Feminísku fötlunarsamtökin Tabú ítreka djúpar áhyggjur sínar á stöðu fatlaðs fólks, m.a. fatlaðra foreldra, á Gaza svæðinu og ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda á stöðu mannréttinda þessa hóps. Fatlað fólk upplifir mikla vanrækslu og er slysa- og dánartíðni margfalt meiri en meðal ófatlaðs fólks. Við höfum sérstakar áhyggjur hversu illa gengur að koma neyðarvarningi til fólks og þá sérstaklega það sem snýr að þörfum fatlaðs fólk, t.d. lyf, hjálpartæki og ýmis læknabúnaður sem vöntun er á, til þess að framkvæma aðgerðir á fólki.
Við ítrekum einnig að margt fatlað fólk verður viðskila við fjölskyldu sína og á því mun minni möguleika, ef einhverja, á að lifa af. Það týnir og tapar einnig hjálpartækjum og eru þá strandaglópar og getur ómögulega leitað skjóls. Fötlunarfordómar eru áfram til staðar þó þjóðarmorð eigi sér stað og er fatlað fólk mun frekar skilið eftir í flóttamannabúðum sem eru ekki lengur nothæfar eða er ekki hleypt inn á þær vegna fordóma fyrir geðrænum áskorunum eða taugabreytileika.
Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.
Íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á að beita sér fyrir því að veita fötluðu fólki vernd sem hingað leitar sem og að hætta að senda fatlað fólk á flótta út í opinn dauðann sem býr við þessar aðstæður. Ísland er einnig ábyrgt í alþjóðlegu samhengi en stjórnvöld undirrituðu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2006 og hafa einnig fullgilt hann. Í þeim samningi er kveðið sérstaklega á skuldbindingar aðildaríkja um að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks í vopnuðum átökum. Í samningnum er einnig kveðið á um að aðildaríki beri ábyrgð á að skapa fötluðu fólki tækifæri til að öðlast endurhæfingu og bata í kjölfar ofbeldis og misþyrminga. Ekki fáum við séð að unnið hafi verið markvisst að því, t.d. í tilviki Yazan Tamemi, þar sem íslensk stjórnvöld halda áfram að valda honum áföllum og beita hann ofbeldi.
Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að efla líkamlegan, vitsmunalegan og sálrænan bata, endurhæfingu og félagslega enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit skal tekið til kyn- og aldursbundinna þarfa.
Tabú tekur einnig undir yfirlýsingu Evrópusamtaka fatlaðs fólks um sjálfstætt líf (ENIL) en þau gera kröfu um að tryggt verði að fatlað fólk, þá serstaklega konur, börn og flóttafólk, fái aðgengi að mannúðaraðstoð tafarlaust. Samhliða því að mæta þörfum fatlaðs fólks á Gaza sé unnið markvisst að inngildingu þeirra í almennt mannúðar- og björgunarstarf. ENIL fer einnig fram á aukna gagnaöflun og að tölfræðiupplýsingar séu til staðar um fatlað fólk á Gaza. Einnig hvetja þau til þess að alþjóðasamfélagið og aðildaríki samnings Sameinuðu þjóðanna veiti fjárhagslegan stuðning til fötlunarsamtaka Palestínu. Að lokum krefjumst við þess að fatlað fólk taki virkan þátt í allri vinnu sem snýr að mannúðarstarfi og sé í leiðtogahlutverkum þar sem og annars staðar í samfélaginu, á Íslandi og á alþjóðavettvangi.