Reykjavík, 16. mars 2019
Umsögn Tabú um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu), þskj. 896, 543. mál.
Tabú, femínísk fötlunarhreyfing, gerir alvarlegar athugasemdir við framkomið frumvarp til laga um þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu. Frumvarpið gengur gegn öllum ábendingum sem fram koma í skýrslu Mannréttindaskrifstofu Íslands frá árinu 2013 með yfirskriftinni Hatursorðræða. Yfirlit yfir gildandi lög og reglur – ábendingar til framtíðar (Jóna Aðalheiður Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova, 2013) – hér eftir nefnd „skýrsla MRSÍ“.
Í upphafi er bent á að á lista yfir umsagnarbeiðnir frá allsherjar- og menntamálanefnd, sendar út 27.02.2019, er ekki að finna eitt einasta félag eða félagasamtök jaðarsettra einstaklinga. Breytingar ákvæðisins hafa alvarlegar afleiðingar fyrir jaðarsetta hópa og skerðir tilverurétt þeirra. Því er ámælisvert að allsherjar- og menntamálanefnd skuli ekki kalla eftir umsögnum þeirra. Í nútíma lýðræðissamfélagi eiga slík vinnubrögð að heyra sögunni til.
Áréttað er að lýðræðisumbætur eru nauðsynlegar á Íslandi, einkum styrking tjáningarfrelsis er varðar útgáfu- og fjölmiðlafrelsi og vernd uppljóstrara, sem var kjarni umboðs nefndar um endurskoðun tjáningarfrelisákvæða og samþykktar Alþingis um endurskoðun þeirra. Hinsvegar er afar alvarlegt ef hugmyndum um tjáningarfrelsi og hatursorðræðu er stillt upp sem útilokandi andstæðum. Efling ákvæða sem varða hatursorðræðu helst í hendur við markmið um styrkingu tjáningarfrelsis.
Eðli hatursorðræðu er það að þeir sem verða fyrir henni eru beittir þöggun. Þannig skerðir hatursorðræða tjáningarfrelsi og tilverurétt jaðarhópa. Ef taka á afstöðu með tjáningarfrelsi þá er afstaða tekin gegn frumvarpinu.
Ef frumvarpið verður að lögum verður komið í veg fyrir að ummæli verði dæmd refsiverð í málum sambærilegum þeim örfáu þar sem einstaklingar hafa verið fundnir sekir um að beita hatursorðræðu.
Það er misskilningur að jaðarsettir einstaklingar og hópar njóti virkrar refsiverndar á Íslandi. Skýrsla MRSÍ ber vitni um að svo sé alls ekki. Mál fyrir dómstólum hafa verið örfá og enn færri sakfellingar. Hugtökunum refsivernd og réttarvernd verður að gera skýr skil, og mat á áhrifum breytinganna er ekki trúverðugt í ljósi niðurstöðu skýrslu MRSÍ. Þar er kallað eftir ríkari refsivernd og réttarvernd jaðarsettra einstaklinga og hópa, ekki að dregið verði úr þeirri vernd.
Með aukinni þekkingu og vakningu til vitundar um margþætta mismunun er bent á mikilvægi þess að nálgast fordóma og mismunun á heildrænan og samtvinnaðan hátt. Í skýrslu MRSÍ er bent á að á Íslandi er engin heildstæð mismununarlöggjöf til staðar. Þar er m.a. bent á að mismunabreyturnar fötlun og kynhneigð er ekki einu sinni að finna í 65. gr. stjórnarskrárinnar. Bent er á að hvergi er minnst á fordóma, fyrirlitningu og hatur á grundvelli fötlunar í þessari tillögu að breytingu á ákvæði um hatursorðræðu. Með vísan til fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hlýtur að eiga að verða breyting þar á. Þar sem staða jaðarsettra hópa er veik að grunni til er vegið að öryggi þeirra með því að draga úr vernd.
Samkvæmt tilmælum Ráðherranefndar Evrópuráðsins um hatursáróður eða hatursorðræðu (nr. R(97)20) eiga þeir sem tilheyra jaðarhópum, ekki að þola réttlætinguhaturs sem byggist á umburðarleysi: að hatursáróður og/eða -orðræða, samkvæmt skilgreiningunni, „taki til hvers konar tjáningar sem dreifi, hvetji til, stuðli að eða réttlæti kynþátta-, útlendinga- og gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þ.á. m. umburðarleysi sem birtist í þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gagnvart minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna“. Hvers vegna þarf að þrengja þessa skilgreiningu í íslenskri löggjöf? Áherslan hér er á réttlætingu haturs.
Það er mikilvægt að viðurkenna það kerfisbundna hatur sem er falið í viðhaldi fordómasem þegar þrífast í samfélagi. Það er ekki hægt að vísa til þess að hatur, hvort sem er í orðræðu eða í áróðri, skuli metið á þann hátt að viðmiðið sé að „:háttsemin [sé] til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“ þegar talað er um normalíseruð og viðtekin viðhorf sem þegar eru til staðar gagnvart jaðarhópum. Hatur er aldrei ný hugmynd einstaklinga, heldur afleiðing viðtekinna viðhorfa og afstöðu þeirra sem telja sig í réttmætri og réttlætanlegri forréttindastöðu gagnvart jaðarhópum. Um þetta er ítarlega fjallað í skýrslu MRSÍ og bent á fordóma sem markvissa og kerfisbundna réttlætingu haturs..Ofbeldi á sér stað í kerfisbundnu valdaójafnvægi.
Oghvernig á annars að meta hvenær „:háttsemin [sé] til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“? Hvernig sannanir þarf til? Á að telja tilvik, tímamæla, telja andlát, mannvíg, sjálfsvíg, – hvar eiga mörkin að liggja? Um þetta hlýtur að ríkja alger réttaróvissa nái breytingin fram að ganga. Óvissan snýst ekki hvað síst um þá staðreynd að setningin er sett inn í lögin í þeim einkennilega tilgangi að útiloka dóma um sekt og gerir um leið ákvæðið algerlega óvirkt. Þrengingin skerðir þannig möguleika okkar sem samfélags á að finna hvar mörk tjáningarfrelsis og hatursorðræðu eiga að liggja.
Samkvæmt umfjöllun í skýrslu MRSÍ bendir allt til þess að alvarlegar kerfisbundnar brotalamir séu til staðar í íslensku réttarkerfi og að jaðarsettir hópar á Íslandi hafi veika stöðu gagnvart hatursorðræðu og lítið aðgengi að réttlæti. Hindranirnar eru margar og flóknar ástæður liggja að baki því hversu fá mál hafa ratað á borð dómstóla. Þær tengjast m.a. stöðu, efnahag, berskjöldun og skorti á upplýsingum og stuðningi. Það er ekki fyrir hvern sem er að höfða dómsmál, allra síst fyrir þá einstaklinga sem búa við jaðarsetningu. Í ljósi þess hversu fáum málum er til að dreifa er hægt að fullyrða að jaðarsettir einstaklingar á Íslandi hafa sýnt takmarkalaust umburðarlyndi gagnvart þeirri hatursorðræðu sem að þeim snýr. Færa má rök fyrir því að með þrengingu ákvæðisins felist tilraun stjórnvalda til endanlegrar þöggunar jaðarsettra einstaklinga.
Að lokum er bent á að hatursorðræða á aukið rými í nútímanum og grefur um sig á samfélagsmiðlum. Útópískar hugmyndir um tjáningarfrelsi hafa átt fylgi að fagna hjá hægri-öfga hreyfingum í Bretlandi og í fleiri löndum Evrópu. Í Bandarkjunum er mikil umræða um áhrif orðræðu forsetans og þátt hennar í auknu ofbeldi og hatursglæpum gegn jaðarhópum. Það eru átök um hugmyndir um mannréttindi og við stöndum frammi fyrir úreltum hugmyndum um mátt og ábyrgð einstaklingsins til að takast á við kerfisbundna mismunun, óréttlæti, hatur og ofbeldi. Er það virkilega skoðun valdhafa hér á landi að brýnt sé að grafa undan veikri réttar- og refsivernd jaðarsettra einstaklinga og hópa gegn hatursorðræðu og takmarka hana? Í frumvarpinu eru ekki færð rök fyrir því hvers vegna nauðsynlegt sé að íslensk löggjöf gangi lengra á þessu sviði en gert er á Norðurlöndunum. Hver er sérstaða íslensks samfélags sem kallar á það? Er ekki frekar full ástæða til að fylgja ábendingum alþjóðlegra eftirlisnefnda vegna mannréttindasamninga sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að framfylgja og styrkja þannig grunnstoðir mannréttinda og virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindastofnunum?
Það er mat okkar undirritaðra að frumvarpið gangi nærri jaðarsettum einstaklingum, frelsi þeirra, tjáningu, tilverurétti, öryggi og friðhelgi einkalífs. Mikilvægt er að spyrja hvort þeir einstaklingar sem kallaðir hafa verið til vegna afmarkaðrar þekkingar, en hafa enga reynslu af jaðarsetningu eða félagsfræðilega sérþekkingu á eðli hatursorðræðu, hvort þeir eigi að ráða svo miklu og hafa svo mikið vald til að setja fram hugmyndir sem snerta hina jaðarsettu, án allrar aðkomu þeirra? Er það lýðræðið sem við viljum?
Í umræðuþættinum Silfrinu á RÚV, þann 10.mars s.l. sagði Eiríkur Jónsson, prófessor í lögum, gagnrýni á frumvarpið fela í sér „skiljanlega heitar tilfinningar“. Það er ekki í fyrsta skipti sem málefnaleg gagnrýni femínista, kvenna og jaðarhópa er gerð ómerk sem tilfinningaviðbrögð. Þess er óskað að Alþingi, allsherjar- og menntamálanefnd, ráðherra og ráðuneyti dómsmála taki alvarlega umsagnir jaðarsettra einstaklinga og hópa um frumvarpið við afgreiðslu málsins.Hið pólitíska er persónulegt og hið persónulega pólitískt.
Virðingarfyllst, F.h. Tabú
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Erla B. Hilmarsdóttir Freyja Haraldsdóttir Margrét Ýr Einarsdóttir Salóme Mist Kristjánsdóttir Sigríður Jónsdóttir Þorbera Fjölnisdóttir
————————————————————
Birt með góðfúslegu leyfi Sóleyjar Tómasdóttur
Sótt af: http://www.visir.is/g/2019190319172/hatur-a-netinu-undanfari-versta-fjoldamords-i-sogu-nyja-sjalands
Afleiðing þess að hatursfullum ummælum er veitt umburðarlyndi, rými, viðurkenning og réttmæti í opinberri orðræðu er ofbeldi. Normalísering viðhorfa sem réttlæta fordóma og hatur er ekki einkamál einstaklinga, heldur gerist hún með samþykki samfélags, skilaboðunum og reglunum sem löggjafinn setur. Í hvernig samfélagi búum við?
Heimildir:
Í umsögninni er vísað er til skýrslu Mannréttindaskrifstofu Íslands:
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir og Iuliana Kalenikova. (2013). Hatursorðræða: Yfirlit yfir gildandi lög og reglur – ábendingar til framtíðar. Reykjavík. Mannréttindaskrifstofa Íslands.
Comments