top of page

Umsögn Tabúkvenna um UPR skýrsludrög innanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttinda á Íslandi

Reykjavík, 10. júlí 2016

Tabú er feminísk fötlunarhreyfing sem berst gegn margþættri mismunun og beinir sjónum sínum fyrst og fremst að fötluðum konum, fötluðum börnum og fötluðu trans fólki. Hér gerum við grein fyrir þeim athugasemdum sem við höfum við drög að UPR skýrslu Innanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttinda á Íslandi með sérstakri áherslu á mannréttindi fatlaðs fólks. Í 1. kafla munum við fjalla um athugasemdir okkar við framkvæmd og gerð skýrsludraga. Í 2. kafla verða til umfjöllunar almennar athugasemdir við mörg atriði skýrslunnar en þar sem fatlað fólk kemst í snertingu við alla kima þjóðfélagsins og vegna þess að við viljum sýna öðrum jaðarsettum hópum samstöðu fjöllum við breitt um málin. Í 3. kafla fjöllum við sérstaklega um stöðu fatlaðs fólks samkvæmt þeim kafla í skýrsludrögunum. Efnið verður svo dregið saman í lokin.

  1. Almennar athugasemdir við framkvæmd og gerð skýrslu

Tabúkonur setja spurningarmerki við aðferðafræði og framkvæmd við gerð draga að UPR skýrslu innanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttinda á Íslandi. Í fyrsta kafla skýrslunnar er fjallað um að í nefndinni sem vinnur að gerð skýrslunnar séu eingöngu fulltrúar hvers ráðuneytis á Íslandi. Það hlýtur að teljast athugavert að þeir sem fara með framkvæmdavald í mannréttindamálum sinni einnig úttekt á eigin framgöngu á sama sviði. Við veltum fyrir okkur hvers vegna Mannréttindaskrifstofa Íslands, í samstarfi við félagasamtök sem berjast fyrir mannréttindum og gegn misrétti, skipi ekki þá nefnd sem gerir úttekt af þessum toga, amk. skipi stærsta hluta hennar.

Í þessum sama kafla skýrsludraganna kemur einnig fram að nefndin hafi átt samráð og samtal við helstu hagsmunaaðila mannréttindamála á Íslandi, m.a. í gegnum opinn fund í Iðnó sem haldinn var um mannréttindamál á Íslandi. Við teljum kynningu á þessum fundi hafa verið ábótavant þar sem við vissum ekki af honum og veltum einnig fyrir okkur, sem einu feminísku fötlunarsamtökin á Ísandi þar fatlaðar konur eru sjálfar í forsvari, hvers vegna okkur er ekki boðið sérstaklega að borðinu.

Fróðlegt væri að fá nákvæmari útskýringar á hvernig verklagi var háttað við gerð skýrslunnar og til hvaða hagsmunaaðila hafi verið leitað. Eins og mun koma fram síðar í umsögn Tabú er ljóst að lítil þekking og mikill skortur á skilningi á veruleika fatlaðs fólks endurspeglast í þessum skýrsludrögum innanríkisráðuneytisins. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gerir skýlausa kröfu um það í 3. lið fjórðu greinar um almennar skuldbindingar að samráð sé haft við fatlað fólk við stefnumótun, lagasetningu og aðra ákvarðanatöku sem það varðar á öllum sviðum stjórnsýslunnar. Það verður því að teljast mótsagnarkennt ef ráðuneyti sem fer með mannréttindamál fylgir því ekki eftir þegar það skrifar skýrslu um stöðu mannréttinda á Íslandi fyrir Sameinuðu þjóðirnar.

  1. Almennar athugasemdir við skýrslu

Í fyrsta kafla um drög að UPR skýrslu um stöðu mannréttinda á Íslandi er það staðhæft að í kjölfar hrunsins 2008 hafi orðið að skera niður fjármuni í tengslum við heilbrigðiskerfið, félagslegakerfið og menntakerfið þar sem að þau kröfðust mestra útgjalda. Tabú furðar sig á að innanríkisráðuneytið geti staðhæft með þessum hætti og þannig afsakað þá afturför sem orðið hefur á sviði mannréttinda. Augljóslega varð hér hrun en ekki getur talist faglegt að útskýra niðurskurð með tilheyrandi misrétti af svo mikilli einfeldni. Efnahagslegt hrun getur ekki talist náttúrlögmál heldur er það afleiðing pólitískra ákvarðanna og margra samverkandi þátta sem valdamesta fólkið í samfélaginu hverju sinni ber ábyrgð á. Reynsla okkar úr mannréttindamálum fatlaðs fólks hefur jafnframt sýnt okkur að umræða um kostnað við tiltekna þjónustuþætti er afar einhliða. Hún fjallar nær eingöngu um útgjöld, en ekki er litið til ábata af því að tryggja fötluðu fólki viðeigandi aðstoð og stuðning svo það geti búið við betri heilsu og orðið virkir þátttakendur í samfélaginu. Það er ekki sjálfgefið að eina leiðin til þess að rétta af ríkisfjármálin eftir hrun sé að skera niður á sviðum grunnstoða samfélagsins, þ.e. sem snýr að heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntun. Í skýrsludrögunum kemur jafnframt fram að efnahagsástandið á Íslandi nú sé sambærilegt og það var fyrir hrun. Kemur fram að atvinnuleysi hafi minnkað og að aukið fjármagn hafi verið sett í heilbrigðis- og félagslegakerfið. Við bendum á að staða fatlaðs fólks hefur frá upphafi verið áratugum á eftir öðrum nágrannaþjóðum og finnum við ekki fyrir neinum uppgangi nú frekar en áður. Rannsóknir og reynsla fatlaðs fólks sýnir að atvinnumál fatlaðs fólks eru í ólestri, biðlistar vegna þjónustu við fatlað fólk eru langir og sjálfstætt líf okkar er bundið við samstarfsverkefni (sem stjórnvöld kalla tilraunaverkefni þegar það þjónar pólitískum tilgangi þeirra) sem stöðugt er sett á frest að lögfesta. Það má vera að ef að litið er á stöðu mála heildrænt, séu sár samfélagsins að gróa eftir hrun, en ef betur er að gáð gildir það einna helst um forréttindahópa.

Tabú gerir athugasemd við að einungis er fjallað um konur og karla þegar fjallað er um kynjajafnrétti í skýrslunni. Staða þekkingar stjórnvalda á Íslandi ætti að vera komin á þann stað að meðvitund sé um að kynin eru ekki bara tvö og allt jafnréttisstarf þarf að vera unnið með það í huga. Jafnframt söknum við þess að nánast ekkert er fjallað um margþætta mismunun og samtvinnun (e. intersectionality), en það endurspeglar líklega hve skammt á veg við erum komin í þeirri umræðu á Íslandi. Það er mikilvægt að gera grein fyrir því í allri jafnréttisumræðu að konur, sem dæmi, eru ekki bara ein breyta. Að fjalla um konur sem eina breytu eykur hættu á að tölfræðigögn og aðrar úttektir og rannsóknir endurspegli fyrst og fremst konur sem tilheyra meirihluta og eru í forréttindastöðu. Kynjafræði, hinseginfræði, fötlunarfræði og aðrar fræðigreinar sem að snúa að valdaminni og jaðarsettum hópum hafa beint sjónum sínum í auknum mæli að áhrifum samtvinnunar á líf fólks. Um leið og kona er t.d. fötluð, hinsegin og/eða af erlendum uppruna aukast líkurnar á misrétti svo um munar og það birtist í stöðu hennar í samfélaginu. Það er okkar afstaða að ekki er hægt að tala um kynjajafnrétti faglega nema gert sé grein fyrir þessu. Það er óréttlátt gagnvart jaðarsettum konum og fólki sem ekki skilgreinir sig innan hinnar hefðbundnu kynjatvíhyggju að gera ekki grein fyrir þeim sérstaklega þegar staðan er skoðuð.

Tabú furðar sig á því að ekki sé fjallað um stöðu flóttafólks og hælisleitenda í kafla 3.2.3 um kynþáttafordóma. Margítrekað hafa hælisleitendur verið sendir úr landi þrátt fyrir að þeir uppfylli lagaleg skilyrði um vernd og hafa borgarar á Íslandi mótmælt harðlega og ítrekað vegna þessa. Um það er engum blöðum að fletta að hér er rasismi ein af rótum vandans. Jafnframt teljum við fjallað mjög lítið um stöðu mannréttinda þess hóps sem verður fyrir rasisma miðað við hvað rannsóknir sýna að margir upplifa mismunun á grundvelli uppruna síns, t.d. Í gegnum mansal í tengslum við erlent vinnuafl, mikla þjóðernishyggju á vettvangi stjórnmála, viðbrögð við flóttafólki og andúð við byggingu mosku. Ljóst er að Sameinuðu þjóðirnar verða að átta sig á raunverulegri stöðu þessa hóps til þess að geta leiðbeint íslenskum stjórnvöldum hvernig skal bregðast við henni. Er þetta einnig gott dæmi um mikilvægi þess að hugað sé að margþættri mismunun og samtvinnun og horft sé á stöðu jaðarsettra hópa í samhengi við fleiri þætti í lífi þeirra en einn.

Hvað varðar mannréttindi aldraðs fólks, þá má benda á að sá hópur er oft skilgreindur alþjóðlega innan hóps fatlaðs fólks, sbr. skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunnar um stöðu fatlaðs fólks í heiminum frá árinu 2011. Það vekur athygli okkar hve lítið er fjallað um annað en rétt fólks til þess að vera á hjúkrunarheimili og um lífeyriskerfið. Á Íslandi hefur eldra fólk rætt um réttinn til þess að vera áfram á vinnumarkaði eftir 67 ára aldur og sett fram skýra kröfu um að hafa það val. Jafnframt hafa aldraðar konur bent á þann alvarlega kynjahalla sem finna má í lífeyriskerfinu. Sögulega hafa sis og trans konur ekki haft sama aðgang að vinnumarkaðnum og sis og trans karlar og eru lífeyrisréttindi þeirra margra afar takmörkuð. Takmörkuð lífeyrisréttindi koma fram í fátækt, einkum hjá konum sem ekki eiga maka af gagnstæðu kyni. Ennfremur má benda á að bæði hér á landi og alþjóðlega gerir aldrað fólk þá kröfu að geta búið heima hjá sér sem lengst. Því er það til skammar fyrir stöðu mannréttinda hópsins hér á landi að einungis sé reynt að tryggja að aldrað fólk hafi aðgang að sérherbergi á sólahringsstofnun í stað þess að tryggja því aðstoð til þess að geta búið á sínu heimili og lifað sjálfstæðu lífi svo lengi sem það óskar. Við þetta má bæta að ekkert er minnst á það misrétti sem aldrað fólk hefur lengi barist gegn á Íslandi, þ.e. að geta ekki lengur búið með maka sínum þegar annar hvor makinn fer á hjúkrunarheimili.

Tabú furðar sig á því að ekki sé fjallað um stöðu mannréttinda fatlaðra og langveikra barna með markvissari hætti í skýrslunni, hvorki í kaflanum um fatlað fólk, né í kaflanum um börn. Þá þarf nauðsynlega að gera grein fyrir því hvers vegna fötluð og langveik börn eru undanskilin umfjöllun í kafla 3.7 sem fjallar um aðgerðir stjórnvalda í báráttu við ofbeldi, með áherslu á heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi. Það að stjórnvöld hafi engar áætlanir um baráttu gegn ofbeldi í garð þessara barna segir sína sögu. Fjarvera umfjöllunar um fötluð og langveik börn í kafla 3.7 lýsir í besta falli skilningsleysi og meðvitundarleysi stjórnvalda um þá áhættuþætti ofbeldis sem steðja að þessum hópi, en í ljósi sögulegra staðreynda um ofbeldi í garð fatlaðra og langveikra barna, sem studdar eru niðurstöðum fjölmargra rannsókna, m.a. skýrslu Unicef um stöðu fatlaðra barna í heiminum frá árinu 2013, má tala um vanrækslu stjórnvalda í garð þeirra.

Í kafla 3.6 um réttindi barna almennt er fjallað um þjónustu Barnahúss. Þess ber að geta að í Skuggaskimun Tabú (sjá: http://tabu.is/skuggaskimun-spurningar-til-barnahuss/) kom fram að Barnahús er ekki aðgengilegt fyrir stóran hluta fatlaðra barna eða barna sem eiga fatlaða aðstandendur, sem þurfa og eiga rétt á að fylgja þeim. Þess ber að geta að sú fræðsla sem fengin var fyrir starfsfólk barnaverndar í júní síðastliðnum var eingöngu veitt af ófötluðum körlum sem búa ekki yfir þeim reynsluheimi að vera fatlaður brotaþoli ofbeldis. Tabú telur nauðsynlegt að þetta sé skýrt í skýrslunni þar sem Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um fulla aðkomu fatlaðs fólks að málum sem það varðar. Jafnframt má benda á að Samningurinn kveður skýrt á um réttindi fatlaðs fólks til að hafa aðgang að almannaþjónustu eins og Barnahúsi  og að í honum er sérstaklega tekið fram að vernda skuli fötluð börn, fatlaðar konur og stúlkur. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að fötluð börn, einkum stúlkubörn og börn með þroskahömlun, eru í margfalt meiri hættu en ófötluð börn á að verða fyrir ofbeldi og því er ljóst að hér er um að ræða svartan blett á barnaverndarkerfinu á Íslandi sem nauðsynlegt er að tilgreina í þessari skýrslu.

Í kafla 3.7 um ofbeldi er einnig vert að benda á að þrátt fyrir að unnið hafi verið að því sumstaðar að draga úr ofbeldi gagnvart fötluðu fólki, einkum konum, þá er sú fræðsla sem þróuð hefur verið að mestu bundin við höfuðborgarsvæðið og fjármögnun á fræðsluefni mjög takmörkuð og ekki mjög djúp. Það má þar að auki benda á að fatlaðar konur fá margar hverjar ekki aðgang að Kvennaathvarfinu og margar hafa ekki tækifæri til að leita sér hjálpar vegna skorts á aðgengi, aðstoð og vegna fordóma. Þá þarf að taka fram í umfjöllun kaflans að fötluðu fólki, sérstaklega fötluðum konum, er ekki tryggður aðgangur að réttarkerfinu þar sem rannsóknaraðilar og ákæruvaldið hefur í mörgum málum talið að framburður fatlaðs fólks verði ekki tekinn trúanlegur fyrir dómstólum og mál látin niður falla. Þar með hefur fötluðu fólki verið neitað um aðgengi að réttarkerfinu og réttlæti, sem ætti að vera tryggt í almennri löggjöf og er ítrekað í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fatlaðar konur í Tabú afhentu innanríkisráðherra kröfuskjal 17. nóvember 2015 þar sem við fórum m.a. fram á eftirfarandi; „Að innanríkisráðherra tryggi að fatlaðir brotaþolar hvers kyns ofbeldis hafi jafnt aðgengi að réttarkerfinu og ófatlað fólk. Í því felst að lögregla og dómskerfið hafi nægilega þekkingu á samfélagslegri stöðu okkar sem jaðarsetts hóps, verkferlar séu aðgengilegir og auðskiljanlegir og að sú aðstoð sem við þurfum, t.d. vegna óhefðbundinna tjáskiptaleiða, sé veitt og rýri ekki undir nokkrum kringumstæðum möguleika okkar til þess að kæra ofbeldisbrot og koma þeim alla leið í gegnum réttarkerfið. Að ekki sé tekið mark á okkur því líkamar okkar líta öðruvísi út, greindarvísitala okkar samræmist ekki normalkúrfunni, skynjun okkar sé með öðrum hætti en meirihlutans eða við notum skynfæri okkar með öðrum hætti en flestir er ofbeldi í sjálfu sér. Að innanríkisráðherra tryggi að umbætur á löggæslu og réttarkerfinu séu unnar í fullu samráði og samstarfi við fatlað fólk, einkum okkur konur. Einnig að innanríkisráðuneytið hvetji undirstofnanir sínar á sviðinu til þess að ráða fatlaða sérfræðinga til starfa svo líklegra sé að umbætur þjóni tilgangi sínum. Jafnframt að ráðuneytið sýni gott fordæmi og ráði sjálft fatlaða sérfræðinga til starfa.“

Í umfjöllun um hatursglæpi í kafla 3.8 má benda á að í almennum hegningarlögum er fötlun ekki tilgreind sem breyta á grundvelli hverrar bannað er að mismuna. Hatursorðræða og -glæpir hafa aukist mjög gagnvart fötluðu fólki víða um heim og því teljum við mikilvægt að tilgreina þennan galla á íslenskum lögum. Við mótmælum því jafnframt að íslensk löggjöf nái utan um bann við pyntingar og ómannúðlega meðferð eins og er tekið fram í köflum 3.10 og 3.11, en það er löngu viðurkennt, m.a. hjá Sameinuðu þjóðunum, að ákveðnir hópar eigi að njóta sérstakrar verndar og hana skuli tilgreina sérstaklega. Mikilvægt er að benda á stöðu geðfatlaðs fólks á markvissari hátt en gert er í kafla 3.11.2 og auk þess þyrfti að benda með markvissari hætti á átakanlegan skort úrræða fyrir geðfötluð börn og afleiðinga hans en gert er í kafla 3.12.

Þá er mikilvægt að benda á að fötluðu fólki er ítrekað neitað um sértækar lausnir í þjónustu á grundvelli þess að sértæk þjónusta feli í sér brot á jafnræði og mismunun, þó ljóst megi vera að synjun feli í sér brot skilgreindra mannréttinda gagnvart einstaklingnum. Þá er bent á að ríki og sveitarfélög hafa ítrekað staðið að tilgangslausu og þvermóðskufullu þrátefli um hver eigi að borga fyrir veitta aðstoð og hafa opinberir aðilar þá neitað að veita nauðsynlega aðstoð sem myndi tryggja áðurnefnd mannréttindi. Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og í alþjóðasamningunum um mannréttindi, þ.á.m. Barnasáttmálanum og Samningnum um réttindi fatlaðs fólks er því lýst yfir og samþykkt að hver manneskja skuli eiga kröfu á réttindum þeim og frelsi sem þar er lýst, án nokkurs greinarmunar og aðgreiningar. Það á einnig við um fólk með skerðingar, hvort sem um langveikar eða fatlaðar manneskjur ræðir. Þá hefur því verið lýst yfir í þessum mannréttindasamningum að börnum beri sérstök vernd og aðstoð.

Þar að auki er mikilvægt að benda á að íslensk löggjöf, sem tekur á ofbeldi, er miðuð við líkamlegt ofbeldi og kynferðisofbeldi og dugar alls ekki til þess að sporna við hverskyns öðru ofbeldi sem getur falist í andlegu ofbeldi, efnislegu ofbeldi, stofnanna- og umönnunartengdu ofbeldi, þöggun, kúgun, kerfisbundnu og menningarlegu ofbeldi og öðru sem jafnframt getur hæglega flokkast sem pyntingar og ómannúðleg meðferð. Fatlað fólk er í sérstakri hættu hvað þetta varðar og hafa dómar í málum þess sýnt fram á það með bersýnilegum hætti að almennur stjórnarskrávarinn réttur og almenn löggjöf er einskis virði í augum dómsvaldsins þegar kemur að þessum hópi.

Í kafla 3.13 er ekki minnst á aðstæður fatlaðs fólks á vinnumarkaði eða aðstöðuleysi. Fatlað fólk á erfitt uppdráttar á vinnumarkaði og er ekki ráðið til vinnu vegna ríkjandi fordóma um að fatlað fólk geti ekki sýnt afköst og árangur.  Rétt er að vekja athygli á því að hópum fatlaðs fólks er boðin vinna á skilgreindum „vernduðum vinnustöðum“ þar sem Vinnumálastofnun og stéttarfélög semja um að greiða fötluðu fólki hlut af lágmarkslaunum fyrir fulla vinnu. Jafnframt geta laun starfsmanna slíkra vinnustaða verið enn frekar skert vegna afkastamælinga. Það er ekki hægt að segja að fatlað fólk í þessum aðstæðum njóti verndar stéttarfélaga og almennra laga sem ríkja á vinnumarkaði, og það með samþykki og fullri þátttöku opinberra aðila. Bágar félagslegar aðstæður fatlaðs fólks eru notaðar sem afsökun fyrir þessari framkomu, sem þykir enn sjálfsögð. Benda verður á að þetta eru aðstæður sem þekkjast undir hugtakinu mansal. Fatlað fólk á ekki að vera viðfang góðvildar og velgjörðar og sett í niðurlægjandi aðstæður. Það á rétt á mannréttindum sem aðrir þjóðfélagshópar fá að njóta.

Að þessu sögðu er rétt að benda á að fatlað fólk sem nýtur réttinda almannatrygginga býr við viðvarandi fátækt og þau viðhorf að rétt sé að skattleggja tekjur þeirra 100% í gegnum tekjutengingar. Þá gerir kerfið ekki ráð fyrir því að fatlað fólk beri kostnað við öflun tekna. Þessu kerfi þyrfti að vera gerð skil í skýrslunni. Hvaða annar hópur býr við 100% skattlagningu tekna annar er öryrkjar og aldraðir? Hver er munurinn á ríkinu og kúgara mansals sem býður viðfangsefni sínu, sem kemur úr bágum félagslegum aðstæðum, framfærslu og húsaskjól, en fer fram á að taka allar tekjur viðkomandi til sín 100% upp í framfærslukostnaðinn? Hvernig getur þetta verið talið kúgun í einu dæminu, en ekki í öðru? Niðurstaðan leiðir til lífs án lífskjara á við aðra og er ávísun á viðvarandi fátækt og mannlega niðurlægingu.

Í kafla 3.14 er fjallað um að íslenskt táknmál sé lögum samkvæmt þjóðartungumál okkar ásamt íslensku töluðu máli. Ekkert er þó minnst á að lítið hafi verið gert til þess að gera þennan rétt meira en orð á blaði. Félagslegi túlkasjóðurinn klárast reglulega yfir árið sem þýðir að döff fólk fær ekki túlk til þess að sinna vinnu sinni, foreldrahlutverki, félagsstörfum, njóta menningar og fjölskyldu- og vinaviðburða. Nýlega úrskurðaði héraðsdómur Reykjavíkur að ríkið hafði brotið á daufblindri konu með því að synja henni um lögbundinn rétt til táknmálstúlkunnar. Þá má vekja athygli á því að fyrir nýafstaðnar forsetakosningar sá RÚV, ríkisfjölmiðillinn, sér ekki fært að táknmálstúlka framboðsfundi í sjónvarpi, né heldur umfjöllun í kosningasjónvarpi. Þetta á einnig við um alla aðra samfélagsumræðu í sjónvarpi. Þannig er hópi fólks haldið utan þátttöku í samfélagsumræðu og lýðræði.

Tabú vekur athygli á því að skortur á aðgengi hamlar frelsi fatlaðs fólks til félagslegrar þátttöku sem fjallað er um í kafla 3.16.

Þá er gerð athugasemd við kafla 3.17 um menntun og stefnuna menntun án aðgreiningar en þar kemur ekkert fram um áhyggjur foreldra fatlaðra barna og/eða barna með námsörðugleika, sem hafa horft uppá ítrekaðan niðurskurð í skólakerfinu, sem stöðugt þrengir að þjónustu við þau börn. Útdeiling fjármuna til sérkennslu er alfarið í höndum skólastjórnenda en er ekki eyrnamerkt barni. Ekkert eftirlit er með því að barn sem uppfyllir skilyrði fyrir aðstoð fái viðeigandi aðstoð. Í kaflanum er allur fókusinn á kerfið sem slíkt, en ekki nemendurna sem eiga að njóta þjónustunnar. Þá bendir Tabú á þær hindranir sem fatlað fólk verður fyrir í skólakerfinu og að margt fatlað fólk fær ekki þá aðstoð sem það þarf til að njóta menntunar. Einnig þyrfti að gera grein fyrir yfirvofandi breytingum á lánaumhverfi námslána, sem munu, eins og þær eru settar fram, útiloka möguleika fatlaðs fólks á háskólamenntun með námslánum og námsstyrkjum, þar sem fatlað fólk býr almennt ekki við atvinnuöryggi og háar tekjur, og/eða getur oft ekki, vegna hindrana í umhverfinu, lokið námi á þeim tíma sem gerðar eru kröfur um.

  1. Athugasemdir varðandi kafla um stöðu mannréttinda fatlaðs fólks

Í kafla 3.4 er fjallað sérstaklega um réttarstöðu fatlaðs fólks. Tabú gerir alvarlega athugasemd við fullyrðingu sem sett er fram í skýrslunni um að gildandi lög séu „nánast í samræmi við“ markmiðsákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og nauðsynlegar breytingar laga hafi verið gerðar svo aðeins standi formleg lögfesting út af borðinu. Þessi fullyrðing lýsir í besta falli alvarlegri vanþekkingu á því lagaumhverfi og veruleika sem snýr að fötluðu fólki á Íslandi annars vegar og inntaki Samningsins hins vegar. Nær væri að tala um hyldýpi sem ber í milli hvað varðar upplifun fatlaðs fólks af núverandi stöðu réttinda og þeim markmiðum um mannréttindi sem ríki skulu uppfylla með Samningnum. Vísað er til Greinargerðar um fullgildingu sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Innanríkisráðuneytið birti þann 23. apríl 2013 og hátt í 50 síðna vinnuskjals Innanríkisráðuneytisins frá 16. júlí 2015 sem ber fyrirsögnina Tafla yfir lög og reglugerðir sem varða samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Þá gerir Tabú athugasemd við fullyrðinu í kafla 3.2.1 um að í íslenskum lögum sé að finna bann við mismunun í garð fatlaðs fólks en það er einungis handahófskennt og er ekki til staðar alls staðar þar sem það ætti að vera. Freyja Haraldsdóttir, talskona Tabú og varaþingkona Bjartrar framtíðar, var fyrsti flutningsmaður á haustþingi 2015 á frumvarpi um breytingar á ákvæðum ým­issa laga um bann við mis­mun­un. Þar lagði hún til, einmitt af ofangreindum ástæðum, að fötlun yrði bætt við upptalningu mismununarbreyta á al­menn­um hegn­ing­ar­lög­um, nr. 19/​1940, stjórnsýslu­lög­um, nr. 37/​1993, lög­um um starfs­kjör launafólks og skyldu­trygg­ingu lí­f­eyr­isrétt­inda nr. 55/​1980 og lög­um um rétt­indi sjúk­linga, nr. 74/​1997. Frumvarpið hefur ekki fengið endanlega afgreiðslu Alþingis. Fatlað fólk er undanskilið í upptalningu 65. greinar stjórnaskrárinnar og hefur ítrekað þurft að leita til dómstóla vegna mismununar sem það er beitt kerfislægt og kerfisbundið. Dómar í málum er varða mannréttindi fatlaðs fólks hafa ítrekað leitt í ljós að almennur stjórnarskrávarinn réttur nær ekki til fatlaðs fólks.

Í kaflanum er fjallað um lög um réttindagæslu við fatlað fólk og sagt að þau eigi að uppfylla 12. grein Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Tabú fagnar því að skref hafa verið tekin við að auka réttarvernd fatlaðs fólks en vill samt benda á að ýmsar brotalamir eru í löggjöfinni og framkvæmdinni. Í fyrsta lagi er réttindagæslan staðsett innan velferðaráðuneytisins. Það dregur úr vægi réttindagæslunnar þar sem henni ber að hafa eftirlit með því sama ráðuneyti og sveitafélögunum. Við teljum að réttindindagæslan eigi að vera sjálfstættt batterí eða hluti af sjálfstæðri mannréttindastofnun. Ef staðsetja á réttargæsluna innan ráðuneytis teljum við að eðlilegra væri að hún væri stödd í innanríkisráðuneytinu, bæði vegna þess að þar liggur ábyrgð á mannréttindamálum, en jafnframt vegna þess að innanríkisráðuneytið er ekki ábyrgt fyrir lagasetningu, stefnumótun og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk sem nú liggur hjá velferðaráðuneytinu í samstarfi við sveitafélögin. Við teljum einnig gagnrýnivert að menntunarkröfur réttindagæslufólks séu ekki á sviði lögfræði og því skiljum við ekki fyllilega hvernig það á að geta varið réttindi fatlaðs fólks á grundvelli laganna. Enn fremur er það reynsla okkar að réttindagæslan er fáliðuð og annar ekki öllum þeim málum sem koma á borð þeirra sem gerir það að verkum að biðin er oft löng og fólk gefst jafnvel upp á að leita réttar síns.

Hvað varðar notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) teljum við lykilatriði að skýrslan tiltaki að einungis um 50 manns noti slíka þjónustu. Þjónustuformið átti að lögfesta 2014 en hefur það nú tafist í rúm tvö ár og stefnir allt í frekari tafir. Þetta hefur sett líf fatlaðs fólks með NPA í mikið uppnám þar sem að sveitarfélögunum er í sjálfsvald sett hvort það veitir þjónustuna eða ekki, sem þýðir að fatlað fólk getur ekki flutt milli sveitafélaga. Jafnframt gerir lögleysan það að verkum að erfitt er að koma strúktúr á þjónustuformið sem bitnar á notendum. Þar að auki hefur lítið verið gert til þess að styðja frumkvæði fatlaðs fólks á sviði umsýslu NPA og því lendir mikil vinna á hverjum einstaklingi og litla ráðgjöf og stuðning er að fá. Á öðrum Norðurlöndum hafa stjórnvöld fjárfest í samvinnufélögum fatlaðs fólks og hjálpað þeim að byrja starfsemi sína en þannig má betur halda utan um þjónustufyrirkomulagið og fjölbreyttari hópur fatlaðs fólks getur haft tækifæri til að nýta sér þessa leið í þjónustu. Árið 2013 varð mikil stefnubreyting á samstarfsverkefninu um NPA en skipt var út formanni á verkefnastjórnar NPA í óþökk fatlaðs fólks og heildarsamtaka fatlaðs fólks. Þarna var tekin meðvituð ákvörðun um að breyta forystu verkefnisins þrátt fyrir að því væri senn að ljúka og mikil þekking lægi hjá formanninum sem var í forystu verkefnisins. Úttekt á verkefninu, sem minnst er á í skýrslunni, liggur fyrir en hefur þó ekki verið opinberuð. Það er erfitt fyrir fatlað fólk að trúa því að lögfesting sé í sjónmáli þegar búið er að svíkja það ítrekað, svo að nauðsynlegt er að taka fram, miðað við það sem að á undan er gengið, að hér sé ekki trygging á lögfestingu. Samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð er afar gott dæmi um að stjórnvöld eru stöðugt að brjóta ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fatlað fólk hefur ekki sömu tækifæri og ófatlað fólk á að lifa sjálfstæðu lífi, fötluð börn hafa ekki sömu tækifæri til þess að alast upp hjá fjölskyldum sínum með viðeigandi aðstoð, það er ekki haft samráð við fatlað fólk við innleiðingu verkefnisins nema að mjög takmörkuðu leyti og fötluðu fólki í samstarfsverkefninu er stöðugt haldið í óvissu um öryggi sitt til frambúðar.

Í umsögn innanríkisráðuneytisins í sama kafla er einnig fjallað um breytingar á kosningalögum. Það er rétt að búið er að tryggja ákveðnu fólki, þ.e. hreyfihömluðu og blindu fólki, möguleika á að kjósa í einrúmi með aðstoð að eigin vali. Þetta gildir þó ekki um fólk sem lögunum samkvæmt tjáir sig ekki skýrt. Hér er um gróft mannréttindabrot að ræða af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi skilgreina lögin ekki hvað það að tala skýrt þýðir sem að gefur starfsólki á kjörstöðum vald til þess að meta það eftir eigin geðþótta. Dæmi er um að fólki hafi verið hafnað möguleikanum til að kjósa í lýðræðislegum kosningum vegna þessa. Það sem gerir þessa stöðu verri er að það fólk sem tjáir sig óhefðbundið er einmitt hópur sem þarf nauðsynlegast af öllum að hafa einhvern sér til aðstoðar sem skilur tjáningu þess. Með því að útiloka þennan hóp er ekki verið að tryggja öryggi vegna þess að líklegt er að starfsfólk kjörstaða skilji ekki kjósandann og geti því ekki aðstoðað hann eða aðstoðar hann vitlaust. Tabú telur mikilvægt að skýrslan segi sannleikann um þessa stöðu. Jafnframt má benda á að margt má betur fara hvað varðar aðgengi fatlaðs fólks að lýðræðislegum kosningum og væri margt hægt að gera með einfaldari hætti ef aðgengi væri betra, tæknin nýtt betur og fólki væri treyst til þess að velja hvernig aðstoð það vill og frá hverjum. Það er hefð fyrir því á Íslandi að láta örlítið prósentuhlutfall þeirra sem svindla stjórna lagasetningu og verkferlum sem gerir það að verkum að það bitnar alvarlega á yfirgnæfandi stórum meirihluta heiðarlegs fólks sem einfaldlega vill nýta sinn kosningarétt og önnur réttindi

Samantekt

Fatlað fólk á Íslandi býr við „mismunun vegna fötlunar“ í skilningi Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem það býr við ýmiskonar aðgreiningu, útilokun og/eða takmörkun á grundvelli fötlunar. Ítrekað koma upp mál sem opinbera slæma réttarstöðu fatlaðs fólks og ljóst er að staða fatlaðra kvenna og barna er sérstakt áhyggjuefni. Núverandi kerfi er langt frá því að uppfylla þær kröfur sem Samningurinn gerir til ríkis. Gildandi lög og framkvæmd er langt frá því að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi sem Samningurinn áréttir. Í ljósi þess hversu knýjandi þörfin er fyrir skýr mannréttindaákvæði sem vernda fatlað fólk verður að gera þá kröfu að sú skýrsla sem hér er til umfjöllunar segi skýrt frá raunverulegri stöðu mála. Það hefur ekki verið gert og hvetjum við innanríkisráðuneytið til þess að koma á fót samráði við fatlað fólk (ekki ófatlaða fulltrúa heildarsamtaka sem sögð eru vera fyrir fatlað fólk), hafa gagnsæi í vinnubrögðum sínum og sýna jaðarsettum hópum þá virðingu að fá þá að borðinu frá upphafi ferils til enda í málum sem það varðar með beinum eða óbeinum hætti. Tilgangur UPR skýrsluöflunar Sameinuðu þjóðanna er að fylgjast með framgangi mannréttinda í hverju landi og því hlýtur það að vera lykilatriði skýrslunnar að endurspegla sem allra best þá stöðu.

Fyrir hönd Tabú,

Arndís Hrund Guðmarsdóttir

Ágústa Eir Guðnýjardóttir

Ásdís Jenna Ástud Ástráðsdóttir.

Bára Halldórsdóttir

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Erla Björg Hilmarsdóttir

Freyja Haraldsdóttir

Hrafnhildur Kristbjörnsdóttir

Margrét Ýr Einarsdóttir

Pála Kristín Bergsveinsdóttir

Sigríður Jónsdóttir

Þorbera Fjölnisdóttir

Þórey Maren Sigurðardóttir

10 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page