top of page

Tabú opnar nýja vefsíðu og hefur fötlunarpönk sitt á ný

Í dag 9. september opnar Tabú nýja og endurbætta vefsíðu á www.tabu.is. Þar munum við halda áfram femínísku fötlunarpönki í formi greinaskrifa, viðtala og umfjallana um efni tengt líðandi stund.

Í haust munum við fjalla um fatlað fólk á átaka- og hamfarasvæðum, holdarfarsmisrétti og fötlun, atvinnu- og menntamál fatlaðs fólks, fósturskimanir, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir á fötluðu fólki, geðheilbrigðiskerfið og fötlunar- og kynjamisrétti, mismunun á grundvelli tjáskiptaleiða og margt fleira. Í kringum jólin munum við segja fordómasögur um jólasveina, fjölskylduboð og annað vandræðalegt sem tengist hátíðinni.

Við munum halda áfram að stunda fötlunaraktivisma með gjörningum, viðburðum og fundum í smærri og stærri mannréttindarýmum og á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram og Twitter. Á Instagram og Twitter erum við undir yfirskriftinni #tabufem. Áhersla verður lögð á að vinna gegn og upprætta margþætta mismunun fatlaðs fólks.

Í vetur bjóðum við einnig upp á fyrirlestra og fræðslu fyrir skóla og atvinnulífið, stofnanir ríkis og sveitarfélaga, fagfélög og almenn félagasamtök og ráðgjöf fyrir einstaklinga og hópa.

Heimsækið okkur á www.tabu.is og ekki hika við að hafa samband við okkur á embla@tabu.is og freyja@tabu.is.

Mannréttindastuðkveðjur, Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Freyja Haraldsdóttir Talskonur Tabú

Tabú er femínísk hreyfing sem beinir sjónum sínum að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún er sprottin af baráttukrafti kvenna, sem hafa ekki einungis upplifað misrétti á grundvelli fötlunar og kyngervis, heldur einnig mögulega kynhneigðar, kynþáttar og aldurs svo eitthvað sé nefnt.

5 views
bottom of page