top of page

Typpakeppnin um heilbrigðiskerfið

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Ég bý oft yfir hugsunum og skoðunum sem falla ekki í góðan jarðveg hjá meirihluta samfélagsins. Ég reyni að segja þær samt flestar upphátt með tilheyrandi tryllingsköstum virkra í athugasemdum af því að ég trúi ekki á hjarðhegðun, gagnrýnisleysi og þögn. Síðustu misserin hef ég þó fundið fyrir mikilli þreytu og því dregið úr því að gusa úr mér vanþóknun minni á heiminum nema í öruggum rýmum fatlaðra kvenna og kve nna sem tilheyra öðrum jaðarsettum hópum. Ég er semsagt að hlúa að geðinu mínu og hvíla baráttukonuna nema fyrir mikilvægustu orrusturnar. Og þær eru mjög margar.

En nú get ég ekki meira varðandi feðraveldisbræðurnar Sigmund Davíð og Kára Stefáns sem herja nú hina bestu typpakeppni sem ég hef lengi séð. Því hún er að snúast upp í andhverfu sínu. Við fengum nýja ríkisstjórn fyrir þremur árum og síðan þá höfum við horft á margar grunnstoðir samfélagsins hrynja, t.d. heilbrigðiskerfið. Vanræktir og kúgaðir sjúklingar húka á göngum spítala, fá ekki aðgerðirnar sínar, út úr rannsóknum sínum og þora jafnvel ekki að leita læknishjálpar til þess að valda ekki álagi. Bitnar það harðast á valdaminnsta fólkinu sem er langveikt fólk, aldrað fólk og fatlað fólk. Örmagna starfsfólk reynir að halda sönsum og taka kjarabaráttur í hjáverkum ofan á allt annað. Byggingar sem hýsa hluta af heilbrigðiskerfinu eru að liðast í sundur. Það er ömurlegt og við verðum hrædd. Mörg okkar verða fyrir skellinum af fyrstu hendi. Við segjum skoðanir okkar, deilum reynslu, mótmælum á götum úti, sumir hrópa á hjálp með aðstoð samfélagsmiðla og fjölmiðla. En fáir hlusta. Að minnsta kosti ekki fólkið sem var kosið til þess að mynda ríkisstjórn. Brauðmilsnum er í mesta lagi kastað að fólkinu með kröfu um þakklæti fyrir.

Svo kemur Kári Stefánsson, eins og riddarinn á hvíta hestinum, og allt verður hljótt um stund. Hann á fullt af peningum og notar þá í herferð til þess að berjast fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins. Hann skrifar opið bréf til forsætisráðherra. Allt í einu fara fleiri að hlusta. Forsætisráðherra svarar honum með dólg og allir verða brjálaðir. Ég hugsa; en hann svaraði þó, enginn ráðherra hefur svarað fólkinu sem er búið að segja það sama og Kári margoft. Fólk setur nafnið sitt á undirskriftarlistann. Frægt fólk sem hefur ekki látið á sér kveða talar í myndavél um mikilvæga heilbrigðiskerfið okkar. Þingmenn hrósa Kára opinberlega en hafa fram að því lítið þorað að taka undir með tilteknum almennum borgurum sem segja nákvæmlega það sama. Vandinn er bara með þá borgara að þeir eru ekki granni, hvíti, ríki, gagnkynhneigði og ófatlaði Kári sem rekur mikilvægt fyrirtæki. Þeir eru bara gamall maður úr Hafnarfirði. Fötluð kona úr Breiðholti. Foreldrar langveiks barns frá Borgarnesi. Eða eitthvað.

En ég má ekki segja þetta upphátt. Þetta er göfugt hjá Kára. Samfélagið þarf á umræðunni að halda. Heilbrigðiskerfið á skilið endurreisn. Ég á að vera þakklát. Heilbrigðiskerfið er mikilvægt fyrir samborgara mína. Það er lífsnauðsynlegt fyrir son vinkonu minnar á hverjum einasta degi. Ég þarf á því að halda sjálf. Börnin mín í framtíðinni verða að hafa aðgang að góðu heilbrigðiskerfi. Börnin okkar allra eiga betra skilið. En frústrasjónin yfir þessari Káradýrkun fer vaxandi. Ég segi þetta við tvær fatlaðar baráttusystur mínar og þær samsinna mér en bæta við, mínum eigin hugsunum, „þetta er mikilvægt“. Það er rétt hjá þeim. Ég bæti við að ég voni að Kári átti sig á forréttindum sínum og að hann sé markvisst að nota þau til þess að að gera Ísland betra. Þær fara báðar að hlæja. Ég líka. Þvílíkt óraunsæi. En ég ákveð að segja ekkert. Vonandi skilar þetta einhverju öðru en samfélagið fari að dýrka enn einn riddara feðraveldisins. Við megum ekki við því.

En svo vakna ég í morgun og les að Kári hafi kallað Sigmund Davíð offeitan lítinn strák. Og ég nenni þessu ekki meira. Ég er hætt að vera þakklát. Er eitthvað skárra hvernig Sigmundur talar um Kára? Nei. Er Sigmundur Davíð frændi minn og ég er móðguð? Nei. Er ég ánægð með Sigmund Davíð sem forsætisráðherra? Nei. Má þá ekki bara kalla hann hvað sem er? Nei.

Nú er þetta orðin typpakeppni dauðans. En ekki barátta um betra heilbrigðiskerfi. Ef Kári vill raunverulega betra heilbrigðiskerfi þá veður hann ekki áfram með orðræðu sem stuðlar að holdarfarsmisrétti og niðurlægingu við börn. Feitt fólk er ekki óábyrgara og heimskara fólk en grannt fólk. Börn væru búin að leysa vanda heilbrigðiskerfisins ef við gæfum þeim umboð til þess. Holdarfar forsætisráðherra hefur ekkert að gera með vanhæfni hans til að stjórna landinu. Heldur vanþekking hans, hroki og forréttindi sem hann misnotar. Ef Kári vill betra heilbrigðiskerfi umfram eigin frægð og frama skapar hann aðstæður fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk til þess að rjúfa þögnina – ekki fræga fólkið. Hann lætur þann hóp um að skilgreina hvað má betur fara og hvernig við komum okkur upp úr þessu. Hann hvetur stjórnmálafólk til þess að vinna saman þvert á flokka. Hann beitir forsætisráðherra málefnalegu aðhaldi af mikilli festu … en líka heilbrigðis- og fjármálaráðherrana. Þeir hafa engan rétt á að vera súkkulaðikleynur.

Ef honum er raunverulega ekki sama þá notar hann forréttindi sín markvisst til þess að styðja fólkið sem hefur forréttindin ekki til þess að herja á þær breytingar og aðgerðir sem þarf að fara í.

Typpakeppnir karla eru ástæður þess að við búum í samfélagi sem er að mörgu leiti ein rjúkandi rúst.

8 views

Recent Posts

See All

Sjö ára afmæli með aðstoð: hugleiðingar um NPA

Höfundur: Sigrún Bessadóttir Það er fimmtudagssíðdegi. Sonur minn er að fara að halda upp á sjö ára afmælið sitt í skemmtigarði í Helsinki þar sem við búum. Von er á fimmtán börnum sem ætla að ærslast

Comments


bottom of page