top of page

Truflandi tilvist, jafningjastuðningur og aktivismi ber hæst hjá Tabú á árinu

Þessi samantekt birtist fyrst í nýjasta tölublaði tímarits Þroskahjálpar.

Tabú, feminíska fötlunarhreyfingin okkar, er nú að ljúka sínu þriðja starfsári, og höfum við margt brallað síðustu tólf mánuði. Hreyfingin þróast og breytist og höfum við í auknum mæli verið í samstarfi við önnur baráttusamtök þvert á jaðarsetta hópa, t.d. höfum við unnið talsvert með Samtökunum ’78 og Samtökum um líkamsvirðingu upp á síðkastið. Við höfum einnig unnið að því að opna hreyfinguna okkar fyrir fötluðu fólki af öllum kynjum með það að sérstöku markmiði að útiloka ekki fatlað trans og kynsegin fólk. Sú vinna heldur áfram.

Belgía, Þýskaland, Ungverjaland, Svíþjóð og Pólland

Freyja og Embla fyrir utan Evrópuþingið í Brussel.

Freyja og Embla fyrir utan Evrópuþingið í Brussel.


Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, talskonur Tabú, byrjuðu árið í Brussel á fundi hjá Evrópuþinginu um kynbundið ofbeldi gegn fötluðum konum. Þar fluttu þær erindi um mikilvægi þess að kynferðisofbeldi gagnvart fötluðum konum og trans fólki væri veitt sérstök athygli og aðgerða væri þörf þar sem kyngervi, kynvitund og fötlun væri viðurkenndir þættir í sjálfsmyndarsköpun og valdastöðu fatlaðs fólks. Í júlí var Emblu boðið að taka þátt í fundi Evrópusamtaka transfólks sem fjallaði sérstaklega um stöðu fatlaðs transfólks. Á fundinn mættu sérfræðingar, sem höfðu persónulega reynslu af því að vera fatlað hinsegin fólk, og ræddu saman um margþætta mismunun og hvernig hagmunasamtök gætu tekið betur á móti fötluðu hinsegin fólki. Í október hélt Freyja erindi í Svíþjóð á ráðstefnu Nordisk forum on Disability um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ráðstefnuna sátu einnig fleiri Tabúkonur. Síðar í sama mánuði tók Þorbera Fjölnisdóttir þátt í ráðstefnu Wave – Women Against Violence Europe fyrir hönd Tabú og flutti þar tvö erindi sem snéru að ofbeldi gegn fötluðum konum. Sú ráðstefna fór fram í Búdapest. Embla endaði svo ferðaárið á því að halda til Póllands og taka þátt í ársfundi ILGA Europe – Evrópusamtökum hinsegin félaga.

Jafnréttisdagar HÍ og Þroskahjálp á Norðurlandi Eystra

Fyrirlestur á Akureyri

Fyrirlestur á Akureyri


Við höfum farið víða með fræðslu um starfsemi okkar og aðra þætti, t.d. umfjöllun um ableisma, aðgengiskvíða, margþætta mismunun, stöðu fatlaðra barna og ungmenna. Við tókum þátt í Jafnréttisdögum háskólanna, fórum inn í framhaldsskóla og heimsóttum vinnustaði. Í nóvember fórum við til Akureyrar að frumkvæði Þroskahjálpar á Norðurlandi-Eystra þar sem við fjölluðum sérstaklega um fötluð ungmenni og margþætta mismunun. Fjöldi fólks mætti og umræður voru líflegar og skemmtilegar. Við kynntumst einnig baráttukonum með þroskahömlun sem við vonumst til þess að geta unnið með í framtíðinni.

Truflandi tilvist og umhverfis klósettið

Lydia X. Z. Brown

Lydia X. Z. Brown


Í mars héldum við, ásamt Samtökunum ´78 og Trans Ísland, ráðstefnuna og grasrótarhátíðina Truflandi tilvist. Um var að ræða tveggja daga aktivistaveislu þar sem baráttufólk þvert á jaðarinn sameinaðist í að fræða hvert annað og aðra áhugasama um baráttustarf, sögu og viðfangsefni ólíkra hópa. Til liðs við okkur fengum við Lydia X. . Brown sem er kynsegin og einhverft og hefur unnið ötullega gegn fötlunartengdu ofbeldi, rasisma og hinseginhatri í Bandaríkjunum og víðar um heiminn. Á haustmánuðum héldum við viðburð um klósett! Jen Slater, fræðimanneskja og kynsegin aktivisti, og Gemma Nash, hinsegin listakona, fræðikona og fötluð móðir, komu og kynntu rannsókn sína Around the toilet um aðgengi fatlaðs fólks, hinsegin fólks og ólíkra trúarhópa að klósettum og frumsýndu stuttmynd um efnið. Árið enduðum við á að halda Feminískt jólabókakósý þar sem María Hreiðarsdóttir, baráttukona og rithöfundur, mun lesa upp úr bók sinni Ég lifi í þögninni yfir heitu súkkulaði, mandarínum og piparkökumauli.

Af fundum með forseta og ráðherra

Guðni

Guðni Th. Jóhannsson, forseti Íslands, og Freyja Haraldsdóttir


Í janúar fundaði Freyja með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannssyni, um notendastýrða persónulega aðstoð. Á fundinum lagði Freyja áherslu á mikilvægi lögfestingar og að NPA væri fyrir allt fatlað fólk óháð aldri, skerðingu og stuðningsþörfum. Á vormánuðum funduðum við með Velferðarnefnd Alþingis og þáverandi félagsmálaráðherra, Þorsteini Víglundssyni, til þess að fylgja eftir langri umsögn sem Tabú ritaði árið 2016 um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Tabú hefur margt að athuga við það frumvarp, m.a. hvað varðar algjört samráðsleysi við fatlað fólk, að frumvarpið nái ekki utan um allan hóp fatlaðs fólks og þá aðgreinandi stefnumörkun sem tekin er í málefnum fatlaðra barna. Þessu til viðbótar skrifuðum við m.a. yfirlýsingu til útlendingastofnunar og innanríkisráðherra gegn því að þau hunsi Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í umsóknarferlum fólks í hælisleit og fólks á flótta og yfirlýsingu til Akureyrarbæjar um að mismuna ekki fötluðum nemenda sem þarf sjúkrakennslu sem kveðið er á um í lögum.

Skýrslan um Kópavogshæli og öruggari rými

Veggspjöld frá Tabú

Veggspjöld frá Tabú


Eitt meginmarkmið Tabú er að skapa öruggara rými fyrir fatlað fólk til þess að það geti deilt reynslu sinni hvert með öðru og fengið tækifæri til þess að tjá sig þar sem fordómum er haldið í lágmarki. Á árinu höfum við haldið áfram að þróa slík rými. Þegar skýrslan um Kópavofshæli kom út í byrjun árs hafði það mikil áhrif á líðan margs fatlaðs fólks. Tabú brást við með því að halda viðburð eingöngu fyrir fatlað fólk þar sem voru stýrðar umræður og þátttakendum gafst færi á að ræða saman um skoðanir sínar og tilfinningar varðandi skýrsluna. Tabú er jafnframt með jafningjahópa fyrir það fólk sem sótt hefur námskeið hjá okkur tvisvar í mánuði. Á þessum fundum eru ýmist tiltekin þemu rædd, t.d. reynsla af heilbrigðiskerfinu og samskiptum við fjölskyldu, en einnig eru sumir fundir markvisst notaðir til þess að þátttakendur geti tjáð sig um það sem þeir eru að fara í gegnum hverju sinni. Ætla má að 17 slíkir fundir hafi farið fram á árinu. Í haust hélt Tabú sitt fimmta valdeflandi námskeið fyrir fatlað fólk og að þessu sinni var það opið fyrir fatlað fólk af öllum kynjum. Námskeiðin byggjast upp á fræðslu, stýrðum umræðum þátttakenda og ýmsum verkefnum milli tíma og á námskeiðinu sjálfu.

Árið 2017 hefur verið viðburðaríkt og erum við þákklát fyrir það samstarf sem við höfum átt við ólík samtök, hópa og einstaklinga hér á landi og erlendis. Ljóst er að ef ekki væri fyrir allt það fatlaða fólk, einkum konur, sem tekur þátt í starfi Tabú og leggur því lið, væri árangurinn af erfiðinu ekki sá sami. Mikið sjálfboðastarf er unnið meðal okkar, við reiðum okkur eingöngu á tilfallandi styrki og því er það mismunandi milli tímabila hversu mikið við getum gert og höfum orku til samhliða öðrum störfum og verkefnum. Við vonum að Tabú geti starfað áfram í eins fjölbreyttum verkefnum og verið hefur og þannig haft róttæk áhrif á samfélagið.

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Freyja Haraldsdóttir

Talskonur Tabú

16 views

Comentarios


bottom of page