Ólafur Helgi Móberg er tískuhönnuður sem útskrifaðist úr hönnunarnámi í Mílanó. Hann hefur meðal annars hannað kjóla, búninga og brúðarkjóla. Jafnframt því tekur hann að sér skipulagningu brúðkaupa og heldur úti vefsíðunni olafurhelgi.com.
Ég mæli mér mót við Ólaf Helga á kaffihúsi í borginni. Það er ró og næði á kaffihúsinu enda hinn hefðbundni hádegisverðartími næstum liðinn. Við setjum niður með kaffi og Malt og hefjum samtalið.
Það liggur beinast við að byrja á spurningunni hver er þessi Ólafur Helgi? „Ólafur Helgi er 32 ára tískuhönnuður, fæddur 2. desember 1981. Ég er samkynhneigður og fatlaður, ég man þó aldrei hvað fötlunin heitir, enda er það kannski aukaatriði. Ég er örverpið í fjölskyldunni, yngstur af fjórum bræðrum, og þrír af okkur bræðrunum hafa þessa sömu fötlun. Þar að auki er ég dragdrottning og kem þá oftast fram undir nafninu Starina.“
20 ár eru liðin frá því að Ólafur Helgi kom fyrst fram opinberlega í drag. „Ég heillast bæði af leiklist og kjólum svo að það að fara í drag nær að sameina þessi áhugamál vel. Starina er ákveðin sköpun og í raun mitt ‘alter ego’. Starina er hugrökk, þorir að vera hún sjálf og segir gjarnan eitthvað sem ég sjálfur myndi ekki þora að segja. Fólk hefur oft sagt við mig að ég eigi ekki að ganga á háum hælum því það sé svo vont fyrir fæturna mína og að ég muni bara detta á hausinn. Þrjóskan og hugrekkið hennar Starinu verða þó til þess að hún heldur alltaf áfram á sínum háu hælum og lætur þessar athugasemdir ekki á sig fá.“
Að loknum grunnskóla lá leiðin í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. „Ég var ákveðinn í að verða leikari og fór í FB til þess að komast í leiklistarfélagið þar. Ég held að þær leiklistaæfingar sem ég lærði þar hafi gefið mér þann kjark og styrk sem ég þurfti til þess að skapa Starinu eins og hún er í dag.“
Ólafur Helgi segir að þó hann hafi upplifað mikla hvatningu í FB til þess að halda áfram í leiklistinni en að hann hafi jafnframt fundið fyrir neikvæðum viðhorfum. „Sumir sögðu mér að ég ætti ekki að verða leikari því ég myndi hvort sem er aldrei fá nein flott hlutverk, eins og til dæms að leika Danny í Grease, og að ég gæti ekki tekið þátt í danssöngleikjum þar sem allir væru með „hinn fullkomna“ líkama. Það eru kannski ekki þessi hlutverk sem ég sækist eftir í leiklistinni. En þessi viðhorf höfðu vissulega áhrif á mig og ég fór ósjálfrátt að takmarka mig og hugsa, æ ég get ekki gert þetta og hitt.“
Á meðan Ólafur Helgi var í fjölbraut byrjaði persónan Starina að þróast. Á þessum árum tók Ólafur Helgi virkan þátt í hinsegin-samfélaginu hér á landi í tengslum við Starinu og sigraði til að mynda Dragdrottning Íslands árið 2003.
Ólafur Helgi á brúðkaupsdaginn
Eins og gengur og gerist breyttist margt á meðan Ólafur Helgi stundaði námið í FB. „Ég var komin með mikinn skólaleiða þegar ég ákvað að fara í áhugasviðspróf og í framhaldi af því færði ég mig yfir á handíðabrautina. Á þeim tíma kunni ég ekki einu sinni að þræða nál en ég í ljós kom að ég elskaði þetta nám. Þetta sameinaði áhuga minn á kjólum og leiklist og þarna fékk ég mikið rými til þess að skapa.“
Ólafur Helgi lauk námi af handíðabraut samhliða því að taka stútendsprófið og var þá orðinn staðráðinn í því að sækja frekara nám á sviði fatahönnunnar.
„Ég flyt til Mílanó til þess að taka BA gráðu tískuhönnun í háskóla þar. Ég fer í mjög góðan skóla í Mílanó þar sem kennararnir hvöttu mig áfram og litu aldrei á fötlun mína sem einhverja hindrun fyrir mig sem tískuhönnuð. En úti í samfélaginu í Mílanó fer ég fyrst að upplifa mikla fordóma vegna fötlunar minnar. Þarna úti var ég kominn í mjög ferhyrndan heim þar sem lítið svigrúm er gefið til þess að fara út fyrir boxið. Ég upplifði fólk stara og horfa á eftir mér – stundum var einnig bent og hlegið að mér. Eftir 5 ár í Mílanó var ég orðinn uppgefinn á þessu viðmóti og hlakkaði til að koma heim.“
Ólafur Helgi segist þó hafa brugðið mikið þegar hann kom aftur heim til Íslands. „Þá upplifði ég svipuð viðbrögð og í Mílanó, til dæmis þetta með glápið. Ég veit ekki hvort samfélagið breyttist eða hvort ég fór að taka meira eftir þessu vegna alls þess sem ég upplifði í Mílanó.“
Talið berst að hinsegin-samfélaginu og hvernig það er að vera hinsegin fatlaður maður á Íslandi. Að mati Ólafs Helga ríkja enn miklar staðalímyndir meðal samkynhneigðra karlmanna. „Það virðist vera ákveðin pressa varðandi útlit og að hommar séu, það sem skilgreint er, karlmannalegt. Þegar ég kom inn á ‘gayskemmtistað’ eftir að hafa verið í Mílanó í nokkur ár, þá þekkti ég engan þar inni og mér leið eins og verið væri að stara á mig og að fólk væri að hugsa ‘hvað er þessi skrýtni gaur að gera hér?’“.
Ólafur Helgi segir sjálfstraust sitt hafa minnkað mikið á meðan hann bjó í Mílanó og að hann hafi fundið fyrir mun meiri fordómum á Íslandi eftir dvölina úti. „Kannski hefur alltaf verið starað á mig á Íslandi og ég hef bara ekki tekið eftir því. Ég held að þegar sjálfstraustið er ekki mikið taki maður meira eftir þessu og þá fer maður jafnvel að misskilja forvitini og fáfræði sem árás á mann sjálfan.“
Ólafur Helgi telur að birtingamyndir samkynhneigðra karlmanna í fjölmiðlum séu fremur einsleitar og að þess vegna lifi staðalmyndir svona góðu lífi. „Þegar ég horfi til að mynda á kvikmyndir um samkynhneigða prentast auðvitað inn í hausinn á mér að hommar hafi einhver tiltekin útlitseinkenni sem ég hef ekki, sem gerir það að verkum að mér finnst ég ekki passa inn í hópinn. Ég er alveg jafn sekur, og alveg jafn gegnsýrður, af þessum staðalmyndum og aðrir. Því er ekki hægt að kenna einhverjum tilteknum aðilum um, þetta snýst meira um ákveðna menningu sem við erum öll hluti af.“
Starina fabulous í alla staði
Ólafur Helgi segir fjölbreytileikann mikilvægan á öllum sviðum. „Conchita, sem sigraði Eurovision, er ekki staðalímynd af dragdrottningu og hvorki staðalímynd karls eða konu. Það er ótrúlega mikilvægt og ánægjulegt að sjá manneskju eins og Conchitu verða svona mikla fyrirmynd því hún minnir okkur á að það er hægt að brjótast út úr boxinu.“
„Þegar ég keppti fyrst í dragkeppni var mér sagt að ég gæti það ekki því ég gæti ekki verið jafn ‘fabulous’ og hinar drottningarnar. Fyrst ég væri nú svona skakkur og skrýtinn yrði ég að gera eitthvað annað til þess að skera mig úr. En mig langaði ekkert að gera neitt annað – mig langaði bara til þess að vera ‘fabulous’! Þegar ég lít til baka þá sýnist mér að mér hafi tekist að gera Starinu ‘fabulous’ en vera á sama tíma trúr sjálfum mér. Það skiptir mig mestu máli.“
Viðtalið tók Embla Guðrúnar Ágústsdóttir