page